Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 332. máls.

Þskj. 476  —  332. mál.



Tillaga til þingsályktunar

     um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi
og samfélagi um land allt.

(Lögð fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa sóknaráætlun til að efla atvinnulíf og samfélag um allt land. Markmiðið er að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þarf að huga sérstaklega að hvernig hægt er að tryggja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma. Sóknaráætlun felur í sér áform um fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfismál og samfélagslega innviði. Grundvöllur atvinnustefnunnar skal vera fjölbreytni, jafnræði, heilbrigðir viðskiptahættir, jafnrétti og græn atvinnuuppbygging í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.
    Heildstæð sýn og sameiginleg markmið tryggja markvissari og öflugri áætlanagerð. Með sóknaráætlun skal ríkisstjórnin samþætta opinberar áætlanir sem miða að því að efla atvinnu, menntun og endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Þannig verði stuðlað að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana, þvert á ráðuneyti. Við stefnumótunina skal sérstaklega huga að hópum sem hætt er við atvinnuleysi til langs tíma í kjölfar efnahagshrunsins, gera áætlanir sem miða að samfélagslegri þátttöku og virkni allra auk þess að styrkja samfélagslega innviði velferðarþjónustu, menntakerfis og menningarlífs. Samþætta þarf kynjasjónarmið allri áætlanagerð og tryggja að uppbygging samfélags og atvinnulífs taki mið af báðum kynjum.
    Lögbundnar áætlanir sem skal samþætta eru samgönguáætlun, sbr. lög nr. 33/2008, um samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, sbr. 2. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, byggðaáætlun sbr. 7. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun, áætlanir í ferðamálum, sbr. þingsályktun um ferðamál, nr. 90/2005, og áætlun um orkubúskap þjóðarinnar, hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins, sbr. 2. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum, sbr. 11. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Enn fremur skal flétta saman áætlanir til að vinna gegn atvinnuleysi, sí- og endurmenntunaráætlanir, aðrar áætlanir í mennta- og menningarmálum, áætlanir um þróun vísinda- og nýsköpunarumhverfisins, markáætlanir Vísinda- og tækniráðs og áætlanir í umhverfis- og skipulagsmálum. Þá skal sóknaráætlun fela í sér áætlun um endurskipulagningu opinberrar þjónustu og eflingu sveitarstjórnarstigsins.
    Samþætt sóknaráætlun skal gerð fyrir landið sem heild en jafnframt skulu unnar sóknaráætlanir fyrir einstök landsvæði, þar sem landinu er skipt í átta svæði, sjá viðauka. Ætlunin er að hver landshlutaáætlun byggist á greiningu á styrkleikum og veikleikum hvers svæðis fyrir sig þar sem dregin er fram lykilhæfni svæðisins og atvinnugreina innan þess, skýr forgangsröðun og framtíðarsýn sem góð samstaða er um. Landsvæðin eru: Vestursvæði, Vestfjarðasvæði, Norðvestursvæði, Norðaustursvæði, Austursvæði, Suðursvæði, Suðurnes og Höfuðborgarsvæði. Þá verði sérstaklega skoðaðir sameiginlegir sóknarmöguleikar svokallaðs Suðvestursvæðis (stórhöfuðborgarsvæðis) sem nái til alls suðvesturhluta landsins, þ.e. frá Borgarbyggð í vestri til Árborgar í suðri.
    Samþætt sóknaráætlun verði lögð fram á haustþingi 2010. Áherslur og forgangsröðun sóknaráætlunar munu síðar birtast í einstökum lögbundnum opinberum áætlunum, breytingum á þeim, framkvæmd þeirra og fjárveitingum til þeirra.
Viðauki.

Svæðaskipting sóknaráætlunar.

Graphic file sviskn~1.1jp with height 849 p and width 600 p Left aligned

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hefja undirbúning að nýrri sókn til eflingar atvinnulífs og samfélags um allt land. Þetta er liður í efnahagslegri endurreisn þjóðarbúsins og hefur það að markmiði að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Þetta verkefni hefur fengið nafnið 20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland.
    Forsætisráðherra hefur skipað stýrihóp sem hafi yfirstjórn með undirbúningi og framkvæmd verkefnisins. Formaður stýrihópsins er Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar.
    Verkefnið felur í sér stefnumörkun og áform um fjárfestingu sem tekur til atvinnustefnu og nauðsynlegra innviða efnahagslífsins, menntunar og mannauðs, nýsköpunar og þróunar og samfélagslegra innviða. Í sóknaráætluninni skal ríkisstjórnin samþætta opinberar áætlanir sem miða að því að efla atvinnu, menntun og opinbera þjónustu. Þá skal sóknaráætlun fela í sér áætlun um endurskipulagningu opinberrar þjónustu og eflingu sveitarstjórnarstigsins. Grundvöllur atvinnustefnunnar skal vera fjölbreytni, jafnræði, heilbrigðir viðskiptahættir, jafnrétti og græn atvinnuuppbygging í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Lögð er áhersla á að breið samstaða náist um sameiginlega framtíðarsýn og lykilákvarðanir í endurreisnarstarfinu. Stýrihópnum er því ætlað að vinna verkefnið í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, landshlutasamtök sveitarfélaga, hagsmunaaðila og hugmyndaríkt fólk á viðkomandi svæðum. Þá munu hlutaðeigandi ráðuneyti og undirstofnanir þeirra vinna með stýrihópnum að afmörkuðum þáttum.

