Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 377  —  10. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2009.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og leitað m.a. skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi breytingar á fjárheimildum.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við sundurliðun 2 sem nemur alls 6.092 m.kr. til lækkunar gjalda. Auk þess eru gerðar breytingar á 2. gr., sjóðstreymi ríkissjóðs, 3. gr. um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir og 4. gr., heimildagrein. Þá eru gerðar breytingar á tekjugrein í ljósi nýrra upplýsinga um innheimtar tekjur það sem af er þessu ári og endurskoðaðra áætlana um vaxtatekjur ríkissjóðs en gert er ráð fyrir hækkun tekna um 8.766,4 m.kr. frá 2. umræðu um frumvarpið. Heildartekjur ársins 2009 verða því 417.285 m.kr. og heildargjöld 568.620 m.kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður um 151.335 m.kr.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU VIÐ     SUNDURLIÐUN 2


19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

        Lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði lækkuð um 6.092 m.kr.
801     Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        1.10 Vaxtagjöld ríkissjóðs. Ný áætlun um vaxtagjöld ríkissjóðs bendir til þess að gjaldfærðir vextir verði 6.092 m.kr. lægri en áður var áætlað og verði samtals 89.007 m.kr. á árinu. Á greiðslugrunni lækka vextirnir um 4.762 m.kr. og verða samtals 83.032 m.kr. Ákveðið hefur verið að ríkissjóður selji skilanefnd Kaupþings hf., fyrir hönd kröfuhafa, 87% hlut í Arion banka. Reiknað er með að viðskiptin muni ganga í gegn fyrir næstu áramót en beðið er niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins um nýjan meirihlutaeiganda bankans. Í fyrri áætlun um vaxtagjöldin var reiknað með vöxtum tengdum eiginfjárframlagi ríkisins yfir tímabilið þegar ríkið var eigandi bankans. Nú er gert ráð fyrir, í samræmi við samkomulag við Arion banka um uppgjör milli aðila, að bankinn endurgreiði ríkissjóði 6.500 m.kr. vegna vaxta af skuldabréfinu sem ríkið gaf út sem greiðslu á hlutafjárframlagi sínu og kemur sú greiðsla því til lækkunar á vaxtakostnaði samkvæmt fyrri áætlun. Að öðru leyti er að stærstum hluta um að ræða endurreikning á vaxtaáætlun ríkissjóðs vegna eigendaskipta að Íslandsbanka. Auk þess er um að ræða ýmsar smærri breytingar, svo sem hækkun á vaxtakostnaði af erlendum skuldum þar sem gengi krónunnar gagnvart evru er nú veikara en reiknað var með í fyrri áætlun. Einnig er nú reiknað með meiri útgáfu ríkisvíxla en áður var áætlað en á móti koma auknar vaxtatekjur af innstæðum í Seðlabanka Íslands.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU VIÐ 2. GR.

