Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 166. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 355  —  166. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson og Kristin Hugason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Eirík Blöndal og Gunnar Gunnarsson frá Bændasamtökum Íslands, Halldór Runólfsson yfirdýralækni, Björn Steinbjörnsson, sérgreinadýralækni svína hjá Matvælastofnun, og Hörð Harðarson frá Svínaræktarfélagi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Svínaræktarfélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Matvælastofnun og Neytendasamtökunum.
    Forsaga málsins er sú að þegar lögum um innflutning dýra var breytt með lögum nr. 141/2007 kannaði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sérstaklega tilhögun á innflutningi svína og erfðaefnis þeirra við þinglega meðferð málsins. Í nefndaráliti um málið (á þskj. 480, í 204. máli 135. löggjafarþings) var lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði „stafshóp sérfræðinga til að gera tillögur um leiðir til að efla og auka hagkvæmni í svínarækt“. Ráðherra skipaði þriggja manna nefnd til starfans og sátu þeir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og sérfræðingur í veirufræði á Keldum, og Þorsteinn Ólafsson, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, í nefndinni. Frumvarp þetta er byggt á vinnu nefndarinnar og er samstaða um þessar breytingar.
    Með frumvarpinu gert ráð fyrir að fullnaðarákvörðun um innflutning á djúpfrystu svínasæði verði flutt til yfirdýralæknis, en að ákvörðun hans megi skjóta til ráðherra. Auk þess mun Matvælastofnun (yfirdýralæknir) hafa heimild skv. 3. mgr. 13. gr. laganna til að leyfa innflutning á djúpfrystu svínasæði beint inn á bú hér á landi að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Nefndin telur að með frumvarpinu sé verið að efla, styrkja og auka svínarækt í landinu. Það er mat nefndarinnar að þessar ráðstafanir séu til þess fallnar að auka möguleika á því að búgreinin verði arðbær og samkeppnisfær við aðrar greinar. Nefndin áréttar þó mikilvægi þess að matvælaöryggi og sjúkdómavarnir séu ávallt nægilega tryggð.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Björn Valur Gíslason og Helgi Hjörvar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 2009.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Sigurður Ingi Jóhannsson.


Jón Gunnarsson.


Róbert Marshall.


Ögmundur Jónasson.