Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:39:56 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur ágætisupprifjun á mikilvægri yfirlýsingu formanns fjárlaganefndar þar sem hann telur sig hafa vitað fyrir fram að þessum lögum yrði hafnað af Hollendingum og Bretum. Ég minnist þess líka að hann hafi engu að síður haft þá trú á lagasetningunni að hann sagðist ætla að standa við hana og reyna að vinna henni fylgi.

Það kom svo síðar í ljós þegar þessi lagasetning var kynnt fyrir Hollendingum og Bretum og embættismennirnir sem fóru út komu úr þeirri sneypuför, að þeir virtust ekki hafa skilið löggjöfina eða þá fyrirvara sem settir voru inn í þá löggjöf. Það hefur ekki verið upplýst hvort þeir hafi einfaldlega ekki fengið nægilega góðar upplýsingar úr fjármálaráðuneytinu um hvað þetta snerist allt saman eða hverjar þeirra skipanir voru þegar þeir fóru í þessar kynnisferðir. En eitt er alveg öruggt, þeim leiðangri var klúðrað og málið var dregið hér aftur inn í þingið vegna þess að Bretar og Hollendingar voru ekki sáttir við það.

Ég sagði hér áðan að það er kominn tími til að Alþingi og Íslendingar standi í lappirnar í þessu máli. Við höfum ágætislög frá því í sumar sem fyllilega er hægt að standa við og við eigum bara að standa við þau.