Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 21:40:25 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:40]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hefur að mestu leyti undanfarna daga horfið frá þeirri skoðun sinni að leiða eigi Icesave-málið til lykta fyrir dómstólum, enda hefur hún komist að því að það geti leitt yfir þjóðina 500 milljarða kr. hærri reikning en hún stendur núna frammi fyrir. (HöskÞ: Þetta er rangt.) Reyndar er erfitt að átta sig á því hvað stjórnarandstaðan vill í raun og veru því að nú vill hluti hennar setjast aftur við samningaborðið og byrja upp á nýtt. En gætum að, þá mun allt bíða á meðan, endurreisnin verður sett á bið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun víkja frá, engin erlend fjárfesting mun eiga sér stað, (Gripið fram í.) áfram verða gjaldeyrishöft og veiking krónunnar heldur áfram. (Gripið fram í: Hvar hefur þú verið?) Frostavetur (Forseti hringir.) í atvinnulífi —

(Forseti (ÁRJ): Gefa hljóð.)

— sannleikanum er hver sárreiðastur. [Hlátur og kliður í þingsalnum.] Frostavetur í atvinnulífi, frostavetur fyrir heimilin í landinu og enginn veit hvað hann stendur lengi. (Gripið fram í: Trúir þessu …?) Í þá óvissu og kreppuferð ætla ég ekki að fara. Nú er mál að linni. Nú segi ég nei. [Háreysti í þingsal.]