Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 70. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 425  —  70. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Árnýju Guðmundsdóttur og Helgu Eysteinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Árnínu Steinunni Kristjánsdóttur frá Kauphöll Íslands og Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Íbúðalánasjóði, Kauphöll Íslands, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum verði tekin upp í íslensk lög. Með tilskipuninni eru skv. 1. gr. hennar settar reglur um aukin réttindi og áhrif hluthafa í félögum sem hafa hluti skráða á skipulegan markað sem er staðsettur eða starfræktur í aðildarríki.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Þær breytingar sem felast í 1., 2., 4. og 5. gr. frumvarpsins ná til hlutafélaga og einkahlutafélaga almennt en þar er gert ráð fyrir að umboð geti, auk þess að vera skriflegt, verið rafrænt og að kröfu um að fá mál tekið til meðferðar á hluthafafundi verði sömuleiðis komið rafrænt á framfæri.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um hlutafélög bætist fimm nýjar greinar sem snerta eingöngu félög sem hafa fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Er helsta breytingin sú að skv. a-lið 3. gr. (88. gr. a) er lágmarksfrestur til að boða til hluthafafundar lengdur úr einni viku í þrjár. Frá þessu eru undantekningar sem eiga við þegar hluthafafundir eru rafrænir (tveggja vikna fyrirvari) og þegar framhaldshluthafafundir eru haldnir (10 daga fyrirvari). Þá er í b-lið 3. gr. (88. gr. b) fjallað um tilkynningu á fundarboði eða birtingu þess af félagsins hálfu sem skal tryggja skjótan aðgang að fundarboðinu á jafnréttisgrundvelli. Í d-lið 3. gr. (88. gr. d) eru tilgreindar þær upplýsingar sem er skylt að veita á vef félagsins en í tilskipuninni er gert ráð fyrir að skráð félög hafi þegar vefsetur.
    Á grundvelli e-liðar 3. gr. frumvarpsins (88. gr. e) getur Fjármálaeftirlitið undanskilið rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða ákvæðum a–d-liðar 3. gr. Undanþága þessi á sér stoð í 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um gildissvið tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins snertir það félög sem hafa fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Gildissvið tilskipunarinnar, sbr. 1. gr. hennar, er þrengra þó svo að í fyrirsögn tilskipunarinnar sé vísað í skráð félög. Skv. 1. gr. tilskipunarinnar snertir hún félög sem hafa hlutabréf skráð á skipulegan markað sem er staðsettur í eða starfræktur í aðildarríki.
    Nefndin telur rétt að gildissvið frumvarpsins samræmist ákvæði 1. gr. tilskipunarinnar og leggur til að það eigi við um félög þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Því komið orðið „hlutur“ í stað orðsins „fjármálagerningur“ víðs vegar í 3. gr. frumvarpsins.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram það sjónarmið að æskilegt væri að tilgreina í lögum um hlutafélög með hversu margra daga fyrirvara hluthafi skuli gera kröfu um að fá mál til meðferðar á hluthafafundi til að unnt sé að taka það fyrir á dagskrá fundar. Nefndin leggur ekki til að slíkt ákvæði verði lögfest að þessu sinni enda þarfnast þetta nánari skoðunar við. Ef kveðið væri á um það í lögunum með hversu margra daga fyrirvara krafa um að fá mál tekið til meðferðar þarf að hafa borist félagsstjórn mundi það útiloka að mál kæmist á dagskrá eftir það tímamark. Frekar þyrfti að setja reglu með möguleika á frávikum í ákveðnum tilvikum. Nefndin telur rétt að þetta atriði verði skoðað gaumgæfilega, m.a. með hliðsjón af framkvæmdinni.
    Þá var því hreyft fyrir nefndinni að í lögum um hlutafélög væri ekki kveðið á um rétt hluthafa til að taka þátt í aðalfundi og greiða atkvæði með tilliti til eignarhalds á tilteknum degi fyrir aðalfund. Samkvæmt lögunum væri hins vegar miðað við hlutaskrá. Svo virðist sem um þetta hafi orðið ágreiningur þegar eigendaskipti verða á hlutum í félögum skömmu fyrir aðalfund. Nefndin leggur einnig til að þetta atriði verði athugað frekar.
    Nefndin bendir á að í fylgiskjali I með frumvarpinu er tilskipunin sem innleiða á með frumvarpinu. Þar virðist íslensk þýðing á enska orðinu ,,general meeting“ hafa misritast. Er það þýtt sem „aðalfundur“ en á að vera „hluthafafundur“. Með áliti nefndarinnar fylgir leiðrétt útgáfa af tilskipuninni.
    Eygló Harðadóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    Við 3. gr. Í stað orðanna „sem hafa fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði“ í 1. mgr. a-liðar og orðanna „sem hefur fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði“ í 2. mgr. a-liðar, 1. mgr. b-liðar, c-lið og 1. mgr. d-liðar komi: þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Alþingi, 11. des. 2009.



Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Arndís Soffía Sigurðardóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.


Margrét Tryggvadóttir.





    

Fylgiskjal.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2007/36/EB
frá 11. júlí 2007
um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 44. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í orðsendingu sinni til ráðsins og Evrópuþingsins frá 21. maí 2003, sem ber yfirskriftina „Að færa félagarétt til nútímahorfs og bæta stjórnarhætti í fyrirtækjum í Evrópusambandinu – Áætlun um þróun“, benti framkvæmdastjórnin á að rétt væri að gera ráðstafanir um ný sérsniðin framtaksverkefni til að auka réttindi hluthafa í skráðum félögum og að brýn þörf væri á að leysa vandamál varðandi atkvæðagreiðslu yfir landamæri.
2)          Í ályktun sinni frá 21. apríl 2004 ( 3 ) lýsti Evrópuþingið yfir stuðningi sínum við fyrirætlun framkvæmdastjórnarinnar um að efla réttindi hluthafa, einkum með því að útvíkka reglur um gagnsæi, atkvæðisrétt með umboði, möguleikann á að taka þátt í hluthafafundum með rafrænum hætti og tryggja að unnt sé að nýta atkvæðisrétt yfir landamæri.
3)          Handhöfum hlutabréfa með atkvæðisrétti skal heimilt að nýta sér þessi réttindi því þau eru innifalin í verðinu sem greiða verður við kaup á bréfunum. Enn fremur er skilvirkt eftirlit hluthafa forsenda fyrir góðum stjórnarháttum fyrirtækja og því ber að greiða fyrir því og hvetja til þess. Til að svo megi verða er því er nauðsynlegt að samþykkja ráðstafanir til þess að samræma lög aðildarríkjanna. Hindranir, sem koma í veg fyrir að hluthafar greiði atkvæði, s.s. þegar nýting atkvæðisréttar fellur undir kvöð um bann við viðskiptum með hlutabréf í tiltekinn tíma fyrir hluthafafund, skal afnema. Þessi tilskipun hefur þó ekki áhrif á gildandi löggjöf Bandalagsins um hlutdeildarskírteini sem gefin eru út af fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu eða um hlutdeildarskírteini sem eru keypt eða þeim ráðstafað í slíkum fyrirtækjum.
4)          Núverandi löggjöf Bandalagsins er ekki fullnægjandi til að ná þessu markmiði. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB frá 28. maí 2001 um opinbera skráningu verðbréfa á verðbréfaþingi og upplýsingar sem birtar skulu um slík verðbréf ( 4 ) er aðallega fjallað um þær upplýsingar sem útgefendur verða að veita markaðinum en ekki um það hvernig staðið skuli að sjálfri atkvæðagreiðslu hluthafa. Enn fremur er með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað ( 5 ) lögð sú kvöð á útgefendur að gera tilteknar upplýsingar og skjöl, sem skipta máli varðandi hluthafafundi, aðgengileg en slíkar upplýsingar og skjöl skulu vera aðgengileg í heimaríki útgefandans. Því ber að fastsetja lágmarkskröfur í því skyni að vernda fjárfesta og stuðla að því að hluthafar geti nýtt sér réttindin sem fylgja hlutabréfum með atkvæðisrétti á greiðan og skilvirkan hátt. Hvað önnur réttindi en atkvæðisrétt varðar er aðildarríkjunum heimilt að láta beitingu þessara lágmarksstaðla einnig taka til hlutabréfa án atkvæðisréttar ef slíkar kröfur gilda ekki þegar um þau.
5)          Umtalsverður hluti hlutabréfa í skráðum félögum er í eigu hluthafa sem ekki eru með fasta búsetu í því aðildarríki þar sem félagið hefur skráða skrifstofu sína. Hluthafar sem eru með fasta búsetu erlendis skulu geta nýtt sér réttindi sín í tengslum við hluthafafund jafn auðveldlega og hluthafar sem eru með fasta búsetu í aðildarríkinu þar sem félagið hefur skráða skrifstofu. Til þess þarf að afnema núverandi hindranir á aðgangi þeirra hluthafa, sem hafa fasta búsetu erlendis, að upplýsingum sem skipta máli fyrir hluthafafundinn og nýtingu atkvæðisréttar án þess að þeir séu sjálfir viðstaddir hluthafafundinn. Þeir hluthafar með fasta búsetu, sem eru ekki eða geta ekki verið viðstaddir hluthafafund, skulu einnig njóta góðs af afnámi þessara hindrana.
6)          Hluthafar skulu geta greitt atkvæði á upplýstan hátt á eða fyrir hluthafafund óháð því hvar þeir hafa fasta búsetu. Allir hluthafar skulu hafa nægilegan tíma til að skoða þau gögn sem á að leggja fram á hluthafafundi og ákveða hvernig þeir vilja nýta atkvæðisrétt sinn. Í því skyni skal tilkynna hluthafafund með nægum fyrirvara og hluthöfum látnar í té allar þær upplýsingar sem á að leggja fram á hluthafafundinum. Nýta skal þá möguleika sem nútímatækni býður upp á svo að hægt sé að nálgast upplýsingar þegar í stað. Í þessari tilskipun er gert ráð fyrir að öll skráð félög hafi þegar vefsetur.
7)          Meginreglan skal vera sú að hluthöfum gefist kostur á að setja mál á dagskrá hluthafafundar og leggja fram drög að ályktunum fyrir dagskrárliði. Með fyrirvara um mismunandi tímaramma og aðferðir sem nú er stuðst við í Bandalaginu skal nýting þessara réttinda falla undir tvær grundvallarreglur, þ.e. að engin viðmiðunarmörk, sem krafa er gerð um vegna nýtingar þessara réttinda, skuli vera meira en 5% af hlutafé félagsins og að allir hluthafar skuli ávallt fá lokagerð dagskrárinnar með nægum fyrirvara til þess að undirbúa sig fyrir umræður og atkvæðagreiðslu fyrir hvern dagskrárlið.
8)          Meginreglan skal vera sú að hverjum hluthafa gefist kostur á að leggja fram spurningar sem varða liði á dagskrá hluthafafundar og fá svör við þeim en aðildarríkjunum er látið eftir að ákvarða reglur um hvernig og hvenær spurningar skulu lagðar fram og þeim svarað.
9)          Engar lagalegar hindranir skulu koma í veg fyrir að félög geti boðið hluthöfum sínum að taka þátt í hluthafafundi með rafrænum hætti. Atkvæðagreiðsla án þess að viðkomandi sé sjálfur á hluthafafundi, hvort sem það er bréflega eða með rafrænum hætti, skal ekki vera háð öðrum takmörkunum en þeim sem nauðsynlegar eru til að sannprófa auðkenni og öryggi rafrænna samskipta. Þetta skal þó ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin samþykki reglur sem miða að því að tryggja að úrslit atkvæðagreiðslu endurspegli fyrirætlanir hluthafa undir öllum kringumstæðum, þ.m.t. reglur um aðstæður þar sem nýjar kringumstæður myndast eða koma í ljós eftir að hluthafi hefur greitt atkvæði bréflega eða með rafrænum hætti.
10)          Góðir stjórnarhættir fyrirtækja krefjast þess að atkvæðagreiðsla með umboði (e. proxy) gangi vel og greiðlega fyrir sig. Því ber að afnema núverandi takmarkanir og hindranir sem gera atkvæðagreiðslu með umboði flókna og kostnaðarsama. En góðir stjórnarhættir fyrirtækja krefjast einnig fullnægjandi verndarráðstafana gegn hugsanlegri misnotkun á atkvæðagreiðslu með umboði. Umboðshafa skal því skylt að fylgja öllum fyrirmælum sem hann kann að hafa fengið frá hluthafa og aðildarríkjum skal gert kleift að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að umboðshafi gæti ekki hagsmuna annarra en hluthafa, óháð því hvaða ástæður hafa leitt til hagsmunaárekstrana. Ráðstafanir gegn hugsanlegri misnotkun geta m.a. falist í fyrirkomulagi sem aðildarríkin kunna að koma á fót til þess að hafa eftirlit með starfsemi þeirra einstaklinga sem á virkan hátt safna umboðum eða sem í reynd hafa safnað meira en tilteknum fjölda umboða, einkum til að tryggja fullnægjandi áreiðanleika og gegnsæi. Hluthafar skulu hafa ótakmarkaðan rétt samkvæmt þessari tilskipun til þess að tilnefna slíka einstaklinga sem umboðshafa til þess að sækja hluthafafund og greiða atkvæði í þeirra nafni. Þessi tilskipun hefur þó á engan hátt áhrif á reglur eða viðurlög sem aðildarríkin kunna að setja vegna slíkra einstaklinga þar sem atkvæði hefur verið greitt með sviksamlegri notkun á þeim umboðum sem hefur verið safnað. Enn fremur skuldbindur þessi tilskipun ekki á nokkurn hátt félög til að sannreyna að umboðshafar greiði atkvæði í samræmi við fyrirmæli hluthafa, sem hafa tilnefnt þá, um atkvæðagreiðslu.
11)          Með þátttöku fjármálamilliliða er árangur af atkvæðagreiðslu samkvæmt fyrirmælum að miklu leyti kominn undir því hve skilvirk keðja milliliðanna er þar eð fjárfestar geta oft ekki nýtt sér atkvæðisréttinn, sem fylgir hlutabréfum þeirra, án samstarfs við alla milliliði í keðjunni sem hugsanlega hafa ekki efnahagslegra hagsmuna að gæta í hlutabréfunum. Til þess að auðvelda fjárfesti að nýta sér atkvæðisrétt sinn yfir landamæri er því mikilvægt að milliliðir liðki fyrir nýtingu atkvæðisréttar. Framkvæmdastjórnin skal taka þetta til frekari meðferðar með tilmælum í því skyni að tryggja að fjárfestar hafi aðgang að skilvirkri kosningaþjónustu og að atkvæðisréttur sé nýttur í samræmi við fyrirmæli þessara fjárfesta.
12)          Ef tímasetning á upplýsingum til stjórnar, framkvæmdastjórnar eða eftirlitsstjórnar sem og til almennings um þau atkvæði, sem greidd eru fyrir hluthafafund með rafrænum hætti eða bréflega, skiptir miklu máli vegna stjórnarhátta fyrirtækja, geta aðildarríkin fastsett hana.
13)          Ganga skal frá úrslitum atkvæðagreiðslu með aðferðum sem endurspegla áform hluthafa með atkvæðagreiðslunni og skulu þau birt eftir hluthafafund a.m.k. á vefsetri félagsins.
14)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að gera hluthöfum kleift að nýta réttindi sín með skilvirkum hætti alls staðar í Bandalaginu, á grundvelli núverandi löggjafar Bandalagsins, og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
15)          Í samræmi við 34. mgr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 6 ), eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Efni og gildissvið

1.     Í þessari tilskipun eru fastsettar kröfur í tengslum við nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa sem fylgja atkvæðisrétti í tengslum við hluthafafund félaga sem hafa skráða skrifstofu í aðildarríki en hlutabréf þeirra eru skráð á skipulegan markað sem er staðsettur í eða starfræktur í aðildarríki.
2.     Aðildarríki sem bært er til að setja reglur um málefni sem falla undir þessa tilskipun skal vera það aðildarríki þar sem félagið hefur skráða skrifstofu og tilvísanir til „gildandi laga“ eru tilvísanir til laga þess aðildarríkis.
3.     Aðildarríkjunum er heimilt að veita eftirfarandi gerðum félaga undanþágu frá þessari tilskipun:
a)    fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu í skilningi 2. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum ( 7 ),
b)    fyrirtækjum sem einungis hafa að markmiði sameiginlega fjárfestingu fjár sem almenningur hefur lagt fram, starfa á grundvelli meginreglunnar um áhættudreifingu en sækjast ekki eftir að ná lagalegum eða stjórnunarlegum yfirráðum yfir útgefendum undirliggjandi fjárfestinga sinna, að því tilskildu að lögbær yfirvöld hafi veitt þessum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu starfsleyfi, og þau heyri undir eftirlit þeirra og að þau annist vörsluþjónustu sem er jafngild þeirri sem um getur fyrir vörslufyrirtæki í tilskipun 85/611/ EBE,
c)    samvinnufélögum.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „skipulegur markaður“: markaður eins og hann er skilgreindur í 14. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga ( 8 ),
b)    „hluthafi“: einstaklingur eða lögaðili sem er viðurkenndur sem hluthafi samkvæmt gildandi lögum,
c)    „umboð“: heimild frá hluthafa til einstaklings eða lögaðila til þess að nýta sér einhver eða öll réttindi þessa hluthafa á hluthafafundi í hans nafni.

3. gr.
Frekari ráðstafanir á landsvísu

Þessi tilskipun kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin geti lagt frekari skyldur á félög eða að þau geri frekari ráðstafanir til þess að auðvelda hluthöfum að nýta sér þau réttindi sem um getur í þessari tilskipun.

II. KAFLI
HLUTHAFAFUNDIR
4. gr.
Jöfn meðferð hluthafa

Félagið skal tryggja jafna meðferð allra hluthafa sem hafa sömu stöðu að því er varðar þátttöku og nýtingu atkvæðisréttar á hluthafafundi.

5. gr.
Upplýsingar fyrir hluthafafund

1.     Með fyrirvara um 4. mgr. 9. gr. og 4. mgr. 11. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB frá 21. apríl 2004 um yfirtökutilboð ( 9 ) skulu aðildarríkin sjá til þess að félag boði til hluthafafundar á einhvern þann hátt sem tilgreindur er í 2. mgr. þessarar greinar eigi síðar en á 21. degi fyrir fundardag.
Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um það, ef félag gefur öllum hluthöfum sínum kost á að greiða atkvæði með rafrænum hætti, að hluthafafundur geti ákveðið að félagið boði til hluthafafundar, sem er ekki aðalfundur, á einhvern þann hátt sem tilgreindur er í 2. mgr. þessarar greinar eigi síðar en 14 dögum fyrir fundinn. Þessi ákvörðun skal tekin með a.m.k. tveimur þriðju hlutum þeirra atkvæða sem fylgja hlutabréfunum eða skráðu eigin fé, sem farið er með atkvæði fyrir, og skal hún eigi gilda lengur en fram að næsta aðalfundi.
Aðildarríkin þurfa ekki að beita lágmarkstímanum, sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein, fyrir aðra eða síðari boðun til hluthafafundar þegar það er gert vegna þess að tilskilinn meirihluti fékkst ekki fyrir fundinn sem fyrst var boðað til, að því tilskildu að farið hafi verið að þessari grein í fyrsta fundarboðinu og að ekkert nýtt mál sé sett á dagskrá og að minnsta kosti tíu dagar líði milli lokaboðunar og dagsetningar hluthafafundar.
2.     Með fyrirvara um frekari kröfur um tilkynningu eða birtingu, sem þar til bært aðildarríki mælir fyrir um, eins og skilgreint er í 2. mgr. 1. gr., skal gerð sú krafa að félagið gefi út fundarboðið, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar á þann hátt að tryggður sé greiður aðgangur að því án mismununar. Aðildarríkið skal krefjast þess að félagið noti miðla sem unnt er að treysta með góðu móti að dreifi upplýsingum á skilvirkan hátt til almennings í Bandalaginu. Aðildarríkið má ekki gera það að skilyrði að einungis verði notaðir miðlar sem eru reknir af aðilum með staðfestu á yfirráðasvæði þess.
Aðildarríkin þurfa ekki að beita fyrstu undirgrein gagnvart félögum sem geta greint frá nöfnum og heimilisföngum hluthafa sinna í fyrirliggjandi hluthafaskrá, að því tilskildu að félagið sé skuldbundið til þess að senda fundarboð til allra skráðra hluthafa sinna.
Í hvorugu tilvikinu er félaginu heimilt að krefja um greiðslu sérstaks kostnaðar fyrir að senda út fundarboð með tilskildum hætti.
3.     Í fundarboðinu, sem um getur í 1. mgr., skal a.m.k. vera eftirfarandi:
a)    nákvæmar upplýsingar um fundartíma og fundarstað og fyrirhuguð dagskrá hluthafafundar,
b)    skýr og greinargóð lýsing á þeim reglum sem hluthafar verða að fylgja til þess að fá að taka þátt í fundinum og greiða atkvæði á hluthafafundi. Þetta tekur til upplýsinga um:
    i.        réttindi hluthafa samkvæmt 6. gr., að því marki sem hægt er að nýta þessi réttindi eftir að fundarboð hefur verið sent, og samkvæmt 9. gr. svo og þá fresti sem gefnir eru til að nýta þessi réttindi. Fundarboðunin getur takmarkast við það að kveða einungis á um fresti sem veittir eru til að nýta þessi réttindi, að því tilskildu að í henni sé greint frá því að nánari upplýsingar um þessi réttindi sé að finna á vefsetri félagsins,
    ii.    tilhögun atkvæðagreiðslu með umboði, einkum um eyðublöð sem á að nota við atkvæðagreiðslu með umboði og hvernig félagið er í stakk búið til að taka á móti rafrænum tilkynningum um tilnefningu á umboðshöfum og
    iii.    ef við á, hvernig staðið skuli að bréflegri eða rafrænni atkvæðagreiðslu,
c)    ef við á, tilgreining á skráningardegi, eins og skilgreint er í 2. mgr. 7. gr., og útskýring á því að einungis þeir sem eru hluthafar á þeim degi skuli hafa rétt til þess að taka þátt í hluthafafundi og greiða atkvæði,
d)    tilgreining á því hvar og hvernig hægt er að fá allan, óstyttan texta skjala og draga að ályktunum sem um getur í c- og d-lið í 4. mgr.,
e)    tilgreining á veffangi vefsetursins þar sem upplýsingarnar, sem um getur í 4. mgr., verða tiltækar.
4.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að félagið geri hluthöfum sínum, á samfelldu tímabili sem hefst eigi síðar en á 21. degi fyrir hluthafafundardag, að meðtöldum hluthafafundardegi, a.m.k. eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar á vefsetri sínu:
a)    fundarboðið, sem um getur í 1. mgr.,
b)    heildarfjölda hlutabréfa og atkvæða á þeim degi sem boðað er til fundar (þ.m.t. sérstakar heildartölur fyrir hvern flokk hlutabréfa þar sem hlutafjáreign félagsins er skipt í tvo eða fleiri flokka hlutabréfa),
c)    skjölin sem leggja á fram á hluthafafundi,
d)    drög að ályktun eða, ef ekki er lagt til að samþykkja ályktun, athugasemd frá þar til bærum aðila innan félagsins, sem tilnefna skal samkvæmt gildandi lögum fyrir hvern lið á fyrirhugaðri dagskrá hluthafafundar. Auk þess skal setja drög að ályktunum frá hluthöfum á vefsetrið eins fljótt og auðið er eftir að félagið hefur fengið þau,
e)    ef við á, eyðublöð sem nota á til að greiða atkvæði með umboði og til að greiða atkvæði bréflega nema þessi eyðublöð séu send beint til hvers hluthafa.
Ef ekki er unnt að sækja eyðublöðin, sem um getur í e-lið, á Netið af tæknilegum ástæðum skal félagið greina frá því á vefsetri sínu hvernig hægt er að fá eyðublöðin á pappír. Í því tilviki er félaginu skylt að póstsenda eyðublöðin endurgjaldslaust til hvers hluthafa sem þess óskar.
Ef, samkvæmt 4. mgr. 9. gr. eða 4. mgr. 11. gr. tilskipunar 2004/25/EB, eða annarri undirgrein 1. mgr. þessarar greinar, boðað er til hluthafafundar eigi síðar en 21 degi fyrir fund, skal fresturinn sem tilgreindur er í þessari grein, styttur í samræmi við það.

6. gr.
Réttur til setja mál á dagskrá hluthafafundar og til að leggja fram drög að ályktunum

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að hluthafar, hver fyrir sig eða sameiginlega:
a)    hafi rétt til þess að setja mál á dagskrá hluthafafundar, að því tilskildu að hverju slíku máli fylgi rökstuðningur eða drög að ályktun til samþykktar á hluthafafundinum og
b)    hafi rétt til að leggja fram drög að ályktunum vegna mála sem eru felld eða verða felld inn í dagskrá hluthafafundar.
Aðildarríkin geta kveðið á um að einungis sé unnt að nýta réttindin, sem um getur í a-lið, í tengslum við aðalfund, að því tilskildu að hluthafar, hver fyrir sig eða sameiginlega, hafi rétt til að boða til hluthafafundar eða gera kröfu um að félagið boði til hluthafafundar, sem er ekki aðalfundur, með dagskrá sem tekur a.m.k. til allra þeirra mála sem þessir hluthafar óska eftir að fjallað verði um.
Aðildarríkin geta kveðið á um að þessi réttindi séu nýtt skriflega (send með pósti eða rafrænt).
2.     Ef einhver þeirra réttinda sem eru tilgreind í 1. mgr. eru með fyrirvara um að viðkomandi hluthafi eða hluthafar eigi lágmarkshlut í félaginu skal þetta lágmark ekki fara yfir 5% af hlutafé.
3.     Hvert aðildarríki skal kveða á um einn frest, með tilliti til tiltekins dagafjölda fyrir hluthafafund eða fundarboð, þar sem hluthöfum er heimilt að nýta sér réttinn sem um getur í a-lið 1. mgr. Á sama hátt getur hvert aðildarríki kveðið á um frest vegna nýtingar á réttinum sem um getur í b-lið 1. mgr.
4.     Aðildarríkin skulu sjá til þess, ef nýting réttarins, sem um getur í a-lið 1. mgr., hefur í för með sér breytingu á dagskrá hluthafafundar sem þegar hefur verið tilkynnt hluthöfum, að félagið skuli gera endurskoðaða dagskrá tiltæka á sama hátt og fyrri dagskrá fyrir gildandi skráningardag, eins og skilgreint er í 2. mgr. 7. gr., eða ef enginn skráningardagur gildir, með nægum fyrirvara fyrir dagsetningu hluthafafundar þannig að aðrir hluthafar geti tilnefnt umboðshafa, eða eftir atvikum, greitt atkvæði bréflega.

