Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 23:20:57 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:20]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er komið að lokaafgreiðslu þess máls sem legið hefur eins og mara á þjóðinni í 14 mánuði. Fyrir rúmu ári voru fyrstu skrefin stigin sem mótuðu langt og strangt samningaferli í einni erfiðustu milliríkjadeilu sem þjóðin hefur staðið í, deilu sem á rætur að rekja til ófullburða regluverks Evrópusambandsins til að bregðast við algjöru bankahruni eins og hér varð. Þetta er orðinn langur tími og erfiður fyrir fámenna þjóð í vanda, þjóð sem hefur orðið fyrir miklum þrýstingi frá nágrannaþjóðum til að afgreiða þetta Icesave-mál við Breta og Hollendinga, svo vægt sé til orða tekið. Okkur er einnig mikið í mun að koma málinu í ákveðinn farveg, vita hvar við stöndum í nútíð og framtíð ef það er þá hægt að sjá hana fyrir. Þá er hægt að spá fyrir hvernig takast megi til svo endurheimta megi efnahagslíf þjóðarinnar. Icesave-reikningarnir endurspegla ofmetnað fjárglæframanna sem fengu að leika lausum hala þar til spilaborgin (Forseti hringir.) hrundi. Þetta eru nauðungarsamningar. Ég tel þá leið sem hér er lögð til vera leið sem við getum (Forseti hringir.) helst stuðst við til þess að komast út úr þeim vanda sem (Forseti hringir.) við búum við og því segi ég já.