Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 263  —  10. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2009.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hlutinn hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni og gerir 25 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 7,822 milljörðum kr. til lækkunar.
    Meiri hlutinn gerir tillögur um hækkun tekna að fjárhæð 1,609 milljarðar kr. á rekstrargrunni.
    Nefndin mun á milli 2. og 3. umræðu kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka, svo sem frekari upplýsingum um vaxtagjöld ríkissjóðs.
    Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 110 m.kr.
205     Framkvæmdir á Alþingisreit.
        6.55
Framkvæmdir á Alþingisreit. Í frumvarpinu er, í ljósi stöðu í ríkisfjármálum 2009, gert ráð fyrir að lækka fjárheimild til framkvæmda á Alþingisreit um 200 m.kr. Til að unnt sé að ljúka uppgjöri á áföllnum skuldbindingum vegna fornleifagraftar og hönnunar á þessu ári er lagt til að fjárveitingin lækki um 150 m.kr. í stað 200 m.kr.
              Stórmerkar minjar frá upphafi landnáms í Reykjavík hafa fundist á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði á Alþingisreit. Þetta eru viðameiri minjar en fyrirséð var og hefur því úrvinnsla muna orðið mikil. Kostnaður við verkið hefur jafnframt orðið mun meiri en fyrirséð og áætlað var samkvæmt upphaflegum verksamningi. Mikil verðmæti eru í húfi og mikilvægt að sem best takist til við að verja fornminjarnar. Sem stendur varðar mestu vernd minja á horni Kirkjustrætis og Tjarnargötu, á þeim stað þar sem ætlunin er að flytja svokallað Skúlahús (nú Vonarstræti 12). Kjallari undir húsinu mun gegna mikilvægu hlutverki við vernd minjanna því ella þyrfti að fara í dýrar verndunaraðgerðir sem mundu kosta álíka mikið og gerð kjallarans. Jafnframt mun gerð kjallarans nú auðvelda að unnt verði að taka Skúlahús til notkunar á ný og áður en leigusamningar um húsnæði í Aðalstræti renna út.
207     Rannsókn á falli íslensku bankanna á árinu 2008.
        1.01
Rannsóknarnefnd. Gerð er tillaga um 60 m.kr. framlag til rannsóknarnefndar Alþingis en starf nefndarinnar er umfangsmeira og hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Sama á við um starf þess siðfræðihóps sem starfar samhliða nefndinni. Af þessum sökum hefur þurft að framlengja þann frest sem rannsóknarnefndin hafði til að afhenda Alþingi skýrslu sína og því má gera ráð fyrir frekari útgjöldum en áætlað var vegna launa nefndarmanna, starfsmanna og kostnaðar verktaka. Þá hefur kostnaður við erlenda ráðgjöf orðið heldur meiri en reiknað var með.
620     Ríkisendurskoðun.
        1.01
Ríkisendurskoðun. Gert er ráð fyrir að rekstrarumfang Ríkisendurskoðunar, bæði útgjöld og sértekjur, aukist tímabundið um 300 m.kr. vegna endurskoðunar á ársreikningum nýju bankanna. Stofnunin samdi á sínum tíma við þrjú endurskoðunarfyrirtæki um endurskoðun á stofnefnahagsreikningum og ársreikningum nýju bankanna þriggja fyrir árið 2008. Stofnunin endurkrefur bankana um kostnað við endurskoðunina. Þessi auknu umsvif kalla því ekki á bein framlög úr ríkissjóði en koma fram í reikningshaldi stofnunarinnar sem hækkun á útgjöldum við aðkeypta þjónustu á móti jafnmikilli hækkun sértekna.

01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði lækkuð um 4,5 m.kr.
101     Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að fjárveiting aðalskrifstofu forsætisráðuneytis lækki um 4,5 m.kr. á árinu 2009. Í tengslum við breytta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins 1. október sl. fluttust verkefni sem tengjast efnahagsstjórn frá forsætisráðuneyti til nýs efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Um er að ræða eitt starf skrifstofustjóra og eitt starf sérfræðings. Gert er ráð fyrir sambærilegri hækkun fjárveitingar hjá aðalskrifstofu efnahags- og viðskiptaráðuneytis.