7. gr.
Kröfur vegna þátttöku og atkvæðagreiðslu á hluthafafundi

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess:
a)    að réttindi hluthafa til að taka þátt í hluthafafundi og greiða atkvæði í tengslum við hvaða hlutabréf sín sem er séu ekki með fyrirvara um kröfur um að hlutabréfum hans sé komið fyrir í vörslu, þau séu flutt til eða skráð á neinn annan einstakling eða lögaðila fyrir hluthafafund og
b)    að réttindi hluthafa til að selja eða flytja á annan hátt hlutabréf sín á tímabilinu frá skráningardegi, eins og hann er skilgreindur í 2. mgr., til hluthafafundar, sem þessi dagur á við um, séu ekki háð neinum takmörkunum sem gilda ekki um þau á öðrum tíma.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að réttindi hluthafa til að taka þátt í hluthafafundi og greiða atkvæði með tilliti til hlutabréfa sinna skuli ákvarðast með tilliti til hlutabréfanna í eigu þess hluthafa á tilteknum degi fyrir hluthafafund (skráningardegi).
Aðildarríkin þurfa ekki að beita fyrstu undirgrein gagnvart þeim félögum sem geta greint frá nöfnum og heimilisföngum hluthafa sinna á grundvelli fyrirliggjandi hluthafaskrár á þeim degi er hluthafafundur fer fram.
3.     Hvert aðildarríki skal tryggja að einn skráningardagur gildi um öll félög. Þó getur aðildarríki kveðið á um einn skráningardag fyrir félög sem hafa gefið út handhafahlutabréf og annan skráningardag fyrir félög sem hafa gefið út skráð hlutabréf, að því tilskildu að einn skráningardagur gildi um hvert félag sem hefur gefið út báðar gerðir hlutabréfa. Skráningardagurinn skal vera innan 30 daga tímabils fyrir hluthafafundinn sem hann gildir um. Við framkvæmd á þessu ákvæði og 1. mgr. 5. gr. skal hvert aðildarríki tryggja það að minnst átta dagar líði milli síðasta heimilaðs dags fyrir boðun til hluthafafundar og skráningardags. Við útreikning á fjölda daga skal ekki telja þessa tvo daga með. Við þær kringumstæður sem lýst er í þriðju undirgrein 1. mgr. 5. gr. geta aðildarríkin þó gert kröfu um að minnst sex dagar líði frá síðustu heimiluðu dagsetningu fyrir aðra hluthafafundarboðun og síðari boðanir til skráningardags. Við útreikning á fjölda daga skal ekki telja þessa tvo daga með.
4.     Ekki er hægt að gera aðrar kröfur um sönnun um stöðu sem hluthafi nema þær sem nauðsynlegar eru til að ganga úr skugga um auðkenni hluthafa og aðeins að því marki sem þær eru í réttu hlutfalli við það markmið.

8. gr.
Þátttaka í hluthafafundi með rafrænum hætti

1.     Aðildarríkin skulu heimila félögum að bjóða hluthöfum sínum hvers kyns leiðir til rafrænnar þátttöku í hluthafafundi, einkum eina eða allar eftirfarandi leiða til þátttöku, þ.e.:
a)    rauntímaútsending frá hluthafafundi,
b)    rauntímasamskipti í báðar áttir sem gera hluthöfum kleift að ávarpa hluthafafund úr fjarlægð,
c)    fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, hvort heldur er fyrir eða meðan á hluthafafundi stendur, án þess að þurfa að tilnefna umboðshafa sem sækir fundinn í eigin persónu.
2.     Einungis er heimilt að binda notkun rafrænna miðla, sem gera hluthöfum kleift að taka þátt í hluthafafundi, við kröfur og skilyrði, sem eru nauðsynleg til að tryggja auðkenningu hluthafa og öryggi rafrænna samskipta, og aðeins að því marki sem það er í réttu hlutfalli við þessi markmið.
Þetta er með fyrirvara um hvers kyns lagaákvæði sem aðildarríkin hafa samþykkt eða kunna að samþykkja að því er varðar ferli ákvarðanatöku innan félagsins vegna innleiðingar eða framkvæmdar á hvers kyns rafrænum þátttökuleiðum.

9. gr.
Réttur til að leggja fram spurningar

1.     Hver hluthafi skal eiga rétt á að leggja fram spurningar varðandi mál á dagskrá hluthafafundar. Félagið skal svara þeim spurningum sem hluthafar beina til þess.
2.     Rétturinn til að leggja fram spurningar og skyldan til að svara þeim eru með fyrirvara um aðgerðir sem aðildarríkin kunna að grípa til eða gefa félögum kost á að gera til þess að tryggja auðkenningu á hluthöfum, gott fyrirkomulag hluthafafunda og undirbúning þeirra svo og verndun trúnaðarupplýsinga og viðskiptahagsmuna félaga. Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa félögum að veita eitt heildarsvar við spurningum varðandi sama efni.
Aðildarríkin geta kveðið á um að svar teljist hafa verið veitt ef viðkomandi upplýsingar eru aðgengilegar á vefsetri félagsins í formi spurninga og svara.

