Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 16:21:46 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er um margt mjög óvenjulegt mál og af því má margt læra. Við getum eflaust dregið töluverðan lærdóm af því sem átt hefur sér stað hér í dag, með hvaða hætti við vinnum að þeim verkum sem okkur alþingismönnum hafa verið falin. Það sem skyggir á þetta verklag er sú þrætubókarlist sem um þessi mál er stunduð, en upp í hana er boðið, því miður.

Ég vil einungis nefna það sem hér er um deilt nú, það eru upplýsingar sem komið hafa frá lögfræðistofunni Mishcon de Reya og samskipti hennar við fjármálaráðuneytið eða ríkisvaldið og íslensku samninganefndina. Inn í þetta dragast síðan þrætur viðkomandi einstaklinga. Við höfum fengið yfirlýsingu frá formanni samninganefndarinnar, við höfum fengið gögn og tölvupósta og nú hrúgast yfir alþingismenn og fjárlaganefndarmenn alls konar upplýsingar sem hægt og illa gengur að melta og koma til skila.

Það liggur fyrir núna að lögfræðistofan Mishcon de Reya sendir frá sér yfirlýsingu út af yfirlýsingu sendiherra eða formanns samninganefndarinnar íslensku. Það sem þar er rætt um staðfestir í rauninni það sem gefinn var ádráttur um í bréfi þeirra sem okkur barst seinni partinn í gær, undir kvöldmat, varðandi þann fund sem er kannski uppsprettan að þessu öllu saman en óskað var eftir gögnum frá þessum fundi 26. mars. Þar voru þátttakendur Svavar Gestsson, Huginn Þorsteinsson, Áslaug Árnadóttir og Mike Stubbs, John Young, Gunnlaugur Erlendsson og Rebecca Stubbs. Þar er undirstrikað að á þessum fundi hafi formaður samninganefndarinnar óskað þess að ákveðnar upplýsingar yrðu teknar út úr umræddri kynningu sem var á fundi sem hæstv. utanríkisráðherra átti með starfsbróður sínum í Bretlandi.

Áfram heldur því þessi deila og skilar okkur í rauninni ekki nokkrum sköpuðum hlut. Spurt var í andsvörum og umræðum áðan hvort þetta væri ekki allt saman á ábyrgð stjórnarandstöðu eða meiri hluta stjórnarliðanna. Þetta er í rauninni á ábyrgð okkar allra en eins og ég hef áður sagt í þessari umræðu er meirihlutastjórn í landinu. Gallinn er sá í þessu tiltekna máli að þegar málið kom fyrst fram var ekki meiri hluti fyrir því sem ríkisstjórnin lagði fram á Alþingi. Við höfum síðan þá sopið seyðið af því verklagi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr að heyra það.

Í stað þess að standa saman um lausnina á þessu, að stjórn og stjórnarandstaða vinni saman, að við vinnum með þeim hætti traust þess fólks sem trúði okkur fyrir þeim verkefnum sem okkur var ætlað að sinna, hefur megnið af árinu farið í alls konar rifrildi. Oft og tíðum er það um smáatriði í stað þess að við einbeitum okkur að stóru atriðunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Í mínum huga snýst þetta í grundvallaratriðum um það með hvaða hætti Alþingi ætlar að ávinna sér virðingu og traust fólks í landinu sem hefur trúað því fyrir þeim verkefnum sem því er ætlað að sinna. Almenningur botnar hvorki upp né niður í þessari þrætu sem upp er risin. Hann gerir sér hins vegar fullkomlega grein fyrir því og skynjar það mjög vel að þingið ræður ekkert við verkefni sín. Í mínum huga er það óumdeilt að það skortir á verkstjórn og festu og það er á ábyrgð okkar allra að koma henni á. Höfuðábyrgðina bera þeir stjórnmálaflokkar og þau stjórnmálaöfl sem tóku upp samstarf og hófu hér meirihlutastjórn í sumar. Búið er að bjóða upp í sameiginlega vegferð með því samstarfi. Því miður var það verklag (Forseti hringir.) sem Alþingi kom á í sumar ekki endurnýjað af einhverjum ástæðum og það er stjórnarliðanna að útskýra hvers vegna í ósköpunum (Forseti hringir.) horfið var frá því samstarfi.