Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 22:36:19 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er komið að ögurstundu í þessu máli þar sem alþingismenn á Alþingi Íslendinga eru að fara að greiða atkvæði um stærstu fjárhagsskuldbindingu sem hefur verið lögð á íslenskan almenning í sögu lýðveldisins. (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: Það er rangt.) Vinnubrögðin í þessu máli, ef ég fengi að hafa orðið, frú forseti, eru skammarleg og hafa verið það frá upphafi þar sem stjórnarmeirihlutinn hefur traðkað á minni hlutanum, þar sem forusta ríkisstjórnarinnar hefur beitt liðsmenn sína miklu ofbeldi í þessu máli eins og alþjóð veit.

Ég vil segja það í lokaræðu minni um þetta mál að ég er bjartsýnn á framtíð þjóðarinnar. Við munum geta sigrast á þessu en við munum ekki geta sigrast á vandamálunum með núverandi ríkisstjórn í fararbroddi, því miður. (Gripið fram í.) Ég er bjartsýnn á framtíðina. Ég veit að almenningur mun (Forseti hringir.) við næstu alþingiskosningar ekki treysta þessum tveimur stjórnmálaflokkum til að leiða sín mikilvægustu mál til lykta. Við þurfum að breyta þessu máli, (Forseti hringir.) við þurfum að fara fram sem ein heild og ræða við Breta og Hollendinga um að taka þessa samninga upp að nýju. (Forseti hringir.) Ég vil beita mér fyrir því en það verður aldrei gert með (Forseti hringir.) þá tvo flokka sem nú eru í ríkisstjórn.