Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 18:49:51 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Hér kem ég upp væntanlega í síðasta sinn í þessari umræðu um þetta ömurlega Icesave-mál, þennan ömurlega Icesave-samning sem Icesave-ríkisstjórnin, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á skuldlausan. Það er auðvitað hæðni að nota orðið „skuldlaus“ í sömu setningu og ég ræði um Icesave-samninginn. Hér kom hv. þm. Björn Valur Gíslason áðan og talaði um að hann og hans flokkur og þessi ríkisstjórn tækju pólitíska ábyrgð á þessum samningi. Hann væri allt að því stoltur af því og talaði um að hann bæri ábyrgð á lausninni. En hv. þm. Björn Valur Gíslason tekur ekki ábyrgð á þessu. Hæstv. fjármálaráðherra sem hefur líka spurt okkur hér í þingsal: Má ég þá ekki bara bera ábyrgð á þessum samningi? Mitt svar er nei. Ég er ekki tilbúin að fallast á að samþykkja þennan samning og leyfa hæstv. fjármálaráðherra að bera á honum pólitíska ábyrgð vegna þess að það eru börnin mín og barnabörn sem munu þurfa að bera ábyrgð á þessum samningi. Það er ekki hæstv. fjármálaráðherra sem ber þá ábyrgð. Þetta er sorgardagur í sögu þjóðar okkar vegna þess að ég óttast mest að það fólk sem stóð í lappirnar hér í sumar, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og fleiri, muni ekki gera það í kvöld. Þau munu bogna. Það þykir mér afar sorglegt og ég heiti á þau eina ferðina enn að hugsa sig nú vel um og koma með okkur í það verkefni að fella þennan ólukkusamning þannig að við getum öll tekið höndum saman og farið sem ein þjóð í þetta verkefni. Það er ömurlegt að hafa þetta svona, að málið sé komið á þennan stað, að það sé búið að splundra þjóðinni. Það er búið að splundra Alþingi vegna máls sem við eigum að standa saman um sem þjóð. Þetta er algjörlega óþolandi.

Ég segi það sem við sjálfstæðismenn höfum sagt í gegnum alla þessa umræðu: Við erum ekki að þessu til að sprengja ríkisstjórnina. Við erum að þessu í fullri einlægni til þess að koma í veg fyrir að þessi ömurlegi samningur verði að veruleika. Og við erum tilbúin til þess að gera hvað sem er til þess að gera hann betri og sýna Bretum og Hollendingum og öllum sem hafa lagt stein í götu okkar vegna þessa máls að við Íslendingar getum staðið saman á ögurstundu og við eigum að gera það. En ríkisstjórninni liggur svo á að koma þessu máli í gegn vegna þess að það gætu komið fram ný gögn. Við erum, þvert á það sem stjórnarþingmenn halda hér fram, sífellt að fá nýjar upplýsingar sem í rauninni gera ekkert annað en að staðfesta það sem við erum búin að halda fram allan tímann, að þessi samningur var gerður af getuleysi, metnaðarleysi, viljaleysi og, ég tek undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, hann var gerður af hroka og drambi. Menn leituðu ekki aðstoðar. Þegar menn fengu ráðleggingar, voru þær virtar að vettugi og þeim stungið undir stól.

Ég er ekki búin að fá svar frá hæstv. utanríkisráðherra sem þykist sitja hér yfir öllum umræðum en kemur einungis þegar honum hentar. Ég er ekki búin að fá svar um hvort formaður samninganefndarinnar hafi yfir höfuð veitt honum þær upplýsingar sem kippt var út úr kynningunni sem við fengum að vita um í gær. Fékk hæstv. utanríkisráðherra einhvern tímann að vita um gögnin um Heritable bankann? Ég er ekki búin að fá að vita það. Það er ýmsum spurningum ósvarað, t.d. um það sem við höfum fengið að vita núna síðastliðinn sólarhringinn. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra eru ógnarviðkvæmir gagnvart formanni samninganefndarinnar og maður má ekki gagnrýna hann. Hann er vænsti maður og allt gott um hann að segja, en það hlýtur að mega gagnrýna þann embættismann sem gefur kost á sér í þetta verkefni og niðurstaðan er sú sem hún varð. Þetta er harður heimur og menn verða að geta staðið í lappirnar og tekið gagnrýni.

Ég heiti á stjórnarþingmenn sem eru vonandi að hlusta. Hugsið málið. Það er ömurlegt að þessi (Forseti hringir.) atkvæðagreiðsla skuli fara hér fram í skjóli myrkurs. Þetta eru myrkraverk (Forseti hringir.) sem ömurlegt er að þurfa að horfa upp á.