Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 21:50:41 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mál sem ég tel að undir öllum kringumstæðum ætti að leiða til lykta á vettvangi Alþingis. Ég er hins vegar sammála þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Ég er sammála því af því að ég lít á það sem ákveðið neyðarúrræði að fá þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu en ég vek hins vegar athygli á því að í þessari atkvæðagreiðslu um þjóðaratkvæðagreiðslu reynir á þá hv. þingmenn og hæstv. ráðherra sem hafa reynt hvað eftir annað á undanförnum árum að slá sig til riddara sem einhverja sérstaka talsmenn lýðræðis, ekki síst beins lýðræðis, með því að hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslna. Nú reynir á. [Háreysti á þingpöllum.]