Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 46. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 105  —  46. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Frumvarp sama efnis var til umfjöllunar og hlaut afgreiðslu frá viðskiptanefnd á síðustu tveimur löggjafarþingum (16. mál 137. þings og 415. mál 136. þings). Þá bárust nefndinni umsagnir auk þess sem gestir komu á fund nefndarinnar.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 2. mgr. 6. gr. laga um vörumerki í þá veru að tæming réttinda vörumerkis verði bundin við EES-svæðið í stað alþjóðlegrar tæmingar. Reglan um tæmingu vörumerkjaréttar varðar rétt eiganda merkis til að stjórna frekar markaðssetningu á grundvelli einkaréttar síns. Sé vara, auðkennd tilteknu vörumerki, komin á markað fyrir atbeina eða með samþykki eiganda þess getur hann ekki haft frekari áhrif á markaðssetningu hennar (t.d. sölu, leigu, inn- eða útflutning). Gengið hefur verið út frá því í íslenskum vörumerkjarétti að tæming næði til alls heimsins en það er ekki tekið með skýrum hætti fram í gildandi lögum. Tæming vörumerkjaréttar byggist á rétti vörumerkjahafa skv. 4. gr. laga um vörumerki, þ.e. að aðrir en eigandi vörumerkis megi ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi tákn sem eru eins og vörumerki hans eða lík því.
    Samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins 8. júlí 2008, í málum nr. E-9/07 og E-10/07, LOréal Norge AS og LOréal SA gegn Per Aarskog AS, Nille AS og Smart Club AS, samræmist alþjóðleg tæming vörumerkjaréttinda ekki ákvæði vörumerkjatilskipunar 89/104/EB eins og dómstóllinn túlkar það, en tilskipunin er hluti EES-samningsins. Þarf því að breyta lagaákvæðinu og er með frumvarpinu lögð til lágmarksbreyting á 2. mgr. 6. gr. laganna svo að hún samræmist dóminum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Lilja Mósesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. okt. 2009.



Magnús Orri Schram,


varaform., frsm.


Davíð Stefánsson.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.



Eygló Harðardóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir.