Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:23:18 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina því að hann lýsti því hér yfir að hann væri í ójafnvægi, ekki út af svefnleysi heldur út af öðru. Það er ekki gott að taka stórar ákvarðanir í slíku ástandi. (Gripið fram í: Í guðanna bænum. …) (Gripið fram í: Þetta var alveg fyrir neðan …)

Virðulegi forseti. Þetta er það sem hv. þingmaður sagði hér rétt áðan orðrétt og það geta allir flett því upp sem vilja. Stóra málið er hins vegar það að þegar hv. þingnefnd kallar á embættismann og vill fá hann á fund er það í hæsta máta óeðlilegt ef það gengur ekki eftir. Þetta snýst ekkert um það hvort menn vilji vera í þessu lengur eða skemur. Það verður eðli málsins samkvæmt að upplýsa þetta og það er hv. þings að gera það. Ég treysti hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, Guðbjarti Hannessyni, til að leiða það mál til lykta en þá verður hann líka að gera það.