Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 22:56:49 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:56]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Kaleikurinn sem við bergjum af núna er vissulega beiskur en hann er ekki banvænn. Það kemur nú í okkar hlut að leiða þetta mál til lykta, vonandi á þann hátt sem farsælast er fyrir land og þjóð. Við þurfum að meta afleiðingar þess fyrir þjóðina að samþykkja eða samþykkja ekki því að hvort tveggja mun hafa afleiðingar.

Icesave-skuldin mun þegar upp er staðið, þegar eigur Landsbankans hafa gengið upp í hana, nema um 200 milljörðum kr. (VigH: Rangt.) Þetta er fjórða stærsta skuldbinding ríkisins en er þó engu að síður innan við fimmtungur heildarskulda okkar eftir hrunið. Það er vissulega þungur baggi að bera en hann er engan veginn þær drápsklyfjar sem menn hafa viljað vera láta í umræðunni. Það er mitt mat að ef frumvarpinu sem nú liggur fyrir yrði hafnað hefði það alvarlegar afleiðingar fyrir allt okkar atvinnulíf og fjármálakerfið. (Forseti hringir.) Samþykkt þess hins vegar er skref í átt að endurreisn efnahagslífsins og á þeirri forsendu segi ég já við þessu frumvarpi.