Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 19:05:56 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Já, þetta er sorgardagur á Alþingi Íslendinga, sorgardagur fyrir samfélagið og sorgardagur fyrir framtíðarkynslóðir því að ef að líkum lætur er verið að berja menn til hlýðni til þess að þetta frumvarp fáist samþykkt hér á þingi á eftir. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni og það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði hér áðan, ég beini orðum mínum sérstaklega til þeirra þingmanna stjórnarflokkanna sem eru núna undir miklum þrýstingi, þ.e. hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, Ásmundar Einars Daðasonar, en líka til hv. þm. Þráins Bertelssonar, ég veit vel að þeim hefur öllum verið gerð grein fyrir því að mikil hætta sé á því að ef þetta mál verði fellt muni stjórnin falla: Þetta mál snýst ekki um ríkisstjórnina. Við í stjórnarandstöðunni höfum margsagt það hér og boðist til þess að axla ábyrgð með stjórnarliðum í þessu máli, sérstaklega eftir sumarþingið og þau vinnubrögð sem þar voru ástunduð og voru að vissu leyti nýlunda, að fara út sameinuð til þess að sýna samstöðu, hinn pólitíska vilja, þingvilja, á Íslandi. Það er eitthvað sem Hollendingar og Bretar skilja. Menn virða hinn pólitíska vilja, sérstaklega þegar um samstöðu er að ræða.

Það var ekki gert í sumar og þess vegna er þeim þingmönnum sem ég taldi upp áðan ógnað og sagt að þau verði að samþykkja þetta mál, ellegar sé stjórnin fallin. Það er ekki rétt. Ég undirstrika það, það er ekki rétt. Ég vil líka draga það fram að í öllu þessu ferli, allt frá því að hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrirspurn frá þingmanni og formanni Framsóknarflokksins 3. júní sl. um hvort samningar væru að takast, með því að það væri nokkuð í þá. En tveimur dögum síðar var búið að skrifa undir samningana. Menn í fjármálaráðuneytinu vissu frá því í maí af því að samningar væru á lokastigi. Þá byrjaði leyndin. Þetta mál allt, bæði það sem við ræddum í sumar og það sem við ræðum núna, hefur verið litað af leynd allan tímann. Svo leyfa menn sér að koma hingað og segja að það komi engin ný gögn fram í málinu.

Við sjálfstæðismenn fórum í það ásamt öðrum þingmönnum að breyta málinu í sumar. Það var komið í mikið óefni og við náðum þverpólitískri samstöðu, settum inn fyrirvarana og allir þekkja þá vegferð. Síðan kom ríkisstjórnin til baka með þetta hörmulega mál þar sem allt er farið út. Ég vil bara minna á Ragnars Halls-ákvæðið. Stjórnarþingmenn reyna að segja að Ragnars Halls-ákvæðið sé inni en hver er bestur til þess að dæma um það? Auðvitað er það Ragnar Hall sjálfur. Hann kom með þessar ábendingar til fjárlaganefndar sem tók þær inn á sínum tíma.

Ég vil geta dómstólaákvæðisins. Ég vil geta vaxtanna, nokkuð sem við tókum út í sumar, af því að það var sýnt fram á að við gætum borgað þessar skuldir fram til 2024 ef miðað væri við hávaxtaspá Seðlabankans sem var að okkar mati nokkuð bjartsýn. En engu að síður sögðum við með þessum fyrirvörum okkar frá því í sumar: Við munum greiða þetta ef allt gengur eftir.

Síðan vil ég líka draga fram að þetta mál snýst um að gera upp í erlendri mynt. Það snýst um að hér haldist áfram lágt gengi krónunnar. Almenningi og alþýðu Íslands hefur ekki verið sagt hvað það þýðir. Það þýðir versnandi lífskjör. Það þýðir minni kaupmáttur, minni hagvöxtur. Þetta hafa menn ekkert verið að draga fram, ekki aðrir en stjórnarandstaðan. Á þetta hefur ekki verið hlustað.

Síðan segja menn núna að ekki hafi nein ný gögn komið fram. Ég spurði ásamt fleirum í stjórnarandstöðunni um það í utanríkismálanefnd í sumar hvernig menn hafi haldið á málum í samningaferlinu öllu er snertir Heritable bankann. Það vita menn. Við höfum lögfræðiálit. Menn hafa sýnt fram á það, m.a. Mishcon de Reya. Þeir sögðu að staða okkar yrði mjög sterk ef við mundum beita þessu fyrir okkur í samningaviðræðunum. Hvenær var það gert? Það hefur komið fram núna að það var aldrei gert. Af hverju var það? Var það undirlægjuháttur eða var kappið svona mikið að klára málið af því að er svo erfitt, af því það er svo óþægilegt?

Ég spyr enn að því hvenær þessu var beitt í samningaferlinu, eftir að það var núllstillt, eftir að þessi ríkisstjórn var búin að taka það í sínar hendur. (Forseti hringir.) Hvenær var reynt að efla og styrkja stöðu Íslands í þessu samningaferli öllu? (Forseti hringir.)

Ég heiti á þá stjórnarþingmenn (Forseti hringir.) sem hafa samvisku að segja (Forseti hringir.) nei við þessu máli.