Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 375  —  200. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2009–2013.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Huga Ólafsson og Steinunni Fjólu Sigurðardóttur frá umhverfisráðuneyti, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Sigrúnu Ágústsdóttur frá Umhverfisstofnun. Umsagnir um málið bárust frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Skorradalshreppi, Landmælingum Íslands, Landgræðslu ríkisins, Veiðimálastofnun, Reykjanesbæ, Betri byggð í Mýrdal, Samorku, Reykjavíkurborg, samráðshópi íbúa og hagsmunaaðila í Mýrdal, Umhverfisstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skógrækt ríkisins, Landsvirkjun, Samtökum ferðaþjónustunnar, Lundavinafélaginu í Vík í Mýrdal, Skaftárhreppi, Gunnari Jónssyni, Náttúruverndarsamtökum Suðurlands, Sveitarfélaginu Garði, Mýrdalshreppi, Skipulagsstofnun, Háskólanum á Akureyri, Fljótsdalshéraði, Eyþingi, Landbúnaðarháskóla Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Skútustaðahreppi og Sveitarfélaginu Vogum. Að auki kynnti nefndin sér efni umsagna sem bárust um áætlunina á síðustu tveimur þingum (192. mál 136. löggjafarþings og 52. mál 137. löggjafarþings).
    Í tillögunni er lagt til að unnið verði að friðlýsingu tólf svæða á árunum 2009–2013. Tillagan er unnin á grundvelli 65. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, þar sem kveðið er á um að umhverfisráðherra skuli láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi. Þetta er önnur áætlunin sem hefur verið gerð en sú fyrri rann út í lok síðasta árs. Tilgangur heildstæðrar náttúruverndaráætlunar er að koma upp neti friðlýstra svæða og skal áætlunin taka til helstu tegunda vistgerða og vistkerfa, svo og jarðmyndana, hér á landi, m.a. með tilliti til menningarlegrar og sögulegrar arfleifðar, nauðsynjar á endurheimt vistgerða, nýtingar mannsins á náttúrunni og ósnortinna víðerna, sbr. 66. gr. laganna. Nokkur nýmæli má finna í tillögunni, m.a. er stefnt að því að friðlýsa tvær vistgerðir annars vegar og þrjár tegundir hryggleysingja og búsvæði þeirra hins vegar. Aðaláhersla er þó lögð á sjaldgæfar plöntutegundir og tegundir í hættu og uppbyggingu heildstæðs nets verndarsvæða með áherslu á svæði sem skipta máli fyrir verndun plantna og búsvæði þeirra. Með það fyrir augum er lagt til að friðlýstar verði 24 tegundir háplantna, 45 tegundir mosa og 90 tegundir fléttna. Auk þeirra tólf svæða, sem og plantna og dýra, sem stefnt er að vinna að friðlýsingu á, kveður tillagan á um að áfram verði unnið að friðlýsingu svæða sem eru á fyrri náttúruverndaráætlun.
    Tillagan hefur verið lögð fram tvisvar áður og er nú lítið breytt frá síðustu þingum, m.a. hefur eitt svæði verði fellt úr áætluninni enda er friðlýsingu fjalllendis við Hoffell og sameiningu svæðisins við Vatnajökulsþjóðgarð lokið.
    Nefndin hefur kynnt sér tillögur að friðlýsingu þeirra svæða sem eru í áætluninni. Í athugasemdum við tillöguna er gerð ítarleg grein fyrir ástæðum og markmiðum fyrirhugaðrar friðlýsingar ásamt mörkum svæða og lýsingum á þeim. Áætlunin er unnin á grundvelli aðferðafræði sem almennt er notast við á alþjóðavettvangi, til að mynda annars staðar í Evrópu. Aðferðafræðin hefur verið þróuð í samræmi við alþjóðasamninga og hvað viðkemur viðmiðum og viðföngum er m.a. stuðst við Ríó-samninginn um vernd líffræðilegrar fjölbreytni, Bernar-samninginn um vernd villtrar náttúru í Evrópu og Ramsar-samninginn um vernd votlendis. Við ákvörðun þeirra svæða sem lagt er til að verði á náttúruverndaráætlun er byggt á vísindalegri úttekt á náttúru Íslands, rannsóknum, vöktun og mati á mikilvægi og náttúruverndargildi einstakra svæða. Stuðst er við vísindalega gagnagrunna Náttúrufræðistofnunar Íslands um tegundir, vistgerðir og jarðfræði landsins og er faglegt mat lagt á það hvaða þættir í náttúru landsins eru verndarþurfi. Raunhæfar tillögur um friðlýsingu eru þannig mótaðar út frá vísindalegum gögnum.
    Meiri hlutinn hefur orðið var við nokkra gagnrýni á skort á samráði við landeigendur, sveitarfélög og hlutaðeigandi aðila við gerð áætlunarinnar og áréttar því að fullt samráð sé haft við þessa aðila þegar unnið er að friðlýsingu einstakra svæða í áætluninni. Samþykkt tillögunnar jafngildir ekki fyrirframákvörðun um friðlýsingu svæða heldur er þetta fremur viljayfirlýsing Alþingis um að unnið verði að friðlýsingunni. Ákvörðun um friðlýsingarskilmála, markalínur svæða og reglur um landnotkun, framkvæmdir og aðrar athafnir á svæðum eru teknar á grundvelli samvinnu og samráðs við landeigendur og hlutaðeigandi sveitarfélög.
    Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að hefja samráðsferli vegna náttúruverndaráætlana fyrr en gert hefur verið og telur rétt að samráð og kynning fari fram áður en áætlun kemur til kasta Alþingis. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að við vinnu næstu náttúruverndaráætlunar verði samráðsferlið hafið strax í upphafi og í framtíðinni verði hlutaðeigandi aðilar hafðir með í ráðum við gerð náttúruverndaráætlunar. Mikilvægt er þó að mati meiri hlutans að áfram verði unnið á grundvelli þeirrar vísindalegu og faglegu aðferðafræði sem notuð hefur verið til þessa. Með því að hefja samráð fyrr en ella er líklegra að áætlunin endurspegli raunhæfa möguleika á friðlýsingu.
    Í athugasemdum við áætlunina kemur fram að verndarsvæði brekkubobba í hvannstóði undir Reynisfjalli hafi verið minnkað frá framlagningu málsins á fyrri þingum. Þar sem meiri hlutanum þykir ljóst að ekki er um raunhæfan möguleika á friðlýsingu svæðisins að ræða að sinni leggur hann til að svæðið allt verði fellt brott úr áætluninni. Sú breyting útilokar þó ekki að sé vilji aðila fyrir hendi verði unnið að friðlýsingu svæðisins á síðari stigum.
    Að lokum vill meiri hlutinn árétta að náttúruverndaráætlunin er viljayfirlýsing um tiltekna framkvæmdaáætlun og felur samþykkt hennar í sér að unnið verði að friðlýsingu þeirra svæða sem áætlunin nær til en er ekki lokaákvörðun um friðlýsinguna.
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    C-liður II. kafla falli brott.

Alþingi, 9. des. 2009.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


form., frsm.


Ögmundur Jónasson.


Magnús Orri Schram.



Ólína Þorvarðardóttir.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Birgitta Jónsdóttir.