Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:06:16 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er löngu orðin lenska hjá ríkisstjórninni í þessu máli og fulltrúum meiri hlutans að reyna að gera lítið úr öllum sem koma fram með ekki bara gagnrýni heldur jafnvel ábendingar um hvað betur mætti fara í þessu máli. Málflutningur hv. formanns fjárlaganefndar hérna áðan um þessa lögmannsstofu í London er svo sem í samræmi við það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið fram og ég trúi ekki öðru en að þessi lögmannsstofa svari fyrir sig.

Ég get ekki metið það hvort þeir hafa í upprunalegu bréfi sínu verið að vísa í eitthvað sem hv. þingmanni þykir óþarfi að benda á. Það er hins vegar alveg ljóst að eftir að hv. formaður fjárlaganefndar sagði stopp, eins og hann orðaði það, fór af fundi og nennti ekki að bíða lengur eftir að fleiri tölvupóstar og upplýsingar kæmu þar inn, bárust póstar með upplýsingum sem ég held að við verðum að fá svigrúm til þess að fara yfir.