02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild mennta- og menningarmálaráðuneytis verði aukin um 180 m.kr.
201     Háskóli Íslands.
        1.01
Háskóli Íslands. Gerð er tillaga um 1,8 m.kr. framlag til skólans og er fjárhæðin millifærð af liðnum 02-999-6.90 þar sem fyrir er óráðstafað framlag. Af framlaginu eru 1,2 m.kr. ætlaðar Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála til fjarkennslu í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu og 0,6 m.kr. eru ætlaðar félagsvísindasviði til verkefnisins Íslenska kosningarannsóknin 2009.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.90
Framhaldsskólar, óskipt. Gerð er tillaga um 150 m.kr. framlag vegna aukinnar námsvirkni og fjölda nemenda í framhaldsskólum umfram forsendur fjárlaga 2009. Í fjárlögum 2009 var gert ráð fyrir 20.115 ársnemendum í framhaldsskólum landsins. Þær nemendatölur sem nú liggja fyrir sýna hins vegar fram á að þróun nemendafjölda í framhaldsskólum á árinu er með nokkuð öðrum hætti en varð að fullu fyrirséð við gerð fjárlaga. Þannig eru á milli 450–500 fleiri reiknaðir ársnemendur sem stunda nám í framhaldsskólum landsins en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Þetta skýrist þó aðeins að hluta með fjölgun nýskráninga í nám. Að stærstum hluta skýrist þessi þróun af því að breyttar aðstæður í samfélaginu og samdráttur á vinnumarkaði leiðir til þess að mun minna er um að nemendur hverfi frá námi á öðru, þriðja og fjórða ári. Minni möguleikar á vinnu með skóla leiða til þess að nemendur eru síður í hlutanámi. Námsúrræði í dagskóla eru einnig betur nýtt af nemendum vegna væntanlegs samdráttar í kvöldskóla og fjarnámi. Í skólum á landsbyggðinni fjölgar nemendum því þeir flytja sig í heimabyggð þar sem dýrara er orðið að stunda nám fjarri heimili. Birtingarmynd þessarar auknu virkni nemenda er fjölgun ársnemenda, mæld á grundvelli prófaðra eininga, en felur ekki í sér samsvarandi fjölgun einstaklinga. Að óbreyttu má af þessum ástæðum búast við að fjölgun reiknaðra ársnemenda verði næstu tvö til þrjú árin einhver umfram það sem breytingar á árgangastærð nýnema gefa tilefni til þess að ætla.
                  Fjárhæð framlagsins miðast ekki við einingaverð sem notuð eru í reiknilíkani framhaldsskóla fyrir fjölgun einstaklinga sem sækja nám enda eru kostnaðaráhrif af aukinni virkni nemenda sem fyrir eru í námi ekki jafnmikil. Töluverð óvissa er um viðbótarkostnaðinn en hér er miðað við að skólarnir fái viðunandi stuðning til að mæta honum.
368     Menntaskóli Borgarfjarðar.
        1.01
Menntaskóli Borgarfjarðar. Gerð er tillaga um 20 m.kr. framlag vegna húsnæðiskostnaðar Menntaskóla Borgarfjarðar. Framlagið er samkvæmt samkomulagi sem gert var við skólann um þátt ráðuneytisins í kostnaði við húsnæði skólans. Samkomulagið byggist á sömu forsendum og húsnæðisframlag til annarra framhaldsskóla sem eru í einkareknu húsnæði. Við gerð fjárlaga fyrir árið 2009 var starfsemi Menntaskólans í Borgarfirði tiltölulega nýhafin og við frágang fjárlaga láðist að gera ráð fyrir nemendafjölgun í samræmi við vaxtarferil skólans og húsnæðisþætti. Í frumvarpinu er þegar búið að gera ráð fyrir breytingum á framlagi vegna nemendafjölgunar í samræmi við vaxtarferil skólans en í ljós hefur komið að eftir er að leggja til framlag vegna húsnæðis.
