Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 19:17:25 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er sama hversu oft hv. þingmaður tönnlast á því að við höfum ekki tekið þátt í afgreiðslu þessa máls. Við unnum að fyrirvörunum í sumar og við greiddum þeim atkvæði. Ég spyr líka á móti, af því að það liggur alveg ljóst fyrir hvað gerðist eftir að löggjafarvaldið var búið að afgreiða málið, hvað gerist þá? Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði: Við tókum málið til okkar og afgreiddum það á okkar hátt. Já, svo sannarlega gerði ríkisstjórnin það. Hún tók málið til sín og klúðraði því, missti út Ragnars Halls-ákvæðið, tók aftur inn vextina sem við vorum búin að sameinast um að taka út. Það var síðan margt fleira sem ríkisstjórnin setti inn sem þingið var búið að taka út.

Ég hefði viljað sjá ríkisstjórnina sýna nýja verkstjórn, ný vinnubrögð, nýja hugsun hér á Alþingi. Hún var sjálf búin að boða og segja við okkur og forustumenn okkar framsóknarmanna og sjálfstæðismanna: Þið komið með okkur og farið út og axlið pólitíska ábyrgð, það á að vera þverpólitísk ábyrgð á þessu máli. En ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér að gera það af því að hún þurfti að eiga málið sjálf, af því að allir voru svo miklir snillingar sem komu að málinu fyrir hennar hönd, fjármálaráðherra sem aðrir. Þetta er klúður og ekkert annað en klúður og kergja sem leiðir okkur í átt að þessari ömurlegu vegferð sem mun hefjast hér eftir nokkrar mínútur.

Varðandi Heritable bankann lá álit ríkisstjórnar Íslands alveg ljóst fyrir, allt frá því í byrjun janúar, þegar Mishcon de Reya gaf álit sitt varðandi sterkustu stöðu Íslands í samningaviðræðunum í tengslum við Heritable bankann og klúður Breta hvað það varðar. Ráðgjöf var engu að síður fengin og það var markviss og hnitmiðuð ráðgjöf. Það voru margir sem sögðu: Þetta er sterkt vopn fyrir Íslendinga til þess að nota á Breta til þess að ná hagstæðari samningi. Þessu vopni var ekki beitt (Forseti hringir.) og það er á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands, það er á ábyrgð vinstri stjórnarinnar sem hér ræður ríkjum og engra annarra.