Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:47:51 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil í mikilli vinsemd beina því til hæstv. forseta að greiða fyrir þingstörfum með því að fresta nú fundi um sinn á meðan við erum að fá niðurstöðu í þann fund sem nú stendur yfir með forseta þingsins og formönnum flokkanna vegna þess að ljóst er að útkoman úr þeim fundi getur haft veruleg áhrif á þá umræðu sem hér á eftir að fara fram. Vel getur verið að á þeim fundi upplýsist eitthvað sem okkur er ekki ljóst núna en við þurfum hins vegar að vita til að hafa forsendur til að geta rætt þessi mál frekar.

Þetta er eins og að vera staddur í leikhúsi fáránleikans. Hér erum við með skjöl sem eru fyrir okkur lögð, (Gripið fram í.) handrit þar sem sagt er frá því að fundur hafi verið haldinn fyrr á þessu ári með hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra veit ekki til þess að sá fundur hafi verið haldinn. Ég hef ekki heyrt neina tilgátu betri en þá sem ég kom fram með áðan að þetta hljóti að hafa verið einhvers konar skyggnilýsingarfundur þar sem hæstv. utanríkisráðherra bara svona birtist.

Síðan hefur það líka verið upplýst að þessi stofa hafi lagt fram gögn, m.a. til fjármálaráðuneytisins, ráðuneytis hæstv. fjármálaráðherra, (Forseti hringir.) sem hefðu getað styrkt samningsstöðu okkar. (Forseti hringir.) Spurningin sem formaður samninganefndarinnar þarf að svara er þessi: Með hvaða hætti var farið með þetta í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga?