Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 18:19:16 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Seðlabanki Íslands hefur, eins og ég sagði áðan, verið beðinn oftar en einu sinni um að gefa álit sitt á greiðsluþoli Íslands og möguleikum þess á að greiða þær skuldir sem skildar voru eftir í hruninu síðasta haust handa þessari ríkisstjórn til að leysa úr. (Gripið fram í: Icesave?) Það má víst ekki nefna. Það má víst aldrei nokkurn tímann nefna það einu orði að saga þessa máls nær lengra aftur en til síðustu vordaga. (Gripið fram í: Þú treystir þér ekki til að …) Hvað það varðar ber að taka undir orð hv. þm. og formanns þingflokks Framsóknarflokksins sem taldi fulla ástæðu til þess hér áðan að hefja rannsókn á forsögu málsins. (Gripið fram í.) Það ætla ég rétt að vona að verði gert. Ég ætla að vona að sú skýrsla sem við fáum vonandi afhenta 1. febrúar í vetur verði upphaf að þeirri rannsókn og að þá verði þeir dregnir til ábyrgðar (Gripið fram í.) sem eiga að bera hana, virðulegi forseti.