Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 16:43:26 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það kom fram hér hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni áðan að forseti Alþingis hefði stöðvað póstsendingar frá lögmannsstofu í Englandi til Alþingis. Ég veit ekki til þess að það hafi komið fram hjá forseta Alþingis. Hins vegar hélt hv. þm. Höskuldur Þórhallsson því fram hér áðan og það eru ekki algjörlega traustar upplýsingar hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Hér biðjast menn undan fundarhöldum um þetta sama mál sem hefur verið rætt hér á áttunda mánuð. Það versta við þetta mál, virðulegi forseti, er að stjórnarandstaðan hefur afhent vald sitt til lögmannsstofu í Bretlandi. Stjórnarandstaðan á Íslandi telur ekki fært að halda fundi á Alþingi Íslands á meðan tölvupóstar berast frá lögmannsstofu í Bretlandi. Er hægt að leggjast lægra, virðulegi forseti, í fundarsköpum á Alþingi ef ganga á að þeirri kröfu stjórnarandstöðunnar að bresk lögmannsstofa ráði því hvernig umræður fara fram á Alþingi Íslendinga? Þetta er hreint og beint niðurlægjandi beiðni, virðulegi forseti, af (Forseti hringir.) hálfu stjórnarandstöðunnar og ég hvet til þess að umræðum hér verði haldið áfram þangað til yfir lýkur.