901     Fornleifavernd ríkisins.
        1.01
Fornleifavernd ríkisins. Gerð er tillaga um 1,3 m.kr. framlag til fornleifarannsókna í Keldudal í Hegranesi. Framlagið er millifært af liðnum 02-999-6.90 þar sem fyrir er óráðstafað framlag.
919     Söfn, ýmis framlög.
        1.90
Söfn, ýmis framlög. Gerð er tillaga um 8 m.kr. framlag til Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði. Framlagið er millifært af liðnum 02-999-6.90 þar sem fyrir er óráðstafað framlag.
        1.98
Söfn, ýmis framlög menntamálaráðuneytis. Gerð er tillaga um 10 m.kr. framlag til Safnahúss í Búðardal samkvæmt samningi þar að lútandi frá því í janúar 2006. Samningurinn kveður á um 10 m.kr. framlag á ári árin 2006–2010, samtals 50 m.kr. Vegna mistaka var framlagið fellt út við fjárlagagerð 2009 og er hér gerð tillaga um leiðréttingu á því.
        6.90
Söfn, ýmis stofnkostnaður. Bátasafn Breiðafjarðar fékk 2 m.kr. styrk á fjárlögum 2009 til byggingar sýningarskála. Lagt er til að safninu verði veitt heimild til að nýta þann styrk til vinnu- og efniskaupa vegna viðgerða á bátum og öðrum safngripum í stað byggingar sýningarskála.
979     Húsafriðunarnefnd.
        6.10
Húsafriðunarsjóður. Lagt er til að 1,5 m.kr. styrkur sem veittur var í fjárlögum 2009 til endurbóta á gamla rafstöðvarhúsinu á Bíldudal verði færður á Smiðjuna á Bíldudal.
983     Ýmis fræðistörf.
        1.52
Skriðuklaustur. Gerð er tillaga um 3,5 m.kr. framlag til Skriðuklaustursrannsókna. Framlagið er millifært af liðnum 02-999-6.90 þar sem fyrir er óráðstafað framlag.
999     Ýmislegt.
        6.90
Ýmis stofnkostnaðarframlög. Í fjárlögum fyrir árið 2009 er 16,6 m.kr. óráðstöfuð fjárheimild á þessu viðfangsefni. Gerð er tillaga um að ráðstafa henni í sex verkefni. Þannig eru alls 14,6 m.kr. millifærðar af liðnum, þ.e. 8 m.kr. á 02-919-1.90, 3,5 m.kr. á 02-983-1.52, 1,8 m.kr. til tveggja verkefna á lið 02-201-1.01 og 1,3 m.kr. á 02-901- 1.01 eins og þar greinir. Loks er lagt til að veita Sjóræningjum ehf. 2 m.kr. framlag á þessum lið til stofnkostnaðar.

06 Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dómsmála- og mannréttindaráðuneytis verði aukin um 92,6 m.kr.
101     Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að fjárveiting dómsmála- og mannréttindaráðuneytis hækki um 2,6 m.kr. á árinu 2009. Í tengslum við breytta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins 1. október sl. fluttust verkefni sem tengjast neytendamálum frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Um er að ræða eitt starf skrifstofustjóra. Gert er ráð fyrir sambærilegri lækkun fjárveitingar hjá aðalskrifstofu efnahags- og viðskiptaráðuneytis.
190     Ýmis verkefni.
        1.27
Slysavarnafélagið Landsbjörg. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Framlagið er lokauppgjör á tilteknum ákvæðum samnings félagsins og ráðuneytisins vegna fjölgunar björgunarskipa um land allt.
705     Kirkjumálasjóður.
        1.10
Kirkjumálasjóður. Lagt er til að fjárheimildir Kirkjumálasjóðs verði auknar um 9 m.kr. á árinu 2009. Til skýringa vísast til umfjöllunar um fjárlagalið 06-735 Sóknargjöld.
