Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 17:07:52 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það í upphafi máls míns að ég er afskaplega dapur í þessum ræðustól núna. Enn vinnum við þetta mál með algjörlega óásættanlegum hætti. Það eru enn þá að berast gögn um málið hér inn í þingsal og til fjárlaganefndar og menn gefa sér ekki tíma til þess að gaumgæfa þau nákvæmlega eða hvað í þeim felst. Það er afskaplega dapurlegt og vinnsla þessa máls hefur frá upphafi verið á þennan veg.

Það er kannski upphafið að öllum þessum vandamálum að í erindisbréfi samninganefndarinnar kemur fram að samninganefndinni er einungis ætlað það verk að ganga frá lánaskilmálum skuldbindingarinnar. Samninganefndin fékk þau skilaboð frá hæstv. ríkisstjórn, sem ber alfarið ábyrgð á þessu máli, þessi kommúnistaríkisstjórn, að ganga frá skilmálum lánasamnings. Það var kannski aldrei ætlun hæstv. ríkisstjórnar að verja okkur með öðrum hætti en þeim að ganga til samninga og ganga frá lánunum. Það er kannski undirrótin að því sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vakti athygli á í blaðaviðtali í sumar þegar hún sagði að Íslendingar hafi gengið til þessara samninga eins og sakamenn. Hún þekkir mjög vel til þessa máls. Það er kannski þess vegna sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði þetta, virðulegi forseti.

Síðan kemur það upp í gögnum sem okkur bárust í gær að fullyrt er af hálfu lögmannsstofunnar, sem margoft hefur verið nefnd hér, að formaður samninganefndar hafi tekið ákveðin gögn út úr pakka sem átti að kynna utanríkisráðherra. Nú vil ég þó segja það að þetta eru orð þessarar lögmannsstofu og ég geri þau ekki að mínum. Ég ætla að hlusta á orð hæstv. utanríkisráðherra og láta formann samninganefndarinnar sannarlega njóta vafans. Þess vegna var það enn þá dapurlegra að formaður samninganefndar skyldi biðjast undan því í morgun að koma á fund fjárlaganefndar til þess að ræða þetta mál með þeim hætti sem þurfti að gera.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði hér áðan að þetta hafi ekki skipt neinu máli á þeim fundi sem hann var á en að sögn þessarar bresku lögmannsstofu voru þarna ákveðin vopn Íslendinga til þess að ná betri niðurstöðu í málinu. (Gripið fram í.) Ég hef ekki séð þessi vopn eða gögn sem þeir benda á, vegna þess þegar Heritable bankinn var felldur vegna setningar hryðjuverkalaganna. Það vita allir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hver afleiðingin var af því þegar Bretar settu á okkur hryðjuverkalögin. Þau ollu okkur gríðarlega miklum skaða, á því er enginn vafi. Þess vegna vekur það enn þá meiri furðu mína, virðulegi forseti, að það skuli vera skrifað inn í samningana af hálfu samninganefndarinnar að falla eigi frá öllum kröfum sem Íslendingar eiga á hendur breskum stjórnvöldum vegna setningar hryðjuverkalaganna. Það er hreint alveg með ólíkindum að það skuli vera skrifað inn í samningana að fallið verði frá öllum kröfum sem Íslendingar eiga á hendur Bretum vegna setningar hryðjuverkalaganna þó að það hlytist klárlega af því mikill skaði fyrir íslenska þjóð þegar við vorum beitt þessum mikla órétti. Það er alveg hreint með eindæmum hvernig þetta var gert.

Ég gat þó ómögulega stutt það að fallið skyldi frá rétti íslensku þjóðarinnar til að sækja sér skaðabætur vegna setningar hryðjuverkalaganna, þótt ég styddi alla aðra fyrirvara hér í sumar eftir þá miklu og góðu vinnu sem fjárlaganefnd vann. Það er algjörlega með ólíkindum, sérstaklega eftir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Þetta eru ótrúleg vinnubrögð, virðulegur forseti.

Því miður hefur ríkisstjórnin, sem ber algjörlega ábyrgð á þessu máli frá upphafi til enda, verið algjörlega vanhæf til þess að standa vörð um hagsmuni íslenskrar þjóðar. Það hefur sannast í hverju skjalinu og á hverjum fundinum á fætur öðrum hvernig staðið hefur verið að þessum málum. Sagan mun dæma þessa Icesave-kommúnistastjórn. (Gripið fram í: Já.) (Forseti hringir.)