Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 167. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 186  —  167. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á gjaldmiðilsmálum.

Flm.: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ásmundar Einar Daðason.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera víðtæka úttekt á helstu framtíðarkostum Íslands í gjaldmiðilsmálum, sem verði liður í því að renna stoðum undir sjálfbæra þróun íslensks samfélags. Teymi erlendra og innlendra sérfræðinga úr ólíkum áttum og af mismunandi fagsviðum verði fengið til að gera úttektina og skal það:
     a.      leggja heildstætt mat á kosti og galla íslensku krónunnar sem framtíðargjaldmiðils landsins og útlista þá þætti hagstjórnar og regluverks sem þá þurfa að vera fyrir hendi;
     b.      gera rannsókn á því með hvaða hætti íslenska krónan hefur gagnast eða íþyngt þjóðarbúinu við að vinna sig út úr yfirstandandi kreppu og hagsveiflum fyrri tíðar og til samanburðar rekja reynslu annarra sambærilegra hagkerfa sem hafa lent í harkalegri kreppu en eru hluti af stærra myntsvæði, svo sem evru;
     c.      leggja heildstætt mat á kosti og galla upptöku annarrar myntar fyrir íslenskt hagkerfi til lengri og skemmri tíma, svo sem evru, bandaríkjadals, norskrar eða sænskrar krónu.

Greinargerð.


    Mikilvægt er að fram fari ítarleg og vönduð greining á þeim kostum sem Íslendingum bjóðast í gjaldmiðilsmálum. Tillaga þessi gerir ráð fyrir því að helstu möguleikar verði raktir og útlistaðir kostir og gallar hvers möguleika fyrir sig.
    Mikilvægt er m.a. að huga að tvennu: Í fyrsta lagi hvaða fyrirkomulag er heppilegast til að tryggja stöðugleika. Reynslan kennir að lítill gjaldmiðill getur hæglega orðið leiksoppur á fjármálamörkuðum og út á hann gert í leit að hagnaði. Spyrja þarf hver sé reynslan af smáum gjaldmiðlum og hvaða ráð dugi best til að verja þá. Umræða um gjaldmiðilsmál virðist í allt of ríkum mæli einkennast af fyrir fram gefnum niðurstöðum og afstöðu hlutaðeigandi til framtíðar Íslands innan eða utan Evrópusambandsins. Meintar ástæður hruns gjaldmiðilsins í kjölfar bankakreppunnar vekja upp spurningar um hvort stundum sé verið að hengja bakara fyrir smið: hvort gjaldmiðillinn sé látinn gjalda fyrir slæma fjármála- og efnahagsstjórn, dómgreindarleysi og jafnvel ónægt eftirlit. Í annan stað þarf að huga að kostum og göllum krónunnar við erfiðar aðstæður í efnahagslífinu. Enda þótt Ísland yrði hluti af stærra myntsvæði yrðu Íslendingar ekki þar með lausir við efnahagsþrengingar í framtíðinni. Þá vaknar sú spurning hvaða fyrirkomulag í gjaldmiðilsmálum hentar best við slíkar aðstæður, og hvaða hagstjórnartæki þurfa að vera til staðar.
    Fáir deila um það að hrun gjaldmiðilsins á sér tvær hliðar. Annars vegar verða öll aðföng til landsins dýrari og kaupmáttur þjóðarinnar rýrnar. Hin hliðin á þeirri krónu er svo sú að kjaraskerðingin gengur yfir allt samfélagið en bitnar ekki einvörðungu á hluta þess. Kjaraskerðingin en annað orðalag fyrir kaupmáttarrýrnun sem gagnast útflutningsfyrirtækjum. Þau fá meira í sinn hlut í krónum talið á erlendum mörkuðum fyrir minni launakostnað innan lands. Ætla mætti að stöðugri gjaldmiðill hefði leitt til stóraukins atvinnuleysis hérlendis.
    Tillaga þessi gerir ráð fyrir því að farið verði í saumana á þessum þætti og gerð fagleg og ítarleg úttekt á því með hvaða hætti íslenska krónan gagnast þjóðarbúinu og samfélaginu við að vinna sig út úr kreppuástandi. Í úttektinni skal hafa til samanburðar nokkur vel valin svæði þar sem evra er gjaldmiðill og aðrir stórir gjaldmiðlar á svæðum þar sem miklir erfiðleikar hafa steðjað að. Fara þarf í saumana á því með hvaða hætti gjaldmiðlarnir hafa hjálpað þeim samfélögum að vinna bug á efnahagserfiðleikum og þá einnig hvernig ósveigjanleikinn hefur komið þeim í koll til samanburðar við það sem á sér stað á Íslandi.
    Þá er mikilvægt að greina ítarlega kosti Íslands til upptöku annars gjaldmiðils. Því hefur ítrekað verið haldið fram í opinberri umræðu að eina leið Íslands til að verða hluti af stærra myntsvæði sem hentaði íslensku hagkerfi væri að ganga í Evrópusambandið. Ýmsir álitsgjafar hafa verið á öðru máli og bent á aðrar leiðir sem færar eru, ef á annað borð er talið heillavænlegt að skipta um gjaldmiðil til frambúðar. Í stað þess að einungis sé slegið fram einni leið í þessum efnum – inngöngu í ESB – þá er mikilvægt að bæði þingheimur og allur almenningur sé vel upplýstur um þær mismunandi leiðir sem mögulegar eru, kosti þeirra og galla. Því er mikilvægt að fram fari fagleg og fjölþætt úttekt á þeim kostum sem í stöðunni eru.
    Vanda verður valið á rannsóknarteyminu sem vinnur úttektina. Fagfólk þarf að koma að úr mörgum áttum með mismunandi bakgrunn ólíkra fagsviða til að tryggja víðsýni og trúverðugleika á viðfangsefnið.
    Ef stefnan til framtíðar er á sjálfbærni og sjálfbæra þróun íslensks samfélags þá hljóta allar tillögur í gjaldmiðilsmálum að vera hugsaðar út frá þeim grunni og útgangspunkti. Þær einsleitu hagfræðikenningar sem haft hafa yfirhöndina undanfarin missiri og byggst hafa á grunni taumlausrar græðgi og fjármagnsflutninga í þágu alþjóðlegrar spákaupmennsku verða nú að mæta öðrum gildum og annarri framtíðarsýn. Trúverðug sýn í gjaldmiðilsmálum sem öðrum stórum samfélagsmálum verður að byggjast á fjölbreyttum sjónarhornum og grænum áherslum sjálfbærni og jafnaðar jafnt sem takmarkinu um atvinnu fyrir alla. Eðlilegt er að leita til erlends fagfólks jafnt sem innlendra aðila til að vinna slíka úttekt þar eð hætt er við að annars sé of mikil hliðsjón höfð af hagsmunaátökum líðandi stundar hér innan lands.
    Eins og sjá má af fylgiskjölum hefur ýmislegt verið ritað um gjaldeyrismál hérlendis og eru greinarnar sem hér birtast einungis brotabrot af því feikimikla efni sem fyrir hendi er. Að auki skal bent á fróðlega skýrslu Hagfræðistofnunar Íslands frá febrúar 2007, Kostir og gallar upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi.
    Í þeirri þvögu ólíkra sjónarmiða sem uppi eru um málið er úrslitaatriði að kostir og gallar séu metnir á faglegan og yfirvegaðan hátt og að vönduð ítarleg úttekt liggi fyrir gerð af bæði innlendum og alþjóðlegum fagaðilum með fjölbreyttan bakgrunn. Slíkt er lykillinn að upplýstri ákvörðun þings og þjóðar í svo afdrifaríku máli.
Fylgiskjal I.


