Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:54:58 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið m.a. hjá hv. formanni þingflokks Framsóknarflokksins, að það er erfitt fyrir okkur þingmenn að halda þessari umræðu áfram.

Mér er kunnugt um það, frú forseti, að klukkan fjögur standi til að halda fund formanna flokkanna ásamt forseta. Ég tel einboðið að við gerum hlé hér á fundi þar til þeim fundi er lokið og það sé þá komin einhver niðurstaða á milli flokkanna um framhald þinghaldsins.

Eins og hér hefur komið fram eru enn að berast gögn til þingsins sem snúa að þessu máli. Það er ekki boðlegt það sem hæstv. utanríkisráðherra gerði, að afgreiða þau gögn með þeim hætti sem raun ber vitni. Það getur vel verið að hæstv. utanríkisráðherra þyki þetta ekki merkileg gögn en það er þingsins og okkar þingmanna að ákveða það. Það gerum við ekki nema við höfum haft tækifæri til þess að leggja mat á þau. (Forseti hringir.) Ég treysti ekki mati hæstv. utanríkisráðherra í þessum málum.