Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 19:11:25 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvaða tal er þetta hjá Sjálfstæðisflokknum um samstöðu? Hér var komið til móts við stjórnarandstöðuna, unnið með henni hönd í hönd í fjárlaganefnd í sumar og leitað eftir samstöðu. En þegar til kastanna kom hljópst Sjálfstæðisflokkurinn frá ábyrgð sinni, treysti sér ekki til að styðja málið í sinni endanlegu gerð, hann treysti sér ekki til að vinna að úrlausninni þrátt fyrir sína miklu ábyrgð á tilurð málsins. Það er rétt að halda því til haga.

En ég hlýt að spyrja hv. þingmann þegar hún talar um Heritable bankann hvort hún hafi ekki verið ráðherra í þar síðustu ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Hvort hún hafi ekki setið ríkisstjórnarfundi 6. og 9. janúar þar sem farið var yfir ítarlega unnin lögfræðiálit fyrir þá ríkisstjórn um málefni Heritable bankans og möguleika á málsóknum. Og hvort hún hafi ekki tekið þar þátt í því að ákveða að sækja ekki það mál af hálfu íslenska ríkisins en lýsa því yfir að ríkið væri tilbúið til þess að styðja fjárhagslega slíka málsókn ef skilanefnd Landsbankans teldi að fyrir því væru lögfræðilegar forsendur og líkur á að sækja mætti málið. Eða hvernig á að skilja þetta upphlaup hv. þingmanns yfir þeim skoðunum sem lögfræðistofan Mishcon de Reya lýsir seinna, og sannarlega var búið að þaulkanna og rannsaka af ríkisstjórn sem hún sjálf sat í og sem sjálf tók afstöðu til þessara hugmynda?