Kári Arnór Kárason:

Á að kasta krónunni? – Vandaða umræðu í stað gleðipillu.

(Smugan 24.3.2009.)



    Bankahrunið á Íslandi og sú fjármála- og gjaldeyriskreppa sem fylgt hefur í kjölfarið hefur sem von er vakið upp spurningar um framtíðarskipan gjaldeyrismála í landinu. Umræðan hefur þó fremur einkennst af upphrópunum og æðibunugangi en vandaðri rökræðu um möguleika í gjaldeyrismálum. Talað er um að við þurfum skjól í efnahagslegu umróti og að krónan fljóti eins og korktappi í ólgusjó alþjóðlegra fjármála.
    Margir stjórnmálamenn og hagfræðingar virðast þegar hafa gert upp hug sinn og telja að við eigum enga möguleika aðra en að taka upp aðra mynt – þess vegna einhliða – fremur en að engjast með þessa ömurlegu krónu. Hefur þar einkum verið litið til inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Það sé eina leiðin til að til að koma á stöðugleika og öðlast virðingu umheimsins á nýjan leik. Minna fer hins vegar fyrir efnislegum rökum í þessari umræðu. Þar sem framtíðarskipan gjaldeyrismála er ein mikilvægasta ákvörðun í hagstjórn næstu ára er mikilvægt að vel sé vandað til verka og kostir og gallar þeirra möguleika sem til greina koma séu vegnir og metnir. Af sjálfu leiðir að upptaka evru myndi leiða til aukins stöðugleika í gjaldeyrismálum. Á hinn bóginn mun hún einnig hafa í för með sér ýmsar áskoranir og aðra tegund af óstöðugleika, sem ekki er víst að séu léttbærari en sveiflukenndur gjaldmiðill. Það er heldur ekki sjálfgefið að íslensk hagstjórn þurfi að vera með þeim hætti að sjálfstæð mynt þýði umtalsverðan óstöðugleika.

Markmið í hagstjórn
    Sagt að þeir sem stýra efnahagsmálum þjóðar vilji ná þremur megin markmiðum með efnahagsstjórn sinni. Í fyrsta lagi vilja þeir hafa stjórn peningamála að ráða, þannig að þeir geti barist gegn efnahagssamdrætti eða verðbólgu. Í öðru lagi vilja þeir hafa stöðugt gengi þannig að fólk og fyrirtæki búi við sem minnsta óvissu og í þriðja lagi vilja þeir að flæði fjármagns og vinnuafls sé sem frjálsast þannig að efnahagsleg hagkvæmni sem leiðir alþjóðlegri verkaskiptingu sé sem mest og að fólki og fyrirtækjum séu sem minnstar skorður settar í athöfnum sínum. Oft er talað um að ekki sé hægt að ná öllum þessum markmiðum í einu. Þannig má segja að Íslendingar hafi reynt að ná markmiðum eitt og þrjú en fórnað markmiðinu um stöðugt gengi með því að láta krónuna fljóta. Þessi stefna hefur raunar verið vinsæl meðal margra þjóða að undanfarna tvo áratugi með misjöfnum árangri. Ef hægt er að tala um markmið í íslenskri hagstjórn á undanförnum áratugum þá hafa þau fyrst og fremst verið að hámarka hagvöxt og atvinnustig í landinu. Þetta hefur verið að nokkru gert á kostnað verð- og gengisstöðugleika. Að taka upp evru væri að fórna markmiðinu um sjálfstæða peningastjórn til að reyna að ná hinum markmiðunum tveimur. Það hefur í för með sér kosti og galla. Það kann til að mynda að auka sveiflur í atvinnustigi þar sem atvinnuleysi gæti orðið verulegt.

Hagkvæm myntsvæði
    Mikið hefur verið skrifað um hagkvæm myntsvæði. Eðlilegt er að þessi umræða fari fram á Íslandi nú í eftirköstum gjaldeyriskreppu. Til að myntsvæði teljist hagkvæmt þarf það að uppfylla nokkur skilyrði:

     1.      hreyfanleika vinnuafls yfir svæðið, þannig að vinnandi hendur geti flutt frá svæðum þar sem er samdráttur til þeirra svæða þar sem er uppgangur.
     2.      vel dreifð atvinnustarfsemi sem jafnar efnahagslegar sveiflur og minnkar líkur á að hagþróun innan svæðisins verði mjög ólík.
     3.      frelsi í fjármagnsflutningum og sveigjanleiki í verð- og launamyndun.
     4.      tilfærslukerfi sem byggist á skattheimtu og getur komið þeim svæðum og atvinnugreinum, sem hafa orðið fyrir áfalli, til aðstoðar og dregur úr misskiptingu milli íbúanna.
    Erfitt er að meta hvaða stærð af myntsvæði er heppilegast, þau eru bæði til stór og smá. Bandaríki Norður-Ameríku er stærsta myntsvæði heims – og uppfyllir flest ofangreindra skilyrða, ef frá er talið sveigjanleiki í launamyndun, en laun eru tregbreytanleg niður á við þar sem annars staðar. Bandaríkin hafa hins vegar að mestu sameiginlegt tungumál sem dregur úr áhrifum sem menningarlegur mismunur hefur, hreyfanleiki vinnuafls er mikill og öflugt tilfærslukerfi í gegnum alríkisstjórnina er til staðar. Það sjáum nú þegar alríkisstjórnin kemur stórum ríkjum eins og Kaliforníu og Florida til bjargar. Hvað Evrópu varðar þá er sveigjanleiki í launum lítill og jafnvel minni en annars staðar, tungumál eru ólík og menningarlegur mismunur er mikill og hreyfanleiki vinnuafls enn lítill, þótt hann hafi farið vaxandi. Evrópusambandið er ekki ríki heldur ríkjasamband og ekki er til staðar tilfærslukerfi sem jafnar aðstæður innan evrópska myntsvæðisins og skatta-, félags- og eftirlaunakerfi þessara ríkja eru um margt mjög ólík. Oft hefur verið efast um að Evrópa sé hagkvæmt myntsvæði. Þar til nú hefur efnahagur heimsins verið nokkuð stöðugur og hagvöxtur þokkalegur síðan evrunni var hleypt af stokkunum. Nú horfir hins vegar öðru vísi við og það má segja að fyrst nú reyni á þetta samstarf og mikil umræða fer nú fram í Evrulandi um ágæti samstarfsins. Ekki virðast öll löndin vera jafn hamingjusöm í þeirri umræðu.

Kostir og gallar myntsvæða
    Myntsamstarf og stór myntsvæði hafa ýmsa óumdeilda kosti. Þar má nefna að stærri hluti viðskipta er innan myntsvæðisins og gengissveiflur hafa því minni áhrif, sem gerir áætlanagerð fólks of fyrirtækja auðveldari. Stærra markaðssvæði minnkar einnig viðskiptakostnað. Meiri agi er líklegur í verðlags- og peningamálastjórnun á svæðinu í heild og öflugur peningalegur bakhjarl er til staðar. Minni líkur eru á átökum milli grannríkja og svæðið er væntanlega öflugri heild í samningum við aðra á alþjóðavettvangi. Í því efni skiptir þó bæði hernaðar- og efnahagslegur styrkur máli.
    Menn hafa mjög litið til þessara kosta í umræðunni um valkosti íslendinga í gjaldeyrismálum. Þó nokkrir misjafnlega gáfulegir útreikningar hafa verið gerðir til að meta hagnað Íslendinga við inngöngu í slíkt myntsamstarf. Útreikningarnir hafa flestir notast við mjög almennar forsendur en hafa verður í huga að munur á verðlagi, vöxtum og sköttum er í mörgum tilfellum meiri innan evrusvæðisins en á milli Íslands og Evrulands. Tölur yfir Evruland byggja á meðaltölum sem enginn í raun býr við, en meðaltöl eru þeim mun merkingarlausari sem þau ná yfir stærra svæði. Lítið hefur verið rætt um ókosti slíkrar gjaldeyrissamvinnu, ekki síst fyrir smáríki eins og Ísland með tiltölulega einhæft atvinnulíf og ekki er mikið um útreikninga á kostnaðinum við inngöngu í slíkt myntsamstarf. Þá hefur lítið verið fjallað um þau vandamál sem nú er glímt við innan Evrulands, hvernig myntsamstarfið takmarkar möguleika aðildarríkjanna til athafna og hvers vegna nú eru raunverulegir möguleikar á því að ríki yfirgefi myntsamstarfið.
    Stærsti gallinn við evrópska myntsamstarfið er að einstök ríki glata möguleikanum á sjálfstæðri gjaldeyris- og peningamálastjórnun og þar með möguleikanum á að bregðast við utanaðkomandi áföllum, með breytingum á gengi gjaldmiðils síns. Verulega dregur úr efnahagslegu sjálfstæði sem getur haft mikinn efnahagslegan og félagslegan kostnað í för með sér. Áfall þýðir í nær öllum tilfellum tekjufall í viðkomandi ríki vegna einhverra aðstæðna, annað hvort utanaðkomandi (t.d. aflabrestur) eða t.d. vegna fjármálaþrenginga sem geta átt rætur að rekja bæði til innlendra eða erlendra þátta. Slíka kjaraskerðingu geta þegnar ríkis tekið á sig með lækkun gengis og komist þar með hjá mikilli aukningu á atvinnuleysi.
    Á hinu sameiginlega Evrópska myntsvæði er peningamálum stýrt í samræmi við þarfir stærstu ríkjanna, einkum Þýskalands og Frakklands. Ekkert tillit er tekið til efnahagsþróunar í minni ríkjum og jafnvel ekki í stórum ríkjum eins og Spáni og Ítalíu. Það er því ljóst að peningastefnan myndi í engu taka mið af þróuninni í smáríki eins og Íslandi. Atvinnulíf á Íslandi er talsvert frábrugðið atvinnulífi stærstu landanna í Evrulandi og fylgni hagsveiflunnar hér og á evrusvæðinu er lítil.
    Sem þátttakandi í myntbandalagi getur land ekki brugðist við mismunandi hagþróun eða utanaðkomandi áföllum með breytingum á gengi og peningamálastjórn. Þrátt fyrir sameiginlegt myntsvæði kann eftir sem áður að vera talsverður munur hagvexti milli landa svæðisins og þar með einnig á launaþróun, verðbólgu og breytingum á eignaverði. Þannig getur tímabundinn uppgangur í tilteknu landi innan svæðisins, sem ekki er mætt með nægjanlega öflugum aðhaldsaðgerðum, leitt til þess að verðbólga, launa- og eignaverðshækkanir verði mun meiri en í kjarnalöndum samstarfsins. Þetta kann að leiða til þess að þetta tiltekna land verður ósamkeppnishæft t.d. þegar launakostnaður þar er orðinn verulega meiri en í kjarnalöndunum. Sama kann að vera upp á teningnum ef verulegur samdráttur verður einhverra hluta vegna í megin atvinnugreinum viðkomandi lands og þessar sömu atvinnugreinar hafa litla þýðingu fyrir kjarnaríki samstarfsins. Hafi land ekki möguleika til að bregðast við slíku misvægi með gengisbreytingum verður aðlögunin að fara fram í gegnum breytingar á raunstærðum hagkerfisins, einkum launum. Laun eru hins vegar mjög tregbreytanleg niður á við og því getur slík aðlögun reynst mjög erfið, bæði efnahagslega og pólitískt, eins og nú er að koma á daginn innan Evrulands.