     Við a-lið.
    Í a-lið er lögð til 137.390 m.kr. lækkun á framlögum til fjármálakerfisins og er hún þrískipt. Í fyrsta lagi er 62.640 m.kr. lækkun á framlagi til Arion banka sem verður 9.360 m.kr. í samræmi við samning íslenska ríkisins og skilanefndar Kaupþings, í öðru lagi 61.750 m.kr. lækkun á framlagi til Íslandsbanka sem verður 3.250 m.kr. í samræmi við samkomulag skilanefndar Glitnis við íslenska ríkið og í þriðja lagi 13.000 m.kr. lækkun á framlagi NBI hf. (Nýja Landsbankans) sem verður 127.000 m.kr. í samræmi við samkomulag íslenskra stjórnvalda við skilanefnd Landsbanka Íslands hf. og NBI hf. frá 12. október sl. um uppgjör á eignum og skuldum vegna skiptingar bankans.
    Í b-lið er lögð til breyting sem felst í 35.200 m.kr. aukningu á lánveitingum ríkissjóðs sem stafar í meginatriðum af eftirtöldum fimm tilefnum: Í fyrsta lagi 25.000 m.kr. víkjandi lán til Íslandsbanka hf. í samræmi við samkomulag skilanefndar Glitnis hf. við íslenska ríkið frá 13. september sl. og ákvörðun skilanefndar, fyrir hönd kröfuhafa, um að Glitnir eignist 95% hlutafjár í bankanum. Í öðru lagi er 24.000 m.kr. víkjandi lán til Arion banka í samræmi við samning íslenska ríkisins og skilanefndar Kaupþings frá 3. september sl. og ákvörðun skilanefndar, fyrir hönd kröfuhafa, um að Kaupþing eignist 87% hlutafjár í Arion banka. Í þriðja lagi er 6.500 m.kr. víkjandi lán til Arion banka sem fjármagnað verður með arðgreiðslu bankans til ríkissjóðs. Í fjórða lagi er 6.700 m.kr. hækkun á öðrum lánveitingum en þar vegur þyngst 6.300 m.kr. skuldbreyting á yfirteknu láni Askar Capital á móti afborgunum og vöxtum af eldri lánum. Loks er 27.000 m.kr. lækkun á áætlaðri lánveitingu til Seðlabanka Íslands sem reiknað er með að frestist fram á næsta ár.
    Í c-lið er gert ráð fyrir 4.600 m.kr. aukningu í afborgunum af tryggingabréfum sem yfirtekin voru af Seðlabankanum eftir fall gömlu bankanna.
    Í d-lið er breyting sem skýrist af því að önnur eiginfjárframlög voru áætluð 3.000 m.kr. en þau eru nú áætluð 4.500 m.kr. Hækkunin skýrist af 1.500 m.kr. hlutafjárframlagi til Farice hf. en láðst hafði að taka tillit til þess í talnagrunni frumvarpsins.
    Breyting á e-lið felur í sér 32.000 m.kr. minni sölu á verðbréfaeign en áður var áætlað. Í frumvarpinu var reiknað með 65.000 m.kr. sölu en nú er áætlað að í ár verði selt af þessum bréfum fyrir 33.000 m.kr.
     Við b-lið.
    Í a-lið lækkar lánsfjárþörf ríkissjóðs um 91.000 m.kr. vegna 140.000 m.kr. lækkunar á eiginfjárframlögum til nýju bankanna á móti 49.000 m.kr. fjármögnun vegna lánveitingar til þeirra.
    Í b-lið er 27.000 m.kr. lækkun á lántöku til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands.
    Í c-lið er 17.000 m.kr. lækkun á liðnum Önnur löng lán sem er vegna lækkunar á annarri útgáfu ríkisverðbréfa vegna hallareksturs og endurfjármögnunar á eldri skuldum.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU VIÐ 3. GR.


    Í a-lið er lögð til 185.000 m.kr. lækkun á lántökuheimildum ríkissjóðs. Í fyrsta lagi hefur lánsfjárþörf vegna eiginfjárframlaga til nýju bankanna minnkað um nálægt 140 milljarða kr. frá fyrri áætlunum en á móti koma 49 milljarða kr. lánveitingar til þeirra sem fjármagna þarf með lántökum. Í öðru lagi frestast 27.000 m.kr. lántökur til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann til ársins 2010. Í þriðja lagi lækka aðrar áætlaðar lántökur ríkissjóðs með útgáfu ríkisverðbréfa um 17.000 m.kr. Í fjórða lagi er lögð til 50.000 m.kr. lækkun til samræmis við áætlaðar heildarlántökur í 2. gr.
    Í b-lið er lögð til 28.500 m.kr. hækkun á endurlánaheimild vegna samtals 55.500 m.kr. lánveitinga, annars vegar 25.000 m.kr. til Íslandsbanka og hins vegar 30.500 m.kr. til Arion banka, en á móti kemur að lánveiting til Seðlabankans vegna gjaldeyrisvaraforða lækkar um jafngildi 27.000 m.kr.
    Í c-lið er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að ábyrgjast skuldabréf Keflavíkurflugvallar ohf. vegna uppgjörs félagsins á lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar í tengslum við sameiningu stofnunarinnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. í Keflavíkurflugvöll ohf. Hér er í raun um tilfærslu á ábyrgð að ræða því að ríkissjóður er ábyrgur fyrir lífeyrissjóðsgreiðslum ríkisstarfsmanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar
hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 9. des. 2009.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Ásmundur Einar Daðason.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.     

Þuríður Backman.


Oddný G. Harðardóttir.