Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 16:29:48 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég deili alveg skoðun hæstv. utanríkisráðherra á því að það er mjög slæmt að draga einstaklinga inn í umræðu sem þessa þegar gleggri upplýsingar um málsatvik liggja ekki fyrir en raun ber vitni í þessu máli. Meðal annars af þeirri ástæðu þótti mér verra að formaður samninganefndarinnar kom ekki til fundar við fjárlaganefnd til þess að verja stöðu sína gagnvart þeim ávirðingum sem komu fram í áliti Mishcon de Reya. Ég mæltist til þess af þeim ástæðum.

Ég hef áður í umræðu um þetta mikla mál lýst fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni á störfum samninganefndarinnar. Hún situr uppi með alla þá ábyrgð og ég hef undirstrikað það í þessari umræðu að þar hafa menn verið að reyna að vinna störf sín eftir bestu getu hverju sinni, ég ætla ekkert að deila um það.

Það sem ég deili á og er algjörlega á öndverðum meiði við hæstv. utanríkisráðherra, er að sú samstaða sem náðist á Alþingi hér í sumar í varðstöðu fyrir þjóðarhagsmuni, brotnaði upp í september og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Íslands í þeim efnum. Hún ber alla ábyrgð á því og það mál sem við ræðum hér í dag í stóra samhenginu er lítið í mínum huga. Í því máli kristallast það að vantraustið á milli stjórnar og stjórnarandstöðu er algjört og (Forseti hringir.) maður hlýtur að kalla (Forseti hringir.) eftir því að forganga um breytingar á því komi frá hæstv. ríkisstjórn.