Mismunandi samkeppnisstaða
    Evrusamstarfinu er stýrt í gegn um svokallaðan Stöðugleika og vaxtar samning (Stability and Growth Pact). Þar er ekki minnst á launakostnað. Á síðasta áratug hefur þróunin innan Evrulands verið nokkuð ólík milli ríkja, ekki síst hvað varðar framleiðni og launakostnaði. Þannig er launakostnaður orðinn um 15–25% hærri í ríkjum eins og Portúgal, Spáni, Ítalíu, Grikklandi og Írlandi en hann var í Þýskalandi miðað við tölur frá árinu 2007 (sjá stats. oecd.org). Augljóst er að samkeppnisstaða þessara ríkja er mjög erfið en mörg þeirra reiða sig mjög á útflutning. Þar sem möguleikinn á að bæta samkeppnisaðstöðuna með gengisbreytingum – líkt og nú er að gerast í Bretlandi – er ekki lengur til staðar er ljóst að aðlögunin verður að eiga sér stað í gegn um vinnumarkaðinn, með lækkun launa. Það gerist hægt og á löngum tíma og mun þýða verulegt atvinnuleysi. Hinn möguleikinn væri sá að önnur ríki – einkum Þýskaland kæmi verst settu ríkjunum til hjálpar – þ.e. að sett yrði upp millifærslukerfi í Evrópu líkt og í Bandaríkjunum. Ef marka má yfirlýsingar núverandi kanslara Þýskalands þá er það ekki líklegt á næstunni og hvað sem björgunarleiðangur fyrir evruna í framtíðinni kann að neyða þá til. Slíkt væri risaskref í átt að ríki sem forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa þrástagast á að væri ekki markmiðið. Jan-Claude Trichet aðalbankastjóri Evrópska seðlabankans hefur raunar sagt að í ljósi reynslunnar hefði þurft að stýra myntsamstarfinu með Stöðugleikasamningi um launaþróun. Slíkt er þó varla meira en draumórar skriffinns því illa gengur að stjórna launaþróun innan atvinnugreina og landa, hvað milli landa.


Er hægt að yfirgefa evruna?
    En geta þessi ríki þá ekki yfirgefið evruna. Ef marka má það skuldatryggingarálag sem nú er á skuldum margra þessara ríkja þá virðast fjárfestar á þeirri skoðun. Það er hins vegar hægara sagt en gert ef ríki er á annað borð komið inn. Þótt það kosti blóð svita og tár að vera inni þá kann það að kosta enn meira að fara út. Allar skuldir bæði viðkomandi ríkis sem og fólks og fyrirtækja eru í evrum. Það myndi ekki breytast þótt viðkomandi ríki tæki aftur upp sjálfstæða mynt. Of mikil skuldsetning í annarri mynt mundi samdægurs framkalla gjaldeyriskreppu með skelfilegum afleiðingum líkt og Íslendingar hafa fengið að kynnast. Löndin eru því föst milli steins og sleggju þar sem kvalafull aðlögun í gegn um vinnumarkaðinn með tilheyrandi félagslegum óróleika virðist eina leiðin. Verði félagslegur óróleiki of mikill kann samstarfið að springa eða að þjóðirnar verða neyddar til að taka upp millifærslukerfi til að bjarga því. Aðeins framtíðin mun leiða það í ljós.
    Eins og þetta væri ekki nóg þá eiga Evrópulönd í verulegum erfiðleikum með sín bankakerfi, sem engan vegin hafa verið yfirstignir. Talið er að endurfjármögnunarþörf evrópskra og bandarískra banka sé á milli 2–3 trilljónir dollar á næstu 12–18 mánuðum. Evrópskir bankar eru þar í sínu verri stöðu þar sem þeir hafa í meira mæli reitt sig á utanaðkomandi fjármögnun. Engin sameiginleg áætlun er til í Evrópu til að bjarga bönkunum og þrátt fyrir fögur orð virðist hver hugsa um sig í því efni. Írland er þar í sérstökum vandræðum vegna umfangsmikils bankakerfis sem talið er eiga eftir að afskrifa verulegar kröfur á næstunni. Því óvíst að það nái að spjara sig. Írska ríkið á enga möguleika til bjarga sínum bönkum ef margir stærri bankanna lenda í erfiðleikum á sama tíma. Fróðlegt verður að sjá hvernig það mun reyna á samstarfið ef til slíkra vandræða kemur.
    Vandamálin eru því ærin innan Evrulands og ekki víst að Íslendingar geti sótt þangað það skjól sem þeir sækjast eftir. Í öllu falli er ljóst að við munum búa við krónuna lengi enn og því rétt að hagstjórn og umræða hér taki mið af því. Það er engin gleðipilla handan við hornið til sem leysir okkar vandamál. Þótt stefnan verði sett á evruna er það engin trygging fyrir hagfelldari þróun líkt og mörg ríki í biðröðinni inn í Evruland hafa lært að undanförnu. Við verðum sjálf að hreinsa upp okkar óreiðu og subbuskap og ekkert nema öguð og skynsamleg hagstjórn mun bæta mannorð okkar á nýjan leik – mannorð fæst ekki keypt. Íslendingar eru ung þjóð með mikla möguleika bæði í náttúru og mannauði. Þróunin hér kann því að verða með ólíkum hætti en í hinni öldruðu Evrópu á komandi árum og áratugum. Í því ljósi er mikilvægt að skoða bæði kosti þess og galla að ganga inn í Evruland. Því er vönduð umræða nauðsynleg.