735
     Sóknargjöld.
        1.10
Sóknargjöld til þjóðkirkjunnar. Lagt er til að fjárheimildir sóknargjalda verði auknar um 53 m.kr. á árinu 2009. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun vissra útgjaldaliða vegna aðhaldsráðstafana var við það miðað að framlög vegna sóknargjalda yrðu lækkuð um 150 m.kr. á árinu 2009 frá fjárlögum ársins og er gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Auk þess lækkuðu framlög um 12,7 m.kr. vegna fækkunar í þjóðkirkjunni. Í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem samþykkt voru á sumarþinginu var hins vegar gert ráð fyrir því að lækkun sóknargjalda tæki ekki gildi fyrr en 1. júlí. Þannig mun ekki nema helmingur af áformuðum sparnaði eða 75 m.kr. skila sér á þessu ári og er því gerð tillaga um hækkaða fjárheimild sem nemur mismuninum. Hlutur fjárlagaliðarins sóknargjöld í þessari hækkun eru 53 m.kr.
736     Jöfnunarsjóður sókna.
        1.10
Jöfnunarsjóður sókna. Lagt er til að fjárheimildir jöfnunarsjóðs sókna verði auknar um 13 m.kr. á árinu 2009. Til skýringa vísast til umfjöllunar um fjárlagalið 06-735 Sóknargjöld.

08 Heilbrigðisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðisráðuneytis verði aukin um 130,6 m.kr.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.43
Viðbúnaður gegn farsóttum. Lögð er til 130,6 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna viðbúnaðar gegn heimsfaraldri svínainflúensu til viðbótar við 358,9 m.kr. sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og 47,4 m.kr. í fjárlögum þannig að heildarframlag ársins verði 536,9 m.kr. Hækkunin frá frumvarpinu skýrist í fyrsta lagi af kaupum á tveimur lungnavélum fyrir gjörgæsludeild Landspítalans, 22 m.kr., í öðru lagi af kaupum á lækningatækjum á Landspítala, 38,8 m.kr., og í þriðja lagi af því að í fyrri áætlun láðist að gera ráð fyrir virðisaukaskatti sem leggst á innflutt bóluefni, 69,8 m.kr.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 208,9 m.kr.
101     Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að veitt verði fjárveiting að upphæð 91 m.kr. til þess að fjármagna kaup á sérfræðiþjónustu í tengslum við efnahagsástandið. Þetta er viðbótarkostnaður sem ekki var fyrirséður við áætlanagerð fyrir frumvarpið, en þar var sett fram beiðni að fjárhæð 61,6 m.kr. Aukinn kostnaður fellur til á eftirfarandi sviðum: Í fyrsta lagi 4 m.kr. vegna samningaviðræðna við þau ríki sem gáfu vilyrði um lánalínur til Íslands. Í öðru lagi 30 m.kr. vegna samningaviðræðna, sérfræðiaðstoðar og kynningarmála vegna Icesave-skuldbindinga. Í þriðja lagi 9 m.kr. vegna samninga milli nýju og gömlu bankanna um yfirfærslu eigna og uppgjörs þeirra á milli. Í fjórða lagi 48 m.kr. vegna ráðgjafar á sviði bankamála og eignaumsýslu. Samtals er því gert ráð fyrir auknum kostnaði á þessu ári að fjárhæð 152,6 m.kr.
                  Þá er lagt er til að fjárveiting ráðuneytisins lækki um 15,5 m.kr. á árinu 2009 vegna flutnings verkefna sem tengjast efnahagsmálum og meðferð bókhalds og ársreikninga frá fjármálaráðuneyti til efnahags- og viðskiptaráðuneytis í tengslum við breytta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins 1. október sl. Samtals eru þetta 8,5 stöðugildi. Annars vegar millifærast 7,8 m.kr. til efnahags- og viðskiptaráðuneytis, aðalskrifstofu, og hins vegar 7,7 m.kr. til Hagstofu Íslands.
