Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 23:07:15 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er sorglegur dagur. Ringulreiðin, óstjórnin og leyndarhyggjan hafa einkennt þennan dag eins og málsmeðferðina alla, sennilega frá upphafi. Þetta mál einkennist af óréttlæti, ósanngirni og lagalegri óvissu, kúgun hinna stóru í krafti valds. Málið einkennist líka af uppgjöf stjórnarflokkanna við að ná betri niðurstöðu. Hin pólitíska ábyrgð liggur hjá ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar og þeim þingmönnum sem styðja þetta frumvarp. En byrðarnar leggjast á þjóðina næstu kynslóðir.

Frú forseti. Við framsóknarmenn berum ekki ábyrgð á því. Ég sagði nei í sumar, ég sagði nei í haust og ég segi nei líka núna. Ég bið þingheim um að hlusta í fimm sekúndur. Hér úti er þjóðin byrjuð að greiða atkvæði með fótunum. Það er ríkisstjórninni (Forseti hringir.) til háborinnar skammar hvernig hún hefur staðið að þessu og sundrað þjóðinni. Ég er verulega smeykur um að við höfum ekki séð það síðasta í þessum málum.