Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 23. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 23  —  23. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Guðbjartur Hannesson,


Gunnar Bragi Sveinsson, Ólína Þorvarðardóttir,
Guðmundur Steingrímsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta áætlun um að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Sérstaklega verði hugað að möguleikum á aukinni raforkuvinnslu á Vestfjörðum, svo sem með byggingu Hvalárvirkjunar og stækkun Mjólkárvirkjunar, auk annarra virkjunarkosta.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 137. löggjafarþingi (119. mál) en komst þá ekki á dagskrá og er því endurflutt.
    Mjög mikið vantar á að afhendingaröryggi á raforku á Vestfjörðum sé viðunandi. Þetta afleita ástand stendur atvinnulífi fyrir þrifum, skapar mikinn kostnað, veldur óþægindum í heimilisrekstri og daglegu lífi fólks og er þrándur í götu þess að unnt sé að byggja upp ný atvinnutækifæri á Vestfjörðum. Þess vegna er afar brýnt að úr þessu verði bætt.
    Ekki er eftir neinu að bíða. Hið slæma ástand er staðreynd. Gögn liggja fyrir um hvaða kostir eru í boði til úrbóta. Það er þess vegna komið að því að móta tímasetta áætlun um að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, tryggja fjármögnun til verksins og að hrinda því í framkvæmd.
    Nú liggur fyrir skýrsla frá Landsneti um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Skýrslan kom út í mars sl. og er aðgengileg á vef Landsnets undir útgefið efni. Hún lýsir ástandinu og dregur fram þá kosti sem eru til staðar til þess að koma slæmu ástandi í viðunandi horf. Jafnframt er lagt mat á stöðu mála á Vestfjörðum og þar segir: „Áreiðanleiki afhendingar frá flutningskerfi Landsnets er lægstur á Vestfjörðum. Meginástæða þess er einföld tenging Vestfjarða við flutningskerfið, frá Hrútatungu til Mjólkár. Línurnar sem um ræðir eru Glerárskógalína 1 (GL1), Geiradalslína 1 (GD1) og Mjólkárlína 1 (MJ1). Þessu til viðbótar eru truflanir á 66 kV flutningslínum Landsnets á Vestfjörðum.“
    Þá er í skýrslunni enn fremur lagt mat á þann samfélagslega kostnað sem liggur í þeirri bágu stöðu mála sem ríkir varðandi afhendingaröryggi raforkunnar á Vestfjörðum. Um það er meðal annars sagt í skýrslunni: „Meginhluti kostnaðar sem straumleysi veldur liggur í þeim samfélagslega kostnaði sem fylgir straumleysi. Meðaltal samfélagslegs kostnaðar vegna straumleysis árin 2002–2008, að teknu tilliti til keyrslu varaafls, á Vestfjörðum er 84 m.kr./ ári. Meðalkostnaður Landsnets, vegna tapaðs flutnings og keyrslu varaafls, er hins vegar ekki nema10,4 m.kr./ári miðað við sama tímabil.“
    Í skýrslunni eru dregnir saman helstu kostir sem kunna að vera til staðar til þess að ráða bót á hinu slaka afhendingaröryggi á raforku á Vestfjörðum. Þar er helst nefnt:
     1.      Endurbæta varaafl með ýmsum hætti.
     2.      Styrking flutningskerfisins með tvöföldun Vesturlínu frá Hrútatungu til Mjólkár og styrkingu á núverandi Vesturlínu.
     3.      Uppbygging orkuframleiðslu með virkjunum á Vestfjörðum. Er þar einkum nefnd gerð Hvalárvirkjunar, stækkun Mjólkárvirkjunar og ýmsir aðrir virkjunarmöguleikar svo sem Hestfjarðarvirkjun í Ísafjarðardjúpi.
    Séu þessir kostir skoðaðir, er ljóst að virkjun á Vestfjörðum er besta leiðin til þess að tryggja afhendingaröryggi á raforku, er ígildi tvöfaldrar raforkutengingar inn á svæðið og styrkir forsendur til frekari atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum. Endurbætur á varaafli yrði aldrei fullnægjandi leið fyrir Vestfirðinga og þjónaði síst af öllu framtíðarhagsmunum svæðisins. Tvöföldun Vesturlínu er verulega kostnaðarsöm, skilar Landsneti ekki viðbótartekjum, samfélaginu ekki verulegum ábata og er ekki arðsöm, hvorki fyrir Landsnet né þjóðhagslega.
    Á vegum Orkubús Vestfjarða hafa farið fram miklar athuganir á hugsanlegum virkjunarkostum á Vestfjörðum. Hefur þegar verið lagt í allmikinn kostnað við þessa vinnu og dregnar saman talsverðar upplýsingar sem að gagni koma. Hins vegar þarf að vinna að frekari rannsóknum og má ekki mikinn tíma missa við það verkefni. Fyrirtækið VesturVerk ehf. hefur aflað sér virkjunarheimilda vegna mögulegrar Hvalárvirkjunar en framvinda málsins mun ráðast mjög af viðbrögðum stjórnvalda.
    Hvalárvirkjun er eini nýi virkjunarkostur Vestfjarða eins og nú standa sakir sem gæti bætt raforkuöryggi Vestfjarða og hægt væri að hefja framkvæmdir við strax án ágreinings um vatnsréttindi, land eða annað það er að slíkri framkvæmd snýr. Hvalárvirkjun er hins vegar ekki arðbær framkvæmd nema tengigjald virkjunarinnar verði að fullu fellt niður. Jafnvel án tengigjalds er virkjunin þó áfram dýr og við undirbúning hennar hefur því verið gert ráð fyrir hækkandi orkuverði í framtíðinni. Ætlunin er að kosta miklu til við gerð hennar þannig að hún verði umhverfisvæn og er ráðgert að hún verði meira og minna neðanjarðar.
    Lykillinn að því að unnt sé að ráðast í gerð Hvalárvirkjunar er því að fellt verði niður tengigjald vegna hennar. Hafa Ísafjarðarbær, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Orkubú Vestfjarða sent sameiginlega áskorun til ríkisstjórnarinnar um að tengigjöld vegna Hvalárvirkjunar verði greidd úr ríkissjóði, sjá fylgiskjal III.
    Þá hafa Fjórðungssamband Vestfirðinga (bréf dagsett 16. apríl) og Ísafjarðarbær (bréf dagsett 3. apríl) sent nefnd um endurskoðun raforkulaga erindi þess efnis að tillit verði tekið til aðstæðna á Vestfjörðum þegar raforkulög verða endurskoðuð svo að fella megi niður tengigjald virkjunarinnar. Áætlað tengigjald virkjunarinnar er á bilinu 2,3–3,3 milljarðar kr. samkvæmt skýrslu Landsnets.
    Hér er því mikið í húfi og ljóst að með aðkomu ríkisins væri hægt að stuðla að byggingu Hvalárvirkjunar og leysa með farsælum hætti eitt brýnasta hagsmunamál Vestfirðinga nú um stundir. Eins og á hefur verið bent hér að framan verður kostnaður við flutningsmannvirki, þ.e. gerð flutningslínu frá Hvalárvirkjun inn á helsta orkunotkunarsvæðið á Vestfjörðum, ekki borinn uppi að fullu af sölu rafmagnsins. Þar þyrfti að koma til fjármagn frá ríkisvaldinu eða niðurfelling tengigjalds. Á móti verður þó að benda á að aðrir kostir sem hafa verið skoðaðir fela einnig í sér kostnað sem ríkisvaldið mun bera.
    Þessi mál hafa verið tekin upp á Alþingi, meðal annars að frumkvæði fyrsta flutningsmanns þessarar tillögu (399. mál 136. löggjafarþings). Í umræðum um málið kom fram ríkur vilji þáverandi iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar að leggja uppbyggingu á Hvalárvirkjun lið. Í umræðunni sem fram fór 18. mars sagði ráðherra: „Að því er snýr beint að aðkomu ríkisins að Hvalárvirkjun þá hef ég sagt, og ég ítreka það hér, að ég tel að það komi til álita að styðja sérstaklega við gerð virkjunarinnar að því marki sem lög og fjárhagur ríkisins heimila. En ástæðan fyrir þessu er í reynd þau rök sem komu fram hjá hv. þingmanni [þ.e Einari K. Guðfinnssyni] í framsögu hans fyrir fyrirspurninni. Hún er sú að í Hvalárvirkjun felst bæði ábati fyrir Landsnet, sem meta má á 500 millj. kr., og sömuleiðis samfélagslegur ábati, sem er metinn á yfir 2 milljarða kr., og það verður auðvitað að bera saman aðra kosti sem eru í þessari stöðu. Af því dreg ég þá ályktun að sá skynsamlegi kostur hljóti að koma til greina að Hvalárvirkjun njóti að minnsta kosti góðs af þeim ábata sem mundi fylgja henni sjálfri. Þá verður í þessum vangaveltum að hafa það í huga að framleiðsla og sala á raforku er samkeppnisstarfsemi þannig að það setur því ákveðnar skorður hversu langt er hægt að ganga í beinum stuðningi við virkjunina.
    Ég hef áður sagt að það þurfi að skoða hvað lög heimila á þessu sviði og það er þannig að svigrúmið til þess að taka tillit til þessa samfélagslega ábata er að mínu mati ekki nægilega vítt. Það þrengir þessa möguleika. Í þeirri endurskoðun sem stendur yfir á raforkulögum tel ég að sérstaklega þurfi að skoða þetta atriði. Ég tel sem sagt að þegar menn standa andspænis þeim möguleika að búa til orku með þessum hætti og spara samfélaginu þannig upphæð þá verði það að vera kleift. En það eru mjög þröngar skorður sem slíkum áformum eru settar samkvæmt núgildandi lögum.“
    Síðar í umræðunni sagði ráðherra enn fremur: „Ég tel að það yrði mikið heillaspor ef tækist að koma málum svo fyrir að unnt væri að ráðast í þessa framkvæmd. Ég tel að það yrði heillaspor fyrir Vestfirðina og það skiptir líka máli fyrir ríkisstjórnina að geta tryggt að allir íbúar landsins búi við sambærilegt stig hvað varðar orkuöryggi. Mér hefur oft fundist sem menn skilji ekki að afhending orku og flutningur á orku er partur af samfélagsgerðinni og þegar við erum að tala um grunnþættina eigum við líka að beina sjónum okkar að þessum þætti.“
    Af þessu má sjá að ríkur pólitískur vilji er til þess að taka á þessum málum. Til þess að hrinda verkinu í framkvæmd þarf hins vegar að móta skýra stefnu, tímasetja verkefnið og hrinda því í framkvæmd. Þess vegna er þingsályktunartillagan flutt.
    Mjög eindregin ósk hefur komið fram frá heimamönnum á Vestfjörðum um að tafarlaust verði bætt úr raforkuafhendingaröryggi á Vestfjörðum. Um það bera vitni ályktanir stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga (14. janúar 2009) og samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar (2. apríl 2009) sem samþykkt var að tillögu oddvita allra flokka sem í bæjarstjórninni sitja. Þessar samþykktir fylgja með í fylgiskjali I og II. Það er því ljóst að um þessi mál er órofa og þverpólitísk samstaða heima fyrir og að það nýtur víðtæks skilnings. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að hafist verði handa við að setja upp tímasetta áætlun um að bæta afhendingaröryggi á raforku á Vestfjörðum nú tafarlaust.



Fylgiskjal I.


Ályktun stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga um orkuöryggi
á Vestfjörðum frá stjórnarfundi.
(14. janúar 2009.)

    Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV) beinir því til iðnaðarráðherra að hann hraði eftir fremsta megni nútímavæðingu raforkukerfis Vestfirðinga og tekin verði ákvörðun um bestu mögulegu leiðir til uppbyggingar kerfisins. Sérstaklega verði horft til þess möguleika sem stærri vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum getur falið í sér við lausn þessa verkefnis. Koma þar helst til greina virkjanir á vatnasvæði á Ófeigsfjarðarheiði og á Glámuhálendi. Bendir stjórn FV í þessu sambandi á aukinn áhuga fyrir virkjun Hvalár í Ófeigsfirði.

Greinargerð:
    Öruggt aðgengi að raforku er meðal grundvallarforsendna fyrir uppbyggingu nútímasamfélaga. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að samfélög á Íslandi standi jafnfætis í þessum efnum. Ástand raforkukerfisins á Vestfjörðum er hins vegar þess eðlis að það mun að óbreyttu verða enn frekari dragbítur á samfélagsþróun í fjórðungnum. Margvíslegar betrumbætur hafa verið gerðar á núverandi raforkukerfi, en ljóst er að þær úrbætur nægja ekki til að Vestfirðingar standi jafnfætis öðrum landsmönnum, eins og markmið stjórnvalda segja til um. Ein lausn til frambúðar felst í nýrri aðflutningslínu inn í fjórðunginn og styrkingu núverandi dreifikerfis. Önnur lausn felst í virkjun vatnsafls á Vestfjörðum sem tryggði að lágmarki núverandi orkuþörf ásamt lagningu línu sem tryggði hringtengingu rafmagns um fjórðunginn.
    Virkjunarkostir á Vestfjörðum sem geta mætt framangreindu markmiði eru fáir, ef marka má fyrirliggjandi rannsóknir. Hér verður að horfa til ýmissa þátta s.s. miðlunarmöguleika, forgangsorkuþörf og nýtingartíma á ársgrundvelli. Samkvæmt rannsóknum koma hér helst til greina virkjun/virkjanir á vatnasvæðum á Ófeigsfjarðarheiði og á Glámuhálendi. Tvær virkjanir hafa verið nefndar í þessu samhengi; Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og Hestfjarðarvirkjun. Frumdrög að þessum virkjunarkostum hafa verið kynnt áður, en hafa síðan legið í láginni þar sem hagkvæmni þeirra var talin minni í samanburði við aðra virkjunarkosti í landinu.



Fylgiskjal II.


Samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.


(2. apríl 2009.)


    Efni: Skýrsla Landsnets. Bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.
    Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 1. apríl sl. var lögð fram skýrsla Landsnets frá því í mars 2009 undir heitinu „ Bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum“. Bæjarráð vísar skýrslunni til umræðu í bæjarstjórn.
    Eftir umræður á 259. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 2. apríl sl. var svohljóðandi bókun lögð fram af forystumönnum allra flokka í bæjarstjórn og var hún samþykkt samhljóða:
    „Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur að skýrsla Landsnets frá því í mars 2009 undir heitinu „Bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum“ sýni fram á að Hvalárvirkjun sé skynsamlegasta leiðin til að tryggja afhendingaröryggi í raforkumálum á Vestfjörðum. Allt tal um að ekki sé þörf á reiðuafli Hvalárvirkjunar – og hún geti því ekki verið þjóðhagslega arðsöm – skýtur skökku við þegar nýir virkjanakostir um land allt eru sífellt í umræðunni. Með Hvalárvirkjun eykst auk þess tryggt reiðuafl á svæðinu sem opnar á möguleika á nýjum atvinnutækifærum sem í dag eru lokaðir.
    Bæjarstjórn skorar á stjórnvöld að breyta raforkulögum þannig að Landsnet fái lagalega heimild til að fella niður fyrirhugað tengigjald vegna Hvalárvirkjunar.“

Greinargerð:
    Raforkuöryggi er ein af grundvallarforsendum fyrir uppbyggingu nútímasamfélaga. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að samfélög á Íslandi standi jafnfætis í þessum efnum. Ástand raforkukerfisins á Vestfjörðum er hins vegar þess eðlis að það mun að óbreyttu verða enn frekari dragbítur á samfélagsþróun í fjórðungnum.
    Núverandi aðstæður í raforkumálum á Vestfjörðum laða ekki til sín iðnað eða atvinnustarfsemi sem reiðir sig á raforkuöryggi og gæði. Af þeim sökum búa Vestfirðingar ekki við sömu aðstæður og aðrir landsmenn hvað atvinnuuppbyggingu varðar. Tilkoma Hvalárvirkjunar leysir þessi vandamál.
    Sá samfélagslegi kostnaður sem hlýst af núverandi öryggisleysi í orkumálum á Vestfjörðum, s.s. tækjabilanir, vinnutap og kostnaður vegna varaafls, kallar einnig á að raforkulögum verði breytt svo Landsneti verði heimilt að fella tengigjald á Hvalárvirkjun niður.
    Sú niðurfelling er forsenda þess að Hvalárvirkjun geti orðið að veruleika og um leið trygging fyrir afhendingu rafmagns á Vestfjörðum. Að auki býður niðurfellingin upp á nýja möguleika í nýsköpun þar sem þörf er á mun meira reiðuafli en er til staðar á Vestfjörðum í dag.



Fylgiskjal III.


Áskorun til ríkisstjórnar Íslands varðandi virkjun Hvalár í Ófeigsfirði.

    Undirritaðir beina þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar Íslands að hún beiti sér fyrir að tengigjöld Hvalárvirkjunar verði greidd úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, ríkissjóði.
    Forsenda þess að Hvalárvirkjun verði að veruleika á allra næstu árum er sú að virkjunaraðilar þurfi ekki að bera tengikostnað virkjunarinnar við raforkuflutningskerfi Landsnets.
    Virkjun Hvalár mun skipta sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu og mannlíf á Vestfjörðum og má m.a. benda á eftirfarandi þætti.
     1.      Fjöldi nýrra starfa á byggingartíma virkjunarinnar.
     2.      Að lokinni byggingu virkjunarinnar og tengingu hennar við raforkuflutningskerfi Landsnets á Ísafirði verður afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum orðið ásættanlegt.
     3.      Með auknu framboði á tryggri raforku opnast nýir möguleikar í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og má í því sambandi benda á gagnaver, en staðsetning þeirra á svæðum þar sem lítil hætta er á jarðskjálftum er eftirsóknarverð.

Ísafirði 21. apríl 2009.
Með von um skjót viðbrögð.

f.h. Ísafjarðarbæjar,
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri,

f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga,
Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri,

f.h. Orkubús Vestfjarða,
Kristján Haraldsson, orkubússtjóri.