Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 20:54:10 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra stóð hér í korter og barmaði sér og virtist kenna öllum öðrum en sjálfum sér um hvernig komið er í þessu máli. Það er undarlegt í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra er nýbúinn að lofa því að hann mundi taka alla ábyrgð á þessari niðurstöðu. Það varði ekki lengi, en er kannski í samræmi við annað sem komið hefur úr þeirri átt í þessu máli. Það er búið að fara margoft yfir þann hræðsluáróður sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra fóru með í ræðum sínum að það er óþarfi að eyða meiri tíma í hann. Þó vil ég sérstaklega nefna tvö atriði sem sætir mikilli furðu að menn skuli enn þá leyfa sér af einstakri ósvífni að hengja sig í. Það eru fullyrðingar í þá veru að það að ganga frá þessu muni á einhvern hátt ryðja úr vegi hindrunum með því að þá styrkist gengi íslensku krónunnar og við losnum fyrr við gjaldeyrishöft. Það liggur fyrir, meira að segja frá Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem stjórnvöld vísa hvað oftast til í þessu máli, að m.a. vegna samþykkis Icesave-samninganna verði gengi krónunnar hér veikt í a.m.k. 10 ár, líklega einhverja áratugi, og verði að haldast veikt til að menn geti staðið undir þessum skuldbindingum og gjaldeyrishöft verði að vara hér lengur en menn gerðu ráð fyrir, en ekki skemur. Og svo leyfðu bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra sér að fara í bókhaldsbrellurnar um að þetta væri svo hlutfallslega lítill hluti vandans og bera saman þessi lán, Icesave-lánin, upphæðir sem við fáum aldrei afhentar, koma aldrei hingað, við hugsanlegar heildarupphæðir annarra lána, lána þar sem við mundum þó a.m.k. veita peningunum viðtöku.

En það er óþarfi að verja meiri tíma í rök stjórnarliða í þessu máli því að þau eru öll löngu fallin. En við eigum á þessum tímapunkti að velta því fyrir okkur hvað þetta mál segi okkur um þróun íslenskra stjórnmála. Hér var almennt ríkjandi sú skoðun í íslensku samfélagi þegar hrun varð haustið 2008 að við yrðum að nota tækifærið til að gera breytingar, ekki aðeins á því hvernig við rekum okkar efnahagslíf, heldur hvernig við rekum íslenska pólitík og þar þyrfti margt að breytast. Eitt af því sem var þó oftast nefnt var staða löggjafans, staða Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, það yrði að styrkjast. Í þessu máli höfum við ekki aðeins séð framkvæmdarvaldið traðka aftur og aftur á löggjafarvaldinu, heldur beinlínis flytja löggjafarvaldið út til Bretlands og Hollands — og ekki nóg með það, flytja líka út dómsvaldið og vega þannig um leið að þrískiptingu ríkisvaldsins, íslenskum dómstólum. Hér hafa þingmenn stjórnarliðsins flutt ræður þegar þeir hafa treyst sér í ræðustól og farið aftur og aftur með sömu frasana, frasa sem sendir eru út í rauða þræðinum, talpunktum Samfylkingarinnar, eingöngu til þess fallnir að afvegaleiða umræðuna, engin rök og engu svarað í málflutningi stjórnarandstöðunnar.

Flokksræðið, átti ekki að verða einhver breyting þar? Hafa menn einhvern tímann séð annað eins flokksræði og í þessu máli? Endalausar hótanir um að ef þingmennirnir gera ekki allir nákvæmlega eins og forustan í stjórnarflokkunum ætlast til verði stjórnin hreinlega fallin, þá yrði hún sprengd. Er hægt að tala um meira flokksræði en það?

Og trúir því einhver að hæstv. fjármálaráðherra sé svo sannfærður um það sem hann sagði hér áðan að ef hann væri í stjórnarandstöðu hefði hann flutt sams konar ræðu? Trúir því einhver að hæstv. fjármálaráðherra eða nokkur einasti þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mundi greiða atkvæði með þessu máli ef þeir væru í stjórnarandstöðu? Ég held ekki að nokkrum manni detti það í hug.

Og hvað með flokkspólitíska hagsmuni og að þeir mættu ekki verða ofar hagsmunum heildarinnar? Hér hafa ráðherrar í þessari ríkisstjórn verið ófeimnir við að lýsa því yfir í viðtölum að það sé svo mikilvægt að þeir haldi völdum og að aðrir komist ekki til valda að annað verði að víkja af þeim sökum einum. Þeir hafa meira að segja verið tilbúnir til að leggja sjálfa sig undir persónulega, hótað eigin afsögn, sagt að það yrði að fallast á þetta mál vegna þess að annars væru þeir farnir. Er þetta ekki flokksræði, er þetta ekki beinlínis ræði flokksforustunnar sem ætlast til þess að hópurinn fylgir allur og fórni þar með hagsmunum heildarinnar?

