Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:47:03 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra þetta andsvar og tækifæri til þess að ræða þetta mál. Vissulega er það alleinkennilegt eftir að hafa skilað af sér 86 blaðsíðna skýrslu að fá í hendurnar bréf þar sem talað er um fjögur mismunandi atriði sem varpað geta frekari ljósi á Icesave-málið. Ég átta mig ekki á því frekar en aðrir hvers vegna þeir senda þetta bréf eða hafa það í bréfinu en kórréttu viðbrögðin við slíku bréfi eru ekki að ákveða fyrir fram að þær upplýsingar sem ekki hafa verið sendar séu einskis virði. Kórréttu viðbrögðin eru einfaldlega þau að óska eftir því samstundis að fá upplýsingar um hvað þarna er á seyði þannig að menn geti þá einfaldlega lagt mat á hvort þessar upplýsingar eru mikilvægar eða ekki.

Hvað upplýsingastreymið varðar, þegar ég stóð hér í dyragættinni í einu andsvari hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan bárust mér skilaboð í hægra eyra mitt, hvorki meira né minna, um að það væru enn að streyma inn skilaboð. Með þessu áframhaldi fara þau bara að flæða út um hitt eyrað því að upplýsingarnar streyma svo hratt inn.