Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:14:29 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur ekki verið í þeim drullupollaleik sem ég lýsti áðan og það var ekkert athugavert við að hann óskaði eftir að fá ákveðin gögn í málinu. Það sem olli mér mestum vonbrigðum var með hvaða hætti því var svarað þegar við gengum eftir því að fá sem bestar upplýsingar um málið. Á hverjum tíma getum við sagt: Það þarf rýmri tíma. En það kostar líka vinnu og það verða allir að vera í þeirri vinnu. Þá er ég ekki heldur að tala um hv. þm. Kristján Þór Júlíusson því að hann hefur sinnt þessu afar vel. (Gripið fram í.) Taki þeir það til sín sem eiga.

Ég hef sagt um þetta mál alveg frá því að við byrjuðum að vinna að því að það er á öllum tímum hægt að segja að ef við værum að byrja að vinna að málinu en hefðum þá reynslu sem við höfum núna mundum við gera margt öðruvísi. Það hjálpar okkur bara ekkert í stöðunni í dag. Það er ákveðin atburðarás búin að eiga sér stað, menn hafa höndlað hlutina með mismunandi hætti á mismunandi tímum, menn hafa tekið upp ákveðin mál. (Forseti hringir.) Það eru til skjöl um þau mál öllsömul og ég ætla ekki að fjalla um þau aftur í þriðju umferð.