Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:10:47 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi þá umræðu sem hér stendur yfir hefði verið auðvelt að forðast hana með þeim einfalda hætti að leggja fram þær upplýsingar sem óskað var eftir á fundi fjárlaganefndar 22. desember sl. Það hefði gefið okkur öllum rýmri tíma til þess að taka ábyrgari og upplýstari ákvarðanir varðandi þetta mál. Þetta er greinilega unnið undir gríðarlegri pressu úr öllum áttum, sama hvort við erum að ræða um fjárlaganefndina, Mishcon de Reya eða íslenska starfsmenn og nefndarmenn í samninganefnd um Icesave. Það sem stendur samt sem áður eftir er sú einfalda staðreynd að við höfum fengið fyllri upplýsingar af stöðu mála, það er óumdeilt. Hvernig þær gagnast okkur er hins vegar allt annað mál.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvernig honum hafi líkað að vinna eftir þeim skilmálum sem fjárlaganefndin (Forseti hringir.) hefur þurft að sæta núna síðastliðinn sólarhring þegar málið er farið úr nefnd til meðferðar á Alþingi og nefndin hefur í rauninni ekkert umboð til þess að vinna með það.