Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 16:39:28 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ekki það að ég hafi sérstakt yndi af því að koma hér upp í þessum lið, um fundarstjórn forseta, en ég óska eftir því, frú forseti, að forseti svari því sem hér er beint til hennar. Við eyddum hálftíma af tíma þingsins í það áðan að spyrja frú forseta hvort hún hygðist verða við óskum okkar í stjórnarandstöðunni og gera hlé á þessum fundi til þess að við getum farið yfir þau gögn sem berast hingað og til þess að leita frétta af því hvað formönnum stjórnmálaflokkanna hafi farið á milli, hvort sá fundur hafi yfirleitt átt sér stað, vegna þess að það voru einhverjar deildar meiningar um það hérna áðan.

Ég hef setið hér yfir þessum umræðum, frú forseti, vegna þess að ég ætla að taka þátt í þeim og ég vil kynna mér þessi mál til hlítar. Ég hef ekki tíma til þess að flandra hér um húsið og leita að gögnum, leita mér upplýsinga. (Forseti hringir.) Forseti hlýtur að átta sig á því að við þurfum að biðja um örstutt hlé á þessum fundi, og það er ekki stór ósk, til að við getum (Forseti hringir.) kynnt okkur þessi mál.