10. gr.
Atkvæðagreiðsla með umboði

1.     Hver hluthafi skal eiga rétt til þess að tilnefna hvaða einstakling eða lögaðila sem er sem umboðshafa til þess að mæta og greiða atkvæði á hluthafafundi í sínu nafni. Umboðshafi skal hafa sömu réttindi til að taka til máls og leggja fram spurningar á hluthafafundi og hluthafinn sem hann er í forsvari fyrir.
Að frátalinni þeirri kröfu að umboðshafi hafi gerhæfi skulu aðildarríkin afnema öll lagaákvæði sem takmarka eða heimila fyrirtækjum að takmarka möguleika einstaklinga til að vera tilnefndir sem umboðshafar.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að takmarka tilnefningu umboðshafa við einn fund eða þá fundi sem kunna að verða haldnir á tilteknu tímabili.
Með fyrirvara um 5. mgr. 13. gr. er aðildarríkjunum heimilt að takmarka þann fjölda einstaklinga sem hluthafar geta tilnefnt sem umboðshafa í tengslum við einn tiltekinn hluthafafund. Eigi hluthafi hins vegar hlutabréf í félagi, sem eru á fleiri en einum verðbréfareikningi, kemur slík takmörkun ekki í veg fyrir að hluthafi geti tilnefnt sérstakan umboðshafa fyrir hlutabréf á hverjum verðbréfareikningi í tengslum við einn tiltekinn hluthafafund. Þetta hefur ekki áhrif á ákvæði í gildandi lögum sem banna að atkvæði séu greidd með mismunandi hætti fyrir hlutabréf sem eru í eigu eins og sama hluthafa.
3.     Fyrir utan þær takmarkanir, sem skýrt eru heimilaðar í 1. og 2. mgr., skulu aðildarríkin ekki takmarka eða leyfa félögum að takmarka nýtingu á réttindum hluthafa fyrir milligöngu umboðshafa í neinum öðrum tilgangi en þeim að taka á hugsanlegum hagsmunaárekstrum milli umboðshafa og þess hluthafa sem umboðshafa er skylt að gæta hagsmuna fyrir og þá skal aðildarríki ekki gera aðrar kröfur en eftirfarandi:
a)    Aðildarríkjunum er heimilt að mæla fyrir um að umboðshafi láti í té sérstakar upplýsingar sem kunna að skipta máli til að hluthafi geti metið hugsanlega hættu á því að umboðshafi kunni að gæta annarra hagsmuna en hagsmuna hluthafans,
b)    Aðildarríkjunum er heimilt að takmarka eða útiloka að hluthafi nýti sér réttindi sín fyrir milligöngu umboðshafa án sérstakra fyrirmæla um atkvæðagreiðslu fyrir hverja ályktun sem umboðshafi á að greiða atkvæði um fyrir hönd hluthafans,
c)    Aðildarríkjunum er heimilt að takmarka eða útiloka framsal á umboði til annars aðila, en þetta á ekki að koma í veg fyrir að umboðshafi, sem er lögaðili, nýti sér þau réttindi sem honum hefur verið falið fyrir milligöngu einhvers úr félagsstjórn eða framkvæmdastjórn eða einhvers starfsmanna sinna.
Hagsmunaárekstrar í skilningi þessarar málsgreinar geta einkum orðið þegar umboðshafi:
    i.        er ráðandi hluthafi í félaginu eða er önnur eining undir yfirráðum slíks hluthafa,
    ii.    á sæti í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn í félaginu eða er ráðandi hluthafi eða undireining eins og um getur í i. lið,
    iii.    er starfsmaður eða endurskoðandi félagsins eða fyrir ráðandi hluthafa eða undireining eins og um getur í i. lið,
    iv.    er tengdur fjölskylduböndum einstaklingi sem um getur í i. iii. lið.
4.     Umboðshafinn skal greiða atkvæði í samræmi við fyrirmælin frá hluthafanum sem tilnefnir hann.
Aðildarríkjum er heimilt að gera kröfu um að umboðshafar haldi skrá yfir fyrirmæli um atkvæðagreiðslu í tiltekinn lágmarkstíma og að þeir staðfesti, sé þess krafist, að fyrirmælunum um atkvæðagreiðslu hafa verið hlýtt.
5.     Sem umboðsaðila er aðila heimilt að fara með umboð fleiri en eins hluthafa án þess að það takmarki fjölda þeirra hluthafa sem hann er í forsvari fyrir. Ef umboðshafi fer með umboð fyrir marga hluthafa skulu gildandi lög gera honum kleift að greiða atkvæði á annan hátt fyrir tiltekinn hluthafa en hann greiðir fyrir annan hluthafa.

11. gr.
Formsatriði vegna tilnefningar á umboðshafa og tilkynningar þar að lútandi

1.     Aðildarríkin skulu heimila hluthöfum að tilnefna umboðshafa með rafrænum hætti. Auk þess skulu aðildarríkin heimila félögum að samþykkja tilkynningu um tilnefningu með rafrænum hætti og tryggja að hvert félag bjóði hluthöfum sínum a.m.k. eina skilvirka aðferð til að tilkynna með rafrænum hætti.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að ekki sé hægt að tilnefna umboðshafa, og tilkynna félaginu um tilnefningu þeirra, nema skriflega. Að undanskilinni þessari formlegu grundvallarkröfu má tilnefning umboðshafa, tilkynning um tilnefningu til félagsins og útgáfa fyrirmæla til umboðshafa um atkvæðagreiðslu, ef um þau er að ræða, aðeins vera háð þeim formkröfum, sem nauðsynlegar eru til að tryggja auðkenningu hluthafa og umboðshafa, eða til að tryggja möguleika á að sannreyna efni fyrirmæla um atkvæðagreiðslu, eftir því sem við á, og aðeins að því marki sem þær eru í réttu hlutfalli við þessi markmið.
3.     Ákvæði þessarar greinar gilda, að breyttu breytanda, um afturköllun á tilnefningu umboðshafa.

