Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 16:48:52 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hefði nú viljað að hv. þm. Björn Valur Gíslason (Gripið fram í.) væri hérna í salnum. Hann hefur yfirgefið salinn en hann var með stór orð gagnvart hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni um að hann færi með rangt mál þannig að ég vil, með leyfi forseta, lesa hér úr einum tölvupóstinum. Ég ætla að lesa fyrst á frummálinu en snara því umsvifalaust yfir á íslenska tungu, ef virðulegum forseta finnst það vera í lagi.

Með leyfi forseta, þetta er tölvupóstur sendur í dag klukkan 14.35:

„Dear Mike. Thank you for forwarding these e-mails. I have just spoken with the Speaker of Althingi and it has been confirmed that we will not require any further e-mails from Mishcon de Reya.“

„Elsku Mikki minn. Þakka þér fyrir að senda okkur alla þessa tölvupósta. Ég er búinn að tala við forseta þingsins og hann er búinn að staðfesta að við viljum ekki fá neina fleiri tölvupósta frá Mishcon de Reya.“

Þetta er bara einn af þeim tölvupóstum sem hér eru í gangi þannig að ég hvet hv. þm. Björn Val Gíslason til að kynna sér málin fyrst og tala svo.