Fylgiskjal II.


Ársæll Valfells og
Heiðar Már Guðjónsson:


Einhliða upptaka er lausn á gjaldeyrisvanda.


(Morgunblaðið 8. janúar 2009.)



    Undirritaðir hafa bent á einhliða upptöku á öðrum gjaldmiðli sem valkost sem stjórnvöld ættu að skoða í núverandi efnahagsþrengingum. Fátt er verra í krísum en að hafa ekki valkosti. Ástæða þess að einhliða upptöku evru er stillt fram sem valkosti er einmitt sú að mikil óvissa ríkir um hversu langan tíma það tekur fyrir Ísland að fá fast land í gengismálum með hefðbundnu umsóknarferli að ESB. Því vaknar sú spurning hvort íslenskur efnahagur hafi efni á því að bíða?
    Hér ríkir óvissa.
     1.      Líklegt er að það taki a.m.k. 12 mánuði að semja við ESB
     2.      Óvissa ríkir um að aðildarsamningur verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu
     3.      Það þarf fleiri en eina þjóðaratkvæðagreiðslu sem og breytingu á stjórnarskrá
     4.      Það tekur 27 aðildarríki 1–2 ár að samþykkja inngöngu Íslands í ESB
     5.      Ekki er vitað hvar Ísland lendir í biðröð áður samþykktra aðildarríkja
     6.      Frekari stækkun ESB er háð samþykkt Lissabon-sáttmálans
     7.      Sækja þarf um ERM II eftir samþykkt en Búlgaría sótti þar um fyrir 2 árum og hefur enn ekki fengið svar
     8.      Ísland þarf að vera a.m.k. 2 ár í ERM II og uppfylla öll skilyrði til þess að geta fengið aðild að EMU og þar með evru.
    Því tekur upptaka evru með inngöngu í ESB í minnsta lagi 5 ár, gæti hæglega tekið 10 ár.
    Aðlögunarferlið fælist í því að framhald verði á gjaldeyrishöftum um ófyrirséðan tíma. Seðlabanki Íslands telur að um 500 milljarðar króna séu nú inni í landinu af svokölluðum jöklabréfum og 18% vaxtastig þýðir að greiddir eru um 100 milljarðar á ári í vexti. Leyfilegt er samkvæmt nýjum gjaldeyrishöftum að taka vexti út úr landinu á hinu opinbera gengi. Það munar um minna. Almenningur og fyrirtæki munu bera þann vaxtabagga og atvinnulífið verður lokað á meðan í gjaldeyrishöftum og mun hugsanlega bíða verulegt tjón af.
    Því er haldið fram að Seðlabanki Íslands sé lánveitandi til þrautavara. Hver getur nefnt dæmi um slíka fyrirgreiðslu bankans, sem eingöngu sinnti einföldustu lausafjáraðstoð, en brást algerlega sem lánveitandi til þrautavara? Hvernig er hægt að halda því fram að Seðlabanki Evrópu sé lánveitandi til þrautavara? Benelux-bankinn Fortis, einn stærsti banki Evrópu, leitaði að þrautavaralánum í september og Seðlabanki Evrópu aðhafðist ekkert. Seðlabankar Belgíu, Hollands og Lúxemborgar gátu heldur ekkert að gert, enda voru þeir búnir að framselja peningaprentunarvald sitt til Seðlabanka Evrópu. Það dæmdist því á ríki hvers lands að grípa inn í með ríkisstyrki. Það sama á við í Bandaríkjunum þegar vandinn var orðinn það mikill að þingið samþykkti í haust ríkisaðstoð til bankanna þar í landi, enda gat Seðlabankinn ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Það gerðist einnig í Bretlandi. Það fer ekki fram hjá þeim sem með fylgjast að seðlabankar eru ekki lánveitendur til þrautavara í alþjóðavæddum heimi, heldur ríkisstjórnir. Þegar allt kemur til alls er það ríkið sem stendur á bakvið seðlabankana, eins og alltaf hefur verið. Einhliða upptaka er því ekkert frábrugðin aðild að myntbandalagi þegar horft er til lánveitanda til þrautavara.
    Því hefur einnig verið haldið fram að gjaldeyriskreppan stafi fyrst og fremst af fjármagnsflótta frá landinu vegna vantrausts á íslenskt fjármálakerfi og efnahagsmál – ekki aðeins vantrausts á þjóðarmyntina sem slíka. Líkur á fjármagnsflótta frá landinu minnka verulega með því að taka upp trausta mynt og auðveldara er að endurreisa traust á fjármálastofnanir og efnahag.
    Erfitt getur reynst að afnema gjaldeyrishöft þegar krónan er enn við lýði. Því líklegt er að við afnám haftanna yrði verulegum hluta íslensks sparnaðar breytt í erlenda mynt og geymdur í íslenskum eða erlendum fjármálastofnunum.
    Því er haldið fram að innlendir aðilar myndu einnig flýja hið nýja ríkisbankakerfi eftir evruvæðingu. Líkurnar á flótta eru meiri ef stuðst er við krónu frekar en erlenda mynt. Það væri fróðleg æfing fyrir Íslending að reyna að stofna bankareikninga erlendis og færa öll dagleg bankaviðskipti sín þangað ásamt lánum. Viðskiptabankar eru þjóðlegir vegna nálægðar við viðskiptavininn. Viðskiptabankar hafa engan áhuga á viðskiptavinum sem þeir þekkja ekki. Þar við bætist að íslenskt bankakerfi yrði miklu meira traustvekjandi ef það byggði á alþjóðlegri mynt en ekki á íslenskum krónum og því minni ástæða til að flýja. Það er sama hvert litið er til að finna dæmi. Erlendir aðilar hafa alltaf sýnt mikinn áhuga á að kaupa fjármálafyrirtæki í löndum sem taka upp alþjóðamynt. Með því yrði kerfið tryggara. Í dag hugsa viðskiptavinir bankanna fyrst og fremst um gjaldmiðilinn og hafa áhuga á að eiga viðskipti við innlendar fjármálastofnanir í erlendum myntum en er bannað það með núverandi gjaldeyrishöftum.
