Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 19:30:36 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. [Hlátur í þingsal.] Herra forseti. Ég er orðinn svo vanur kvennaríkinu hér að ég ávarpa forseta jafnan sem konu. Ég biðst afsökunar á því.

Situr hv. þm. Siv Friðleifsdóttir ekki í utanríkismálanefnd? (Gripið fram í.) Í öllu falli, 7. júlí gerði ég grein í utanríkismálanefnd fyrir þeim fundi sem ég átti með Michael Stubbs og lögmannsstofunni Mishcon de Reya, ásamt formanni samninganefndarinnar og tveimur eða þremur fulltrúum Landsbankans. Sá fundur var haldinn á þessum stað eins og hv. þingmaður rifjar hér upp og af honum fór ég beint til fyrsta fundar míns með Miliband, utanríkisráðherra Breta. Ég fór á þann fund sérstaklega til þess að fá upplýsingar um afstöðu Landsbankamanna varðandi verðmæti eigna Landsbankans. Tilgangur minn með fundinum með Miliband var að fá Breta inn á það að fara Landsbankaleiðina svokölluðu, sem er sennilega kölluð þriðja leiðin í þessum plöggum, þ.e. að nýta andvirði eignanna til þess að greiða niður skuldina og fá langan greiðslufrest. Það var það eina sem ég hafði áhuga á. Það var það eina sem ég talaði um á þessum fundi. Rétt er að lögmaðurinn var þarna og einhverjir fleiri. Ég var hins vegar ekki kominn til þess að fá upplýsingar frá þeim heldur einungis þessar upplýsingar frá Miliband. Ég fór fullur sannfæringar á fund Milibands og tókst að sannfæra hann. Ég fékk ekkert plagg í hendurnar þar, ekki neitt. Síðar kom í ljós plagg sem dagsett var á öðrum degi. Þegar ég las það plagg kom í ljós að þar var verið að ávarpa einhvern allt annan mann sem hafði verið á fundi með þeim áður, ég hafði aldrei verið með þeim á fundi áður.

Það sem ég sagði í gær að ég hefði ekki fengið kynningu á, var að ég hafði aldrei fengið að sjá þessa glærusýningu, aldrei séð hana, ekki bara 4. kaflann heldur allt það sem í henni var. Það var það sem ég staðfesti. Og það voru þau gögn sem voru lögð fram á þessum fyrri fundi 26. þar sem umræddir starfsmenn (Forseti hringir.) voru.