Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 21:47:26 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hin síðari ár hefur verið vaxandi krafa um að taka upp beint lýðræði, leyfa landslýð, borgurum þessa lands og borgurum landa að taka þátt í stjórninni með beinum hætti, sérstaklega í veigamiklum málum. Hér er lagt til að borgarar þessa lands taki ákvörðun um það hvort þeir vilji taka á sig þessar gífurlegu skuldbindingar, sem ekki aðeins þeir, heldur líka börnin þeirra og barnabörn, munu greiða. Ég treysti þeim fullkomlega til þess ekki síður en flokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, sem báðir hafa lagt til að teknar yrðu upp þjóðaratkvæðagreiðslur. Þess vegna legg ég til að hér verði samþykkt sú tillaga að tekin verði upp þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál í samræmi og samhljómi við 26. gr. stjórnarskrárinnar en þar er lagt til að ef forseti synjar undirskrift laga fari þau í (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu óháð máli. Ég segi já.