Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 21:43:25 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að lesa upp úr blaði sem barst utanríkismálanefnd, með leyfi forseta:

„Með hinum sameiginlegu viðmiðum sem gengið var frá í Brussel 14. nóvember var reynt að tryggja að í viðræðum ríkjanna yrði gætt jafnvægis milli þeirra skuldbindinga sem Íslendingar tækju á sig og þeirra „erfiðu og fordæmalausu“ aðstæðna sem ríktu á Íslandi en það orðalag vísaði til skuldaþols ríkissjóðs og greiningar AGS-skýrslu til sjóðstjórnar á fordæmislausum aðstæðum hér þar sem bæði ríkti fjármálakreppa og gjaldeyriskreppa.“

Svo mælir fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Það er augljóst af málflutningi hennar að Brussel-skilyrðin er hvergi að finna í þeim samningum sem ríkisstjórnin hefur gert. Þess vegna leggjum við framsóknarmenn til að þessu máli verði á ný vísað til ríkisstjórnarinnar og það verði samið á ný á grundvelli Brussel-viðmiðanna, það verði samið á ný á sanngjarnari (Forseti hringir.) forsendum vegna þess að eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir: „Þau eru kjarni málsins.“ Ég segi já.