Hvað með stöðuveitingarnar? Hvernig hafa stöðuveitingar verið í þessu máli? Hafa menn treyst sér til að leita utanaðkomandi hjálpar? Hafa menn treyst sér til að fela erlendum sérfræðingum eins og var svo mikið talað um fyrir kosningar að ættu að leysa öll mál? Hafa þeir treyst sér til þess að leita til þeirra í þessu? Nei, það hefur verið leitað til hinna nánustu bandamanna, pólitískra samherja, manna sem mundu örugglega ekki gagnrýna eða koma með nokkuð sem yrði stjórnvöldum óþægilegt.

Hvað með alla umræðuna um innherjamálin, krosseignatengslin, hvernig hefur það verið í þessu máli? Á hverja hefur verið hlustað? Það hefur verið hlustað á aðila sem ýmist eru nátengdir ríkisstjórninni eða Seðlabankann sem hefur beinlínis það hlutverk að svara því til að íslenska ríkið geti staðið í skilum.

Og hvað með þegar efasemdir hafa kviknað, til hverra hefur þá verið leitað til að skera úr um þær efasemdir? Þegar lögmenn bentu á það, líklega helstu sérfræðingar Íslands í lögfræði á því sviði, að frumvarpið sem hér er til umræðu kynni að stangast á við stjórnarskrá, til hverra var leitað? Það var leitað til þeirra sem sömdu frumvarpið. Og til hverra var leitað þegar bent var á galla þessa samnings og okkur í stjórnarandstöðunni tókst að knýja það í gegn að talað yrði við erlenda lögmannastofu? Jú, það var látið eftir okkur að ræða við lögmannastofu sem ríkisstjórnin hafði haft samband við á sínum tíma, en það var líka leitað eftir áliti frá lögmannastofunni sem kom að gerð samningsins vegna þess að menn vissu að sú stofa væri ekki í aðstöðu til annars en að halda því fram að auðvitað væri þetta í lagi.

Hvað með fagmennskuna, fagmennskuna sem við töldum öll svo mikilvæga? Jú, það hefur verið leitað til ágætisfólks í þessu máli, en alltaf einhvers úr innsta hring eða sem allra næst innsta hring, fólks sem er ekki í aðstöðu til að gefa einungis fagleg sjónarmið.

Hvað þá þegar einhverjir sem eru í þeirri aðstöðu, til að mynda útlendingar sem hafa hér enga pólitíska hagsmuni, koma fram og gefa faglegt, óháð mat, hvernig er þá brugðist við? Hversu oft ætli við höfum heyrt ráðherra í þessari ríkisstjórn halda því fram að menn hafi misskilið, hinir og þessir gagnrýnendur, innlendir og erlendir, sem koma með óháð mat, þeir bara misskilji, þeir skilji þetta ekki? Er þetta ekki kunnugleg umræða?

Erum við ekki komin aftur á sama stað og hér rétt fyrir hrunið þegar viðvaranirnar komu úr öllum áttum frá þeim sem voru óháðir og gátu tjáð sig óhikað — en þeir voru alltaf að misskilja. Þá voru fengnir einhverjir í staðinn, einhverjir tengdir og þeir gátu leiðrétt misskilninginn.

Líklega er mesta kaldhæðnin í þessu öllu saman sú að hér erum við í rauninni, ef þetta fer í gegn sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, að fara nákvæmlega sömu leið og Landsbanki Íslands fór þegar þeir voru lentir í vandræðum vegna ógurlegrar skuldsetningar sem þeir áttu erfitt með að endurfjármagna. Þá stofnuðu þeir Icesave-reikningana og hugsuðu sem svo að ef þeir bara gætu orðið sér úti um pening, þrátt fyrir að borga fyrir hann allt of háa vexti og sjá ekki fyrir sér hvernig hægt væri að borga til baka, bara ef þeir gætu orðið sér úti um pening í einhvern tíma hlyti þetta að reddast, verðmæti eigna bankans hlytu að hækka og þeir gætu einhvern veginn endurfjármagnað sig. Þetta er stóra kaldhæðnin í þessu máli. Við erum í rauninni að endurtaka þau mistök sem settu okkur í þessa stöðu.

Og hæstv. fjármálaráðherra nefndi leyndarhyggjuna. Það var furðulegt að heyra hann lýsa því að hann teldi að í þessu máli hefði ekki ríkt leyndarhyggja. Ég held að utanaðkomandi menn hljóti að vera sammála um að leyndarhyggja hafi líklega aldrei verið jafnmikil og hjá þessari ríkisstjórn, byrjaði með leyniklefanum í fjármálaráðuneytinu, svo með fullyrðingunum um Icesave-málið sem reyndust hreinlega ósannar í upphafi, um stöðu ríkisfjármála höfum við fengið mjög misvísandi skilaboð. Svo náði þessi leyndarhyggja hámarki nú í kvöld þegar forseti þingsins stöðvaði streymi upplýsinga til þingsins, upplýsinga sem þingið hafði sjálft beðið um.