                  Heildarbreyting á liðnum nemur þannig 75,5 m.kr. til hækkunar.
999     Ýmislegt.
        1.67
Þjóðlendumál. Lagt er til að veittar verði 13,4 m.kr. til þess að fjármagna málarekstur ríkisins vegna þjóðlendna. Um er að ræða mál sem tekin voru fyrir hjá óbyggðanefnd og dómstólum áður en tillaga fjármálaráðherra um frestun kröfulýsinga var samþykkt í ríkisstjórn. Kostnaður vegna umræddra mála reyndist meiri en ráð var gert fyrir en greiða þarf um 8 m.kr. vegna lögfræðikostnaðar við flutning mála í dómstólum sem áætlað var að starfsmaður fjármálaráðuneytisins tæki að sér. Einnig reyndist kostnaðarhlutdeild ráðuneytisins í starfi óbyggðanefndar vera meiri en gert var ráð fyrir, aðallega vegna upplýsingaöflunar Þjóðskjalasafns.
        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga 120 m.kr. fjárveitingu vegna fyrirgreiðslu til Kaupþings banka hf. vegna málshöfðunar bankans fyrir breskum dómsstólum. Hinn 20. desember 2008 voru samþykkt lög nr. 172/2008, um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008. Í lögunum er fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, heimilað að veita fjárhagslega fyrirgreiðslu til að standa undir kostnaði af undirbúningi og rekstri dómsmála. Hinn 16. apríl 2009 skrifaði fjármálaráðherra undir samning við Kaupþing banka hf. er varðar fjárhagslegan stuðning íslenska ríkisins í tengslum við þessa málshöfðun bankans. Ekki liggur fyrir endanlegur kostnaður ríkisins vegna þessa máls en samkvæmt áætlun sem gerð var á sínum tíma þegar samningurinn var gerður var miðað við að hann gæti orðið um 120 m.kr.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði óbreytt.
373     Niðurgreiðslur á húshitun.
        1.11
Niðurgreiðslur á hitun íbúðarhúsnæðis. Lagt er til að millifærð verði 23 m.kr. fjárheimild af liðnum á lið 11-399 vegna aðgerða sem tengjast vanda Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs.
399     Ýmis orkumál.
        1.98
Ýmis verkefni iðnaðarráðuneytis. Lagt er til að veitt verði 23 m.kr. framlag til Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs. Hitaveita Öxarfjarðarhéraðs hefur átt í miklum fjárhagslegum vanda vegna skyndilegrar og ófyrirséðrar vatnshitahækkunar á virkjunarsvæðinu árið 2003 sem leiddi til skemmda á lögnum veitunnar. Hitaveita Öxarfjarðarhéraðs er eina einkaleyfisveita landsins sem ekki er í meirihlutaeigu opinberra aðila, en skv. 31. gr. orkulaga, nr. 58/1967, skal hitaveita sem starfar á grundvelli einkaleyfis ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila. Forsendur fyrir aðkomu ríkisins verði að hlutafé veitunnar verði afskrifað og rekstur hennar í kjölfarið yfirtekinn af Orkuveitu Húsavíkur, sem alfarið er í eigu Norðurþings, og þar með verði veitan komin í meirihlutaeign opinberra aðila eins og lög kveða á um. Lagt er til að fjárheimild verði millifærð af liðnum 11-373 Niðurgreiðslur á húshitun og mun tillagan því ekki leiða til útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóð.

12 Efnahags- og viðskiptaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild efnahags - og viðskiptaráðuneytis verði lækkuð um 1,6 m.kr.
101     Efnahags- og viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Efnahags- og viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa. Lögð er til 9,7 m.kr. hækkun á framlagi til liðarins vegna flutnings verkefna milli ráðuneyta í samræmi við lög um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands sem tóku gildi 1. október 2009.
                  Í fyrsta lagi er 7,8 m.kr. hækkun á framlagi til liðarins vegna flutnings verkefna frá fjármálaráðuneytinu, annars vegar flutnings á verkefnum um efnahagsmál og hins vegar á málum er snúa að endurskoðendum og meðferð bókhalds og ársreikninga. Gert er ráð fyrir að 4,5 stöðugildi flytjist á milli ráðuneytanna.
