Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:37:45 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir hans yfirferð hér. Já, við þingmenn erum afar undrandi á því hvernig haldið er á málum. Sífellt berast ný gögn inn í þetta mál og ríkisstjórnin ber enn þá hausnum við steininn. Það er alveg hreint með ólíkindum, hér er búið að fresta þingfundi í allan dag og það veit enginn hvað hann á að gera.

Hv. þm. Þór Saari talaði um málið í sumar, hvað það hefði verið vel unnið og að fjárlaganefnd hafi staðið sig vel. Ég vil minna á að fyrirvararnir voru settir vegna þess að ríkisstjórnin kom fyrst heim með algjörlega óásættanlega samninga, upphaflegu Icesave-samningana, þannig að þingmenn tóku höndum saman og unnu að þessum fyrirvörum sem urðu síðan uppistaðan í lögum nr. 96/2009, sem samþykkt voru á Alþingi 28. ágúst.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í þau ummæli hv. formanns fjárlaganefndar sem féllu hér í þinginu í fyrradag þegar hann var í andsvari við mig. Þar sagði hann berum orðum:

„Við vissum þetta þá nóttina að Bretar og Hollendingar höfðu hafnað fyrirvörunum.“

Þetta var aðfaranótt 28. ágúst sem Alþingi samþykkti þessi lög. Þarna vissi ríkisstjórnin að málið var komið í uppnám. Þetta skýrir líka af hverju ríkisstjórnin lagði aldrei neitt á sig til að kynna lögin fyrir Bretum og Hollendingum. Það var út af því að þeir vissu að sá tími væri notaður til einskis því að þeir vissu það áður en lögin voru sett í sumar að Bretar og Hollendingar mundu ekki sætta sig við lögin sem Alþingi var platað til þess að samþykkja. Ég hef spurt þingmenn Vinstri grænna hvort þeir hefðu vitað þetta, svarið hefur verið nei. Samstarfsflokkurinn var blekktur, þingmenn voru blekktir, þjóðin var blekkt, það var farið hér inn með lagasetningu (Forseti hringir.) sem vitað var að væri fallin.