12. gr.
Bréfleg atkvæðagreiðsla

Aðildarríkin skulu heimila félögum að gefa hluthöfum sínum kost á að greiða atkvæði bréflega fyrir hluthafafund. Bréfleg atkvæðagreiðsla má aðeins vera háð þeim kröfum og takmörkunum sem eru nauðsynlegar til að tryggja auðkenningu hluthafa og aðeins að því marki sem þær eru í réttu hlutfalli við það markmið.

13. gr.
Afnám tiltekinna hindrana á skilvirkri nýtingu atkvæðisréttar

1.     Þessi grein á við þegar einstaklingur eða lögaðili, sem er viðurkenndur sem hluthafi samkvæmt gildandi lögum, kemur fram í viðskiptum fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila (umbjóðanda).
2.     Ef í gildandi lögum eru gerðar kröfur um opinbera birtingu sem forsendu þess að hluthafi, sem um getur í 1. mgr., geti nýtt sér atkvæðisrétt sinn, skulu slíkar kröfur ekki vera umfram það að taka saman skrá sem veitir félaginu upplýsingar um auðkenni hvers umbjóðanda og fjölda þeirra atkvæða sem hafa verið greidd fyrir hans hönd.
3.     Ef í gildandi lögum eru gerðar formlegar kröfur um leyfi hluthafa, sem um getur í 1. mgr., til að nýta atkvæðisrétt, eða fyrirmæli um atkvæðagreiðslu, skulu slíkar formlegar kröfur ekki vera umfram það sem nauðsynlegt er til að tryggja auðkenningu á umbjóðandanum eða möguleikann á að sannreyna efni fyrirmæla um atkvæðagreiðslu, eftir því sem við á, og skulu þær vera í réttu hlutfalli við þau markmið.
4.     Hluthafa, sem um getur í 1. mgr., skal heimilt að greiða atkvæði sem fylgja sumum hlutabréfum öðruvísi en fyrir önnur hlutabréf.
5.     Ef gildandi lög takmarka fjölda aðila, sem hluthafa er heimilt að tilnefna sem umboðshafa, í samræmi við 2. mgr. 10. gr., skal slík takmörkun ekki koma í veg fyrir að hluthafi, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, veiti hverjum umbjóðanda sínum umboð eða þeim þriðja aðila sem umbjóðandi hans tilnefnir.

14. gr.
Úrslit atkvæðagreiðslu

1.     Fyrir hverja ályktun skal félagið greina a.m.k. frá fjölda hlutabréfa, sem greitt hafa gild atkvæði, hlutfall hlutafjár sem liggur að baki þessum atkvæðum, heildarfjölda gildra atkvæða svo og fjölda atkvæða sem greidd hafa verið með og á móti hverri ályktun og, þar sem við á, fjölda þeirra sem sátu hjá.
Þó er aðildarríkjunum heimilt að kveða á um eða heimila félögum að kveða á um, fari enginn hluthafi fram á að gerð sé full grein fyrir atkvæðagreiðslu, að nægilegt sé að greina frá úrslitum atkvæðagreiðslu að því marki sem þörf er á til að tryggja að meirihluti náist fyrir hverri ályktun.
2.     Innan þess tíma sem tiltekinn er í gildandi lögum, sem skal ekki vera umfram 15 daga frá hluthafafundi, skal félagið birta á vefsetri sínu úrslit atkvæðagreiðslu sem fengin eru í samræmi við 1. mgr.
3.     Þessi grein er með fyrirvara um hvers kyns lagaákvæði sem aðildarríkin hafa samþykkt eða kunna að samþykkja að því er varðar tilskilin formsatriði til þess að ályktun geti talist gild eða varðandi það að lögleg úrslit atkvæðagreiðslu kunni að verða vefengd síðar.

III. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
15. gr.
Lögleiðing

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli eigi síðar en 3. ágúst 2009 til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ráðstafana.
Þrátt fyrir fyrstu málsgrein skulu þau aðildarríki þar sem 1. júlí 2006 voru í gildi innlend ákvæði, sem takmarka eða banna tilnefningu umboðshafa í því tilviki sem um getur í ii. lið annarrar undirgreinar 3. mgr. 10. gr., samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að 3. mgr. 10. gr. að því er varðar slíka takmörkun eða bann eigi síðar en 3. ágúst 2012.
Aðildarríkin skulu þegar í stað tilkynna framkvæmdastjórninni um fjölda þeirra daga sem tilgreindir eru í 3. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 7. gr. og allar síðari breytingar sem framkvæmdastjórnin skal birta í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Þegar aðildarríkin samþykkja ráðstafanirnar, sem um getur í 1. mgr., skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

16. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

17. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 11. júlí 2007.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING M. LOBO ANTUNES
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB C 318, 23.12.2006, bls. 42.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 15. febrúar 2007 (hefur ekki enn verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 12. júní 2007.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB C 104 E, 30.4.2004, bls. 714.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 184, 6.7.2001, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(9)    Stjtíð. ESB L 142, 30.4.2004, bls. 12.