Og hvað með að ræða málin í alvöru, taka á þeim í stað þess að segja að hlutirnir reddist, hverfa frá kæruleysinu? Nei, þegar menn benda hér á vankantana eru þeir sakaðir um neikvæðni og að þeir verði að fara að sýna dálitla jákvæðni og tala ástandið upp, það má ekki tala markaðinn niður.

Hvað með skammtímahugsunina sem við ætluðum að segja skilið við? Hver eru meginrök ríkisstjórnarinnar fyrir því að samþykkja þetta frumvarp? Jú, það þarf ekki að byrja að borga fyrr en eftir sjö ár og þá verða væntanlega þeir sem eru í forustu fyrir þessa ríkisstjórn hættir í stjórnmálum. Þetta er öll framtíðarhugsunin hjá þessari nýju ríkisstjórn.

Lýðræðið átti að vera í hávegum haft. Hér hafa stjórnarliðar lokað augum og eyrum fyrir umræðunni nánast alla 2. umr. þessa máls og koma svo til 3. umr. og halda fram rökum sem fyrir löngu er búið að slá út af borðinu. En lýðræðisástin birtist kannski einna helst í afstöðu þessa fólks til hugmynda um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Hún kemur ekki til greina að mati þessa fólks. Þá er vísað í það að í Danmörku gæti svona mál líklega ekki farið fyrir þjóðaratkvæði þó að í flestum Evrópuríkjum væri ekkert því til fyrirstöðu. Nú sjá menn alla vankanta á þjóðaratkvæðagreiðslum vegna þess að þeir vita að þetta mál fengist ekki samþykkt.

En hvað stóð upp úr, hvað vildu menn sjá umfram allt sem breytinguna sem væri afleiðing þeirra ófara sem við lentum í? Það var heiðarleiki. Og í þessu máli hefur því miður oft ekki verið haldið heiðarlega á málum.

Það eru heiðarlegir menn í öllum flokkum. Ég ætla að nefna hér sérstaklega tvo hv. þingmenn, hvorugur þeirra er miðjumaður eins og við framsóknarmenn, raunar hvor af sínum kantinum í stjórnmálunum, það eru hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ég tel að þó að þessir menn séu ósammála mér um marga hluti og svo sannarlega ósammála hvor öðrum séu þeir heiðarlegir og að sá heiðarleiki hafi náð í gegn í umræðu um þetta mál. En því miður hafa allt of margir fallið í þá gryfju að verja einfaldlega sitt lið vegna þess að þeir líta á það sem hlutverk sitt að verja eitthvert tiltekið lið og fylgja þá talpunktum eins og talpunktum Samfylkingarinnar sem ég nefndi áðan.

Það er gengið býsna langt í því að verja sitt lið í þessu máli. Meira að segja leyfa menn sér að koma aftur og aftur í ræðustól, ekki hvað síst hæstv. ráðherrar, og gera lítið úr málstað Íslands en prísa á allan hátt og lofa málstað Breta og Hollendinga. Það kann að vera að með því telji menn sig vera að gæta einhverra stærri hagsmuna. Og hvaða hagsmunir eru það? Það eru þá þeir hagsmunir að þetta sama fólk haldi völdum, en þá eru menn líka að verja völdin valdanna vegna af því að þeir telja sjálfa sig betur til þess fallna en aðra að stýra og að öllu sé til þess fórnandi.

Það eru líklega fá mál ef nokkur betur til þess fallin að prófa þingið eftir þær breytingar sem við höfum gengið í gegnum en þetta mál. Það er ekki hægt að tala um að hér séu hagsmunirnir litlir, þeir eru yfirgnæfandi. Það er ekki hægt að tala um að hér séu staðreyndirnar ekki á hreinu, það er búið að fara rækilega yfir staðreyndir málsins og rökræða og útskýra gallana í málflutningi stjórnarinnar. Og það verður aldrei hægt að halda því fram að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir væru að gera þegar þeir greiða atkvæði hérna í dag. Þetta mál snýst ekki bara um upphæðir, snýst ekki um yfir 100 millj. kr. á dag bara í vexti, það snýst líka um stjórnmálin á Íslandi, hvernig stjórnmál við ætlum að hafa hér og hvort þetta nýja þing er raunverulega þess umkomið að breyta starfsháttum. Kannski var til of mikils ætlast að menn breyttu strax í fyrstu tilraun öllu sem aflaga hefur farið í íslensku efnahagslífi og íslenskri pólitík, en í atkvæðagreiðslunni á eftir getum við a.m.k. gefið fyrirheit um breytingar. Og Alþingi Íslendinga getur í atkvæðagreiðslunni á eftir a.m.k. veitt þjóðinni von.