Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 17:17:10 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau varúðarsjónarmið sem hv. þingmaður hafði hér uppi, enda hefur hann getið sér orð fyrir að vera málefnalegur í málflutningi sínum hér. Þá er það hitt atriðið sem ég vil leiðrétta í ræðu hv. þingmanns, þ.e. að það hafi verið einhverjar nýjar upplýsingar sem utanríkisráðherra hafi ekki haft tiltækar. Það er nú alls ekki svo. Ég og minn flokkur, Samfylkingin, áttum í stjórnarsamstarfi með flokki hv. þingmanns, Sjálfstæðisflokknum, á árunum 2007 og fram á þetta ár sem kunnugt er. Við létum gera mjög ítarlega úttekt á því af hálfu mjög virtrar lögfræðiskrifstofu, hvaða möguleika við ættum í málsóknum sambærilegum þeim sem Mishcon de Reya vísar til. Um þær skýrslur var fjallað á fundum ríkisstjórnar Samfylkingar og flokks hv. þingmanns, Sjálfstæðisflokks, 6. og 9. janúar síðastliðinn. Það var niðurstaða þeirrar ríkisstjórnar að ekki væru efni til málshöfðunar en ef skilanefndir bankanna vildu sækja mál væri rétt að styðja þær í því. Það gerði skilanefndin í Kaupþingi, sem kunnugt er, en skilanefnd Landsbankans, sem ég fullyrði að hefur völ á lögfræðiráðgjöf í hæsta gæðaflokki á alþjóðavísu, hefur ekki séð ástæðu til þess. Þær staðreyndir, niðurstöður fyrri ríkisstjórnar og mat skilanefndar Landsbankans, verða menn auðvitað að hafa í huga þegar þeir skoða þessa glærukynningu frá Mishcon de Reya.