                  Í öðru lagi er 4,5 m.kr. hækkun á framlagi til liðarins vegna flutnings efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins til ráðuneytisins. Um er að ræða tvö stöðugildi, annars vegar skrifstofustjóra og hins vegar sérfræðings.
                  Í þriðja lagi flytjast verkefni á sviði neytendamála frá ráðuneytinu yfir til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og er því lögð til 2,6 m.kr. lækkun á framlagi til liðarins. Gert er ráð fyrir að eitt stöðugildi skrifstofustjóra flytjist á milli ráðuneytanna við þessa breytingu.
                  Sambærilegar breytingar verða á fjárlagaramma aðalskrifstofu fjármálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.
190     Ýmis verkefni.
        1.23
Eftirlitsnefnd félags fasteignasala. Lögð er til 19 m.kr. lækkun á framlagi til liðarins. Í lögum nr. 18/2009 er gert ráð fyrir að ekki verði innheimt eftirlitsgjöld á árinu 2009 til að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala eins og gert er ráð fyrir í 19. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004. Ástæðan er sú að nokkur sjóður hefur safnast upp þar sem gjaldið hefur skilað meiri tekjum en þörf var fyrir. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eftirlitsgjaldinu muni lækka um 19 m.kr. á árinu 2009 og að fjárveiting lækki sem því nemi.
501     Hagstofa Íslands.
        1.01
Hagstofa Íslands. Lögð er til 7,7 m.kr. hækkun á framlagi til liðarins vegna flutnings verkefna frá fjármálaráðuneytinu til nýs efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Verkefni sem áður voru undir efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins flytjast meðal annars yfir til Hagstofu Íslands en um er að ræða fjögur stöðugildi. Sambærileg lækkun verður á fjárlagaramma aðalskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Tillagan er í samræmi við lög um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands sem tóku gildi 1. október 2009.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

        Lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði lækkuð um 8.538 m.kr.
801     Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        1.10
Vaxtagjöld ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að fjárheimild gjaldfærðra vaxtagjalda lækki um rúma 8,5 milljarða kr. og að greiddir vextir lækki um 8,4 milljarða kr. frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga. Forsendur hafa breyst að því leyti að nú er gert ráð fyrir því að fjármögnun ríkisins á viðskiptabönkunum verði mun minni en áður var reiknað með þar sem Íslandsbanki verður að mjög litlu leyti í eigu ríkissjóðs eftir endurskipulagningu í kjölfar þess að kröfuhafar yfirtaka bankann að mestu. Í upphaflegum tillögum var gert ráð fyrir að vextir yrðu greiddir af 300 milljarða kr. skuldabréfaútgáfu til endurfjármögnunar á bönkunum en nú er miðað við að útgáfan verði um 250 milljarðar kr. Er þá reiknað með að kröfuhafar eignist 95% hlutafjár í Íslandsbanka jafnframt því að ríkissjóður veiti bankanum 25 milljarða kr. víkjandi lán til að styrkja eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans. Vextirnir reiknast frá október 2008 þegar nýju bankarnir voru settir á fót. Verði einnig af því að kröfuhafar ákveði að eignast stóran meiri hluta í Nýja Kaupþingi minnkar þörf fyrir eiginfjárframlög enn frekar og má gera ráð fyrir að það gæti lækkað vaxtagjöld ársins 2009 um 6,7 milljarða kr. til viðbótar. Verði komin niðurstaða hvað það varðar áður en frumvarpið verður endanlega afgreitt á Alþingi kann því að verða tilefni til að lækka fjárheimild vegna vaxtagjalda sem því nemur.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar
hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 18. nóv. 2009.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ásmundur Einar Daðason.


Björn Valur Gíslason.



Anna Pála Sverrisdóttir.

Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Þuríður Backman.