Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 23:10:03 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:10]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Forseti. Þetta mál er öllum sem að því hafa þurft að koma erfitt og það á ekkert síður við um okkur í Samfylkingunni en fólk úr öðrum flokkum. Ég legg mikla áherslu á það. Hér er um að ræða nauðasamninga vegna útrásarævintýris sem byggði á sandi, frjálshyggjusandi, og ég er jafnósátt við það og flest annað fólk í þessu landi og eins það að við þurfum alltaf að bera byrðar vegna útrásar bankanna. Nú þarf bara að lágmarka þær. Það er löngu tímabært að Alþingi sýni þann kjark að klára þetta mál. Lausn Icesave-deilunnar er bara einn liður í því að reisa Ísland upp úr öskustónni, en líka nauðsynlegur liður í endurreisn þessa lands sem er efnahagslega háð samskiptum við aðrar þjóðir. Íslendingar eiga hérna í pólitískri milliríkjadeilu og það er fráleitt (Forseti hringir.) að halda því fram að hún verði leyst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þannig er ekki raunveruleikinn. (Gripið fram í: Jú!)

Frú forseti. Ég segi já.