Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 16:07:40 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að tala um fundarstjórn forseta vegna þess að þetta er náttúrlega ekki boðlegt. Hér stóð til, eftir því sem okkur skildist, að hafa fund formanna flokkanna klukkan fjögur. Nú veit ég ekki hvort honum hefur verið frestað eða ekki. Ég veit það bara að við fáum hér gögn. Það virðist vera þannig — nú situr hæstv. utanríkisráðherra í sínu sæti og hlustar á þetta (Gripið fram í.) — að samningatækni ríkisstjórnarinnar þoli ekki dagsljósið vegna þess að nú er búið að fresta fundum ítrekað í allan dag og við erum að fara aftur inn í náttmyrkrið. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að knúin verði fram atkvæðagreiðsla um þetta stóra og mikilvæga mál þegar vitað er að enn eru að berast gögn, þegar vitað er að við höfum ekki haft tækifæri til að kynna okkur þau, þegar vitað er að umræðan er takmörkuð við 3. umr.

Ég á fimm mínútna (Forseti hringir.) ræðu eftir sem ég ætla að spara mér vegna þess að ég vil fá að vita um hvað ég er að tala um áður (Forseti hringir.) en ég flyt mína seinustu ræðu í þessu máli. Ég tek því heils hugar, frú forseti, undir með hv. þm. Pétri Blöndal (Forseti hringir.) um að við þurfum meiri umræðu.