    Því er haldið fram að erlendir aðilar sem eiga jöklabréf og fjárfestingar á Íslandi séu líklegri til að færa fjármagn sitt frá landinu ef það styðst ekki lengur við krónuna, smæstu og eina verstu mynt heims. Jöklabréfaeigendur vilja fá greitt í erlendri mynt að lokum, hjá því verður ekki komist. Bjóðist þeim viðunandi kjör í evrum er líklegra að þeir haldi fjármunum sínum í landinu þegar gengisáhættan hefur verið tekin út.
    Færð hafa verið fyrir því rök hvernig unnt er að tryggja íslenskt bankakerfi í alþjóðlegri mynt án aðildar að myntsamstarfi. Með því að nota gjaldeyrisforða Seðlabankans og leggja afganginn af honum inn í bankana sem nýtt hlutafé. Með því að fá tryggingu í erlendum eignum lífeyrissjóða landsins gegn greiðslu og með því að hafa ódregin lán frá AGS á hliðarlínunni má tryggja hverja einustu evru, dollar eða aðra mynt í kerfinu. Slíkt kerfi er hvergi til, og í raun óþarft, en er hér nefnt til sögunnar til að sýna hversu einfalt það er að tryggja kerfið. Líklegt er að að óbreyttu muni líða 5–10 ár þar til rekstrarhæft umhverfi kemst á og gjaldeyrishöft verða afnumin að fullu.
    Hvorugur undirritaðra talar í nafni stofnunar eða félags. Undirritaðir eru ekki sammála um hvort gangi eigi í Evrópusambandið eður ei. Við viljum einfaldlega koma því á framfæri að það eru fleiri kostir í stöðunni en aðild að myntbandalagi ESB í gegnum umsókn að bandalaginu. Við höfum áhyggjur af því að ef á að fara þá leið að taka upp nýja mynt með aðild að ESB þá verði kostnaður fyrirtækja og heimila svo hár að varanlegur efnahagslegur skaði hljótist af.
    Alþjóðlega fjármálakrísan sem nú ríkir er án fordæmis. Það hefur gert það að verkum að stjórnvöld um allan heim hafa þurft að grípa til óhefðbundinna efnahagslegra aðgerða. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir að hafa gripið til aðgerða til að stemma stigu við fjármálakreppunni. Aðgerða sem margar hverjar eru án fordæma og á hagfræðilega „ókortlögðu svæði“. Þeirri gagnrýni svarar Ben Bernanke t.d. í Financial Times þann 5. janúar: „Ein af niðurstöðum mínum eftir að hafa rannsakað kreppuna miklu er sú að fólk er gjarnt á að halda að hefðbundnar leiðir séu öruggar...“ „En stefna út úr vandamáli á alltaf að byggjast á eðli vandamálsins. Í alvarlegum krísum geta hefðbundnar leiðir reynst vera mjög vondar stefnur.“

Fylgiskjal III.


Þórlindur Kjartansson:


Tökum upp Bandaríkjadal.


(Fréttablaðið 8. apríl 2009.)



    Taka þarf upp alþjóðlega, gjaldgenga mynt sem lögeyri á Ísland hið fyrsta svo milliríkjaviðskipti geti átt sér stað með eðlilegum, óþvinguðum og óheftum hætti. Ísland þarf að vera opið og frjálst til þess að skapa skilyrði til verðmætasköpunar. Því miður er þróunin í þveröfuga átt og er þar einkum um að kenna tilraunum til þess að halda íslensku krónunni
við í skjóli strangra gjaldeyrishafta. Nokkuð breið samstaða virðist ríkja í íslensku samfélagi
um að heppilegt væri að taka upp nýjan gjaldmiðil og því er mikilvægt að stjórnvöld, hvernig sem þau eru skipuð, grípi til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til þess að svo megi verða.
    Vandi þjóðarinnar er ærinn og þarfnast úrlausnar strax. Fyrirtækin geta ekki þrifist til lengdar undir oki gjaldeyrishafta og erfitt er fyrir ný fyrirtæki að hasla sér völl við þær aðstæður. Vandinn vex með hverjum degi sem núverandi ástand varir. Yrði afráðið að taka upp evru með aðild að myntbandalagi Evrópu þyrfti að uppfylla svokölluð Maastricht-skilyrði sem kveða á um ýmis atriði, sem snerta til dæmis skuldastöðu hins opinbera, fjárlagahalla og vaxtastig. Á næstu árum á Íslandi verður mjög erfitt eða ómögulegt að uppfylla þau skilyrði, og því myndi evran langt því frá leysa þann vanda sem nú steðjar að íslenska hagkerfinu. Haftakrónan mun leiða íslenska þjóð langt aftur í tímann áður en upptaka evru væri möguleg með aðild að myntbandalagi Evrópu. Þetta þurfum við að horfast í augu við.

AGS og upptaka Bandaríkjadals
    Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna samþykkti í vikunni ályktun þess efnis að nú þegar verði hafið samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að taka upp Bandaríkjadal í viðskiptum á Íslandi. Nýleg dæmi eru þess efnis að sjóðurinn hafi aðstoðað þjóðir við slíkar aðgerðir – hví ætti hann ekki að hjálpa Íslandi? Í kvöldfréttum sjónvarps í liðinni viku sagðist fastafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa lagt nokkrar leiðir til við íslensk stjórnvöld til að bæta úr stöðunni sem upp væri komin vegna hriplekra gjaldeyrishafta. Áhugavert væri að vita hvað fastafulltrúinn hafði í huga annað en hert höft, sem gera notkun á íslensku krónunni nánast óheimila.

Tvöfalt gengi
    Nýsamþykkt gjaldeyrishöft, sem meðal annars banna útflytjendum að kaupa krónur í erlendum bönkum til heimflutnings, undirstrika hversu vonlaus staðan í gjaldeyrismálum Íslandi er. Á meðan gengi gjaldmiðilsins fær ekki að ráðast á markaði munu stjórnvöld þurfa að grípa til sífellt harðari aðgerða til þess að verja gervigengið í Seðlabankanum. Þær aðgerðir fela annars vegar í sér höft og hins vegar fjárútlát, vegna þess að Seðlabankinn þarf að niðurgreiða íslensku krónuna á innlendum markaði til að halda genginu of háu. Krónan er síðan skráð mun lægra erlendis. Mismunurinn sem verður til milli þessara tveggja fölsku gengisskráninga er síðan sóun eða tjón.

100 þúsund á mann
    Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands hefur gjaldeyrisforði hans skroppið umtalsvert saman á síðustu mánuðum. Stærstur hluti þeirrar minnkunar er vegna styrkingar krónunnar samkvæmt útreikningum Seðlabankans. En sé leiðrétt fyrir gengisstyrkingunni má áætla að Seðlabankinn noti 2–4 milljarða á mánuði í að kaupa krónur. Haldi þetta út heilt ár lætur nærri að kostnaðurinn við þessar æfingar nemi á bilinu 100–150 þúsund krónur á hvern Íslending. Þá má geta þess til samanburðar að tekjuskattshækkanatillögur VG myndu skila 4–7 milljörðum á ári í ríkiskassann og myndu því duga í tvo til þrjá mánuði til þess að halda gervigenginu uppi.
    Upptaka Bandaríkjadals á Íslandi gæti lagt grundvöll að endurreisn landsins án þess dragbíts sem haftakrónan er. Dalurinn myndi leysa gjaldeyrisvandamálið strax, en ekki eftir nokkur ár eins og innganga í myntbandalag Evrópu myndi gera. Ennfremur er ljóst að afnám haftakrónunnar og upptaka Bandaríkjadals gera Íslandi auðveldara að uppfylla Maastricht- skilyrðin og ætti þessi leið því að vera fagnaðarefni fyrir þá sem hafa áhuga á því að Ísland gangi í Evrópusambandið.



Fylgiskjal IV.


Ragnar Þórisson:

Upptöku norsku krónunnar strax.


(Morgunblaðið 6. september 2009.)



    Það er líklegt að Íslendingar kjósi um ESB á fyrsta ársfjórðungi 2010 ef samningar nást. Ákveði þjóðin að ganga í sambandið þá tæki það okkur u.þ.b. 4–6 ár að fá aðgang að evrunni, því að við uppfyllum aldrei Maastrict-skilyrðin fyrr en í fyrsta lagi þá.
    Spurningin er þá einföld, ætlum við að halda í blessaða krónuna þangað til og í gegnum þá endurreisn sem þarf að eiga sér stað á næstu mánuðum og árum? Í staðinn fyrir að láta heimilum og fyrirtækjum blæða út í fangelsi krónunnar er hægt að taka upp norsku krónuna hvort sem er með eða án stuðnings norskra yfirvalda og Seðlabanka Noregs. Í raun yrði þá Seðlabanki Íslands óþarfur og tæki þá norski Seðlabankinn yfir stjórn peningamála. Með því að skipta gjaldmiðlinum út fyrir norska krónu færumst við á einu bretti sem næst Maastricht-skilyrðunum varðandi verðbólgu og vexti.
    Í framhaldinu myndum geta valið hvort við tökum upp evru þegar við uppfyllum önnur skilyrði um jafnvægi í ríkisfjármálum og skuldsetningu. Þessi leið er því óháð því hvort við förum inn í ESB eða ekki. Það sem myndi gerast við einhliða upptöku, hvort sem er með því að festa gengi krónunnar við þá norsku (eins og Hong Kong gerir með bandaríkjadal), eða beina upptöku í samvinnu við norska Seðlabankann, er það að þá myndast strax vaxtagólf í 1,25% sem eru núverandi stýrivextir í Noregi. Gjaldeyrishöft myndu hverfa á stundinni og eignaverð myndi hækka strax þar sem það yrði mun auðveldara fyrir norska fjárfesta að fjárfesta á Íslandi en þess má geta að fasteignaverð hækkaði um 2,9% í ágúst síðastliðnum í Noregi og hefur hækkað um 15% frá áramótum og stendur nú í sögulegu hámarki. Einnig er mjög líklegt að norsk framleiðslu-, hugbúnaðar- og iðnaðarfyrirtæki myndu setja upp starfsemi á Íslandi enda mun lægri laun á Íslandi en í Noregi eins og staðan er í dag.
    Norskir bankar gætu opnað á Íslandi og boðið óverðtryggð íbúðalán til einstaklinga sem í dag eru milli 2,5 og 3% í Noregi sem og veitt fyrirtækjunum okkar aðgang að fjármagni.
    Það er alveg ljóst að það er engin mynt sem hentar okkur 100%, en þess má geta að Norðmenn eru sterkir í orkuvinnslu (olíu), sjávarútvegi og álframleiðslu, ekki ósvipað því sem gerist hjá okkur nema það að okkar orka er „græn“.
    Goldman Sachs fjárfestingarbankinn sagði í skýrslu um daginn að þeir teldu norsku krónuna vera sterkasta gjaldmiðil í heiminum í dag, enda er olíusjóðurinn á bakvið hana með 360 milljarða dollara. Og það er einmitt stöðugleiki sem Íslendingar þurfa meira en nokkuð annað nú. Sterk tengsl norska hagkerfisins við hrávöru hentar okkur einnig vel og mundi jafna sveiflur í efnahagslífi Íslendinga og tryggir að lífskjör hér halda vel í við verðbólgu til lengri tíma. Útgerðin mundi t.d. ekki finna eins mikið fyrir hækkun á olíu, þar sem gjaldmiðill okkar mundi hækka í verði með hækkun olíuverðs.
    Þetta mál er ekki fyrir Seðlabanka Íslands að taka ákvörðun um enda myndi þessi ákvörðun gera hann óþarfan. Íslenskt menntafólk er að flytja til Noregs en þessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda myndi hugsanlega stöðva þá skelfilegu þróun. Það vita það allir hagfræðingar að það hefur verið mjög gott að hafa eigin gjaldmiðil á þessu 12 mánaða tímabili eftir fjármálahrunið og á leiðinni á botninn en nú þegar hann er fundinn og endurreisnin fer á stað þá þurfum við einfaldlega nýjan gjaldmiðil strax. Ég vona að hr. Steingrímur J. Sigfússon fjármála- og forsætisráðherra Íslands sjái kostina í þessu.


Fylgiskjal V.


Bergþór Konráðsson:

Gæti danska krónan verið svarið?


(Morgunblaðið 21. ágúst 2008.)



    Íslensku krónunni er ekki viðbjargandi. Sama hvað seðlabankastjórar tauta og ráðamenn malda í móinn. Krónan nýtur ekki lengur trausts erlendis, hún nýtur ekki trausts atvinnulífsins, hún nýtur ekki trausts almennings. Hún er búin sem sjálfstæður gjaldmiðill. Næstum öll þjóðin vill evru – en ekki endilega Evrópusambandið – og til þess að forðast meiriháttar átök í íslenskri pólitík og atvinnulífi þarf að leysa þetta mál. Samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir því að skoða upptöku evru, enda fara gengissveiflur og háir vextir illa saman við uppbyggingu iðnaðar.
    Fyrir nokkrum árum var lögð fram á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins tillaga um að kanna möguleika á að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Þessi tillaga fékk vægast sagt slæmar móttökur hjá forystu flokksins. Rökin voru m.a. þau að gengi evrunnar og vextir hreyfðust ekki í takt við íslenskt atvinnulíf. Nú hefur staðan verið sú í mörg ár að með frjálsu fjármagnsflæði hreyfist krónan alls ekki í takt við ganginn í íslensku efnahagslífi, heldur eftir því hvernig spákaupmönnum líst á stöðuna hverju sinni. Guðmundur Magnússon, fyrrverandi háskólarektor, og Stefán Már Stefánsson lagaprófessor hafa reyndar sett fram sannfærandi rök fyrir því að sú leið að taka upp evru í krafti EES-samningsins sé fær, en stjórnvöld eru greinilega ekki tilbúin að láta á þetta reyna. Fram hafa komið tillögur um að við værum betur sett með að taka upp bandaríkjadal, norska krónu eða svissneskan franka. Þessum hugmyndum fylgja kostir og gallar. Viðskipti okkar við Bandaríkin eru sáralítil, norska krónan byggir styrkleika sinn á olíuauði en við skulum ekki gleyma því að langmestur hluti utanríkisviðskipta okkar er í evrum.
    Einn möguleiki hefur ekki verið nefndur og það er upptaka dönsku krónunnar. Vafalaust fá einhverjir hroll við þá tilhugsun. En fréttir af íslensku atvinnulífi eru líka hrollvekja. Og tilfellið er að danska krónan hefði marga kosti umfram aðra gjaldmiðla. Danska krónan er í raun evra, þar sem gengi dönsku krónunnar hefur verið tengt evrunni með þröngum vikmörkum í u.þ.b. áratug. Þar sem það er augljóslega ekki auðsótt að fá samþykki Evrópusambandsins til að taka upp evruna – mætti leita samninga við Dani um að taka upp danska krónu, sem er í raun evra nema að nafninu til. Það er ekki víst að það sé auðvelt að semja við frændur okkar, en kannski auðveldara en að semja við Evrópusambandið. Það er allavega ljóst að það má láta reyna á viðræður við Dani. Því ekki láta reyna á dönsku krónuna – hver veit nema við fáum „allt fyrir ekkert“?