Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 17:15:03 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það komi alveg skýrt fram var það upplýst á fundi fjárlaganefndar í morgun að Svavar Gestsson, formaður samninganefndar Icesave-samninganna, hafnaði því ekki að koma á fund fjárlaganefndar, heldur baðst hann undan því og formaður fjárlaganefndar gerði ekki kröfu um að hann kæmi. Hins vegar óskaði ég eftir því sjálfur í fjárlaganefnd að undirbúinn og haldinn yrði símafundur með Mishcon de Reya, lögmannastofunni sem hélt þessu fram, og formanni samninganefndarinnar þannig að menn gætu farið yfir málið. Við þeirri beiðni minnihlutans var ekki orðið. Ég sagði ekki í ræðu minni áðan að formaður samninganefndar hefði hafnað því, ég sagði að mér hefði fundist það bagalegt að hann skyldi ekki koma, svo það sé algjörlega klárt. Hann hafnaði því ekki að koma, heldur baðst hann undan því og sendi inn minnisblað þar sem hann skýrði afstöðu sína til málsins. Eins og ég sagði í ræðu minni ætla ég að láta hann njóta vafans. Menn verða að fá að svara fyrir sig. Þess vegna hef ég talið bara eðlilegt og mikilvægt, sérstaklega fyrir hann, að gera það með þeim hætti að mæta á fund nefndarinnar. En það er ekki stóra ágreiningsmálið í þessu.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þó að manni verði stundum heitt í hamsi verður maður að reyna að gæta orða sinna. Ég hef reynt eftir fremsta megni að gera það þótt ég hafi stundum verið á gráu svæði, ég skal viðurkenna það. En það hefur alla tíð verið meining mín að við eigum ekki að saka fólk um það sem ekki er rétt. Það er mjög bagalegt og því miður, virðulegi forseti, höfum við lent í því, bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn, að gera það. Það er eitthvað sem við verðum að passa okkur á að gera alls ekki.