Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 90. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 159  —  90. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.
    Umsagnir bárust um málið frá Neytendasamtökunum, Alþýðusambandi Íslands, Íbúðalánasjóði, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sýslumanninum á Höfn, tollstjóranum í Reykjavík, sýslumanninum í Reykjavík, sýslumanninum á Selfossi, Samtökum fjármálafyrirtækja, Sýslumannafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimild sýslumanns til að verða við ósk gerðarþola um að fresta nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði verði framlengd fram yfir 31. janúar 2010. Með lögum nr. 23/2009, er breyttu m.a. ákvæðum laga um nauðungarsölu, var ákveðið að fresta skyldi að ósk gerðarþola nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Sá frestur er liðinn og því komið að lokasölu í nokkrum tilvikum. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að fresturinn væri hugsanlega ekki nægilega langur fyrir fólk sem er í greiðsluvandræðum til þess að endurskipuleggja fjármál sín með þeim úrræðum sem í boði eru, svo sem greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Nefndin telur því rétt að leggja til að fyrirhugaður frestur verði framlengdur til 28. febrúar 2010. Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir frekari frestun á nauðungarsölum eftir þennan tíma. Vill nefndin af því tilefni taka fram að hún telur ekki rétt að útiloka þann möguleika heldur telur eðlilegt að það mál verði skoðað sérstaklega í ljósi reynslunnar og þá hvort nauðsyn krefji.
    Nefndin telur rétt að taka fram að sömu skilyrði gilda varðandi þessa frestun og fyrr, þ.e. að gerðarþoli eða gerðarþolar þurfa sjálfir að óska eftir framlengdum fresti og húsnæðið sem um ræðir þarf að vera íbúðarhúsnæði samkvæmt nánari skilgreiningu.
    Loks telur nefndin rétt að taka fram að niður er fallin sú sérregla að kröfur í eigu ríkisins, ríkisstofnunar eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins skuli ekki bera dráttarvexti heldur einungis þá vexti sem krafa hefði borið ef ekki hefði komið til vanskila á henni. Þessi sérregla gilti fram til 1. nóvember sl. og munu þessar kröfur því bera lögbundna dráttarvexti frá sama tíma.
    Nefndin leggur til smávægilega lagfæringu á frumvarpinu þar sem ekki er ætlunin að fresta byrjun uppboðs heldur framhaldi uppboðs og/eða ráðstöfun á almennum markaði til fullnustu kröfu skv. 6. gr. laganna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Í stað orðanna „31. janúar 2010“ tvívegis í 1. efnismgr. 1. gr. komi: 28. febrúar 2010.
     2.      Í stað orðanna „við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði“ í 2. málsl. 1. efnismgr. 1. gr. komi: við framhald uppboðs eða á almennum markaði.

    Ásmundur Einar Daðason og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 3. nóv. 2009.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir,

form., frsm.

Atli Gíslason.

Róbert Marshall.


Valgerður Bjarnadóttir.

Birgir Ármannsson.

Þráinn Bertelsson.


Vigdís Hauksdóttir.