Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 451  —  273. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Frá minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.



    Minni hlutinn gerir alvarlega athugasemd við þann hraða og óðagot sem einkennir framlagningu og vinnslu frumvarpsins en það var einungis viku til umfjöllunar í nefndinni. Það var samdóma álit gesta nefndarinnar og umsagnaraðila að tími til umsagna hefði verið allt of naumur enda voru þeim einungis gefnir þrír dagar til að skila athugasemdum um viðamikið mál. Þá var gagnrýnt í umsögnum sem og gestum að lítið sem ekkert samráð hefði verið haft við hagsmunaaðila. Minni hlutinn fordæmir þessi vinnubrögð.
    Minni hlutinn tekur undir þann megintilgang frumvarpsins að koma á meiri festu við framkvæmd atvinnuleysistrygginga og koma í veg fyrir misnotkun og auka virkni atvinnuleitenda. Mikilvægt er að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu og því vekja breytingartillögur meiri hlutans furðu. Með þeim eru tennurnar í reynd dregnar úr frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur til að felld verði brott mörg af þeim ákvæðum sem kveða á um hert viðurlög við brotum á lögunum eða er ætlað að veita Vinnumálastofnun nauðsynleg tæki til að taka á þeim sem gerast brotlegir við lögin og auka fælingarmátt þess að brjóta gegn lögunum. Minni hlutinn telur slíkt óásættanlegt enda eru bótasvik mikið vandamál í atvinnuleysistryggingakerfinu og geta skaðað kerfið til langframa. Rétt er að benda á að þeir sem svíkja út atvinnuleysisbætur eru í reynd að taka fé með sviksamlegum hætti úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. Minni hlutinn áréttar jafnframt að rík þörf er á því að endurskoða heildstætt viðurlög við brotum og svikum og tryggja að samræmis sé gætt í viðurlögum og refsiákvæðum sambærilegra brota í lögum um skatta og bætur.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að miðlun, eftirfylgni, aðstoð og annarri þjónustu Vinnumálastofnunar sé ábótavant og telur minni hlutinn að skoða beri alvarlega að flytja Atvinnuleysistryggingasjóð til aðila vinnumarkaðarins sem eru mun nær atvinnulífinu og betur til þess fallnir að sinna verkefninu. Þá tekur minni hlutinn undir þau sjónarmið sem höfð voru uppi við nefndina að stór hluti þess vandamáls sem glímt sé við nú sé skortur á atvinnu fremur en atvinnulaust fólk. Meiri hlutinn leggur ekki áherslu á sköpun starfa eða raunhæfar lausnir til eflingar atvinnulífi og átelur minni hlutinn hann fyrir það.
    Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir harðlega að frumvarpið sé lagt fram án þess að metinn sé kostnaðarauki sveitarfélaganna vegna breytinganna eins og skylt er samkvæmt samkomulagi Sambands íslenska sveitarfélaga, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra frá 30. desember 2005 um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögum. Sambandið telur að umtalsverður kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin felist í þessum breytingum, t.d. vegna framfærslu námsmanna í námshléum. Minni hlutinn tekur undir þessa gagnrýni og átelur að ekki hafi verið leitað leiða til að vinna úr þessu vandamáli í nefndinni eða einfaldlega hafna þessari breytingu þar til heildstæð lausn liggur fyrir.
    Í 28. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarfélög geti sett þau skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð að sá sem sækir um slíka aðstoð sé í virkri atvinnuleit eða taki þátt í vinnumarkaðsaðgerðum. Minni hlutinn styður að fjárhagsaðstoð sé skilyrt á þennan hátt enda mikilvægt að halda atvinnulausu fólki virku og aðstoða það til vinnu á ný. Þá er ótækt að þeir sem hafna vinnu, eru ekki í virkri atvinnuleit eða neita þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum eigi óhindrað rétt á framfærslu hjá sveitarfélögum. Tryggja þarf að atvinnuleysistryggingakerfið vinni með sveitarfélögum. Augljóst er þó af þeim athugasemdum sem nefndinni voru kynntar að ákvæði frumvarpsins er óskýrt og ekki nægilega ígrundað. Minni hlutinn telur mikilvægt að vinna þetta atriði miklu betur og leggur til að nefndin vinni lagafrumvarp í samráði við hagsmunaaðila, sveitarfélög og félags- og tryggingamálaráðuneyti á fyrstu mánuðum ársins 2010.
    Minni hlutinn ítrekar að það eru forkastanleg vinnubrögð að leggja frumvarpið svo seint fram sem raun ber vitni og afgreiða það eftir svo skamman tíma í nefnd. Þá telur minni hlutinn breytingartillögur meiri hlutans til þess fallnar að skaða málið.

Alþingi, 15. des. 2009.



Pétur H. Blöndal,


frsm.


Jón Gunnarsson.