Mótun framtíðarsýnar.
    Ein grunnstoð verkefnisins er að kalla fram framtíðarsýn fyrir landið í heild og einstaka landshluta. Lagt verður heildstætt mat á styrkleika Íslands og tækifæri og hvernig sækja megi fram, ekki síst á sviði mennta- og atvinnumála. Félagsvísindastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafa unnið stöðumatsskýrslu fyrir ríkisstjórnina og rýnt hefur verið í greiningar og stefnumótun sem fjölmargir aðrir hafa unnið að undanförnu, t.d. Vísinda- og tækniráð, Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin og ýmsar stofnanir.
    Á vegum iðnaðarráðuneytis og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hafa verið unnar svokallaðar sviðsmyndir sem verða nýttar sem grundvöllur fyrir stefnumótunarvinnuna.
    Sviðsmyndir henta vel til að ná fram sameiginlegum skilningi ólíkra aðila á framtíðinni og myndræn framsetning þeirra auðveldar miðlun til stærri hóps. Af þessum sökum hefur aðferðin verið mikið notuð við gerð landshluta- og svæðisáætlana víða um heim og er sömuleiðis algeng við mótun og uppbyggingu klasa.
    Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að niðurstöður og hugmyndir sem fram komu á Þjóðfundi sem haldinn var í nóvember að frumkvæði sjálfsprottins hóps sjálfboðaliða verði nýttar og samþættar stefnumótun sóknaráætlunar.
    Framtíðarsýninni er ætlað að leggja grunn að meginmarkmiðum sóknaráætlunar.

Grunnur forgangsröðunar verkefna og fjármuna.
    Önnur grunnstoð verkefnisins er hagræn greining til næsta áratugar, greining á samkeppnishæfni og mótun atvinnustefnu.

I. Hagræn greining.
    Efnahags- og viðskiptaráðuneytið mun hafa forustu um gerð hagrænnar greiningar til næsta áratugar. Þar verða skilgreindir lykilþættir sem áhrif geta haft á verðmætasköpun og hagsæld. Jafnframt verða dregnir fram styrkleikar og veikleikar íslensks efnahagslífs og lykilviðfangsefni sem stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Greiningin verður unnin í samvinnu við Seðlabanka og fjármálaráðuneyti, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Á grundvelli hennar verður sett fram forgangsröðun áherslna, verkefna og fjárfestinga í sóknaráætlun.

II. Samkeppnishæfni.
    Auk framangreindrar greiningar mun efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafa forustu um að meta stöðu Íslands, m.a. með hliðsjón af alþjóðlegum mælikvörðum. Þá verða árangursviðmið skilgreind og þeim fylgt frá ári til árs í þeim tilgangi að meta og bæta jafnt og þétt framvindu á einstökum sviðum. Í því augnamiði hefur verið settur á fót verkefnishópur um samkeppnishæfni sem er ætlað að móta áherslur sem aukið geta samkeppnishæfni landsins. Við mælingu á samkeppnishæfni er að grunni til gengið út frá greiningum og mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum, WEF) sem Ísland er þátttakandi í. Að auki mun verkefnahópurinn líta til alþjóðlegra samantekta, rannsókna og verkefna á þessu sviði sem geti orðið mikilvæg eða áhugaverð viðbót við mælingar Alþjóðaefnahagsráðsins. Fimm hópar, skipaðir sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnsýslu og háskólaumhverfinu, munu rýna í mælingar og gera tillögur til umbóta hver á sínu sviði sem skiptast þannig:
          Grunngerð og stofnanir, þ.e. stofnanir (institutions), grunnstoðir/innviðir (infrastructure), efnahagslegur stöðugleiki (macroeconomic stability).
          Skilvirkni og markaðir, þ.e. markaðsstærð, skilvirkir markaðir, skilvirkt vinnuafl, hæfni fjármálamarkaða og viðskipti.
          Menntun og vísindi, þ.e. grunnmenