Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 19:15:26 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um samstöðuna sem tókst í sumar og þær vonir sem menn bundu við hana, það er sannarlega rétt að það var gert. Og þeim mun meiri vonbrigði urðu það okkur stjórnarliðum þegar Sjálfstæðisflokkurinn rann af hólmi þegar til stykkisins kom, treysti sér ekki til þess að styðja málið með þeim breytingum sem samstaða hafði tekist um og þar af leiðandi ekki að eiga aðild að því að bera ábyrgð á málinu eða vinna að lausn þess. Því miður. Ég held að það hafi verið gríðarleg mistök af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Ég held líka að þegar menn fara yfir stjórnmálasögu þessa tímabils muni margir hallast á þá skoðun.

Það var ekki svona, segir hv. þingmaður um Heritable bankann. Ég hvet hv. þingmann bara til þess að lesa sínar eigin fréttatilkynningar frá 6. og 9. janúar síðastliðnum, sem hv. þingmaður, þá sem ráðherra í ríkisstjórn, sendi út um þessi málefni. Vegna þess að hv. þingmaður þekkir til í bankaheiminum vil ég spyrja hana hvort hún telji ekki að þeir sem fara fyrir skilanefnd Landsbankans hafi á sínum snærum lögmenn í heimsklassa, færustu lögmannsstofu sem völ er á, til þess að ráðleggja sér um hvað sé skynsamlegt að gera til þess að hámarka endurheimtur á eignum Landsbankans. Ég treysti því svo sannarlega að svo sé. Og ég þykist vita og geta verið algerlega viss um að yfir það mál hafi verið farið af þeirra hálfu, enda kemur það fram hjá Mishcon de Reya að málshöfðunarrétturinn er skilanefndarinnar, ekki ríkisins. Málshöfðunarrétturinn var þess vegna ekki á hendi samninganefndarinnar heldur skilanefndarinnar, og við ráðum nú ekki fyrir kröfuhöfum þó að mikil séu völd okkar. (Gripið fram í.)