Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 18:18:00 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf jafngaman að fá innsýn í raunveruleikann hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, hann virðist alltaf vera svo mikið á skjön við raunveruleikann sem við hin búum í. Ég ætlaði nú samt aðeins að athuga hvort ég kæmi hv. þingmanni niður á jörðina. Þingmaðurinn talaði um það í sinni ræðu að hann teldi að það væru mjög miklar líkur á því að við gætum staðið undir greiðslum á þessum skuldum og það væru bara allra svartsýnustu spár sem sýndu fram á að við gætum það ekki. Mig langar til að spyrja hann út í hvernig standi þá á því að spá varðandi viðskiptajöfnuð á þessu ári gengur alls ekki upp hjá Seðlabankanum, sem hv. þingmaður byggir alla sína von á. Bankinn spáði 154 milljörðum í útflutningsjöfnuð fyrir árið 2009 en nú stefnir jöfnun í 100 milljarða, eða um 50% skekkju, þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi lagt fram þessa spá í (Forseti hringir.) júní á þessu ári. Maður hefði því talið að menn hefðu haft ágætisforsendur til þess að meta hvernig staðan yrði nú í lok ársins.