Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 19:35:05 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi fundur var langur. Fundurinn með þeim Íslendingum sem voru frá Landsbankanum, formanni samninganefndarinnar og Mishcon de Reya held ég að hafi staðið í eina tvo tíma. Ég kom inn á hann í svona 12 mínútur, drakk einn kaffibolla. Það eina sem ég gerði þar var að tala við tvo Íslendinga sem þar voru. Á þessum fundi voru engir embættismenn fyrir utan aðstoðarmann minn. Þessa Landsbankamenn hafði ég ekki séð áður en ég man nöfn þeirra, þó ekki eftirnöfnin, þau hétu Baldvin og Lilja. Það var enginn sem hét Áslaug og ég minnist þess ekki að Huginn Þorsteinsson hafi verið á þeim fundi. (Gripið fram í.) Í þetta vísa ég vegna þess að ég held að yfirlýsing, loforð og fyrirheit um eiðstafinn séu á einhverjum misskilningi byggð, alveg eins og ýmislegt fleira sem komið hefur fram frá lögmannsstofunni. Ég tek það sérstaklega fram að í tölvupóstum í dag sagði Michael Stubbs algjörlega skýrt klukkan fjögur í dag að hann hefði talið að miðað við það sem hann vissi þá hefði verið ástæða fyrir formann samninganefndarinnar að hafa ekki þessa tilteknu „presentation“, glærusýninguna, (Gripið fram í.) inni í kynningunni gagnvart mér vegna þess að hún varðaði ekki fund (Gripið fram í.) minn með Miliband. Það var bara svo einfalt mál.

Það liggur alveg ljóst fyrir að það sem (Gripið fram í.) þessi kynning sem hér er verið að tala um, (Gripið fram í.) þessi glærusýning … (Gripið fram í.) Ég man ekki hver 5. liðurinn var … (SF: Af hverju … þetta afrit … ?) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Ekki samtöl …)

Ég hef ekki hugmynd um hvað fór fram eða fer fram í hugardjúpum lögmanna þessarar ágætu stofu. Ég hef enga hugmynd um af hverju þeir telja þetta vera með þessum hætti eða af hverju þeir orða þetta svona. Það sem ég segi er einfaldlega þetta: Þessa kynningu á þessum tilteknu hugmyndum hef ég aldrei fengið og hef aldrei séð fyrr en í gær. Hins vegar þekkti ég efnisatriðin í 4. kaflanum vegna þess að þau höfðu (Forseti hringir.) verið rædd í fyrri ríkisstjórn, þ.e. um málsókn fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. (Forseti hringir.)