Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 23:18:40 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:18]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta er sorgardagur í sögu þjóðarinnar. Við erum hér að greiða atkvæði um breytingartillögur breskra og hollenskra stjórnvalda við lög sem Alþingi setti í sumar. Þær breytingartillögur hefur ríkisstjórnin kokgleypt vegna einhverra drauma um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Þær breytingartillögur hafa þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna kokgleypt vegna einhverra kolrangra drauma um að hér sé við stjórn vinstri stjórn og vegna drauma um völd. Það er dapurlegt að horfa upp á hvernig völd fara með fólk.

Það er í stefnuskrá Hreyfingarinnar og það er sannfæring mín að ekki eigi að velta Icesave-skuldbindingunum yfir á almenning í landinu. Það er líka í stefnuskrá þeirrar Borgarahreyfingar sem fjórir þingmenn voru kjörnir fyrir á þing í vor að greiða ekki atkvæði með Icesave-skuldbindingunum. Því segi ég nei og vona að allir fjórir þingmenn, þeir sem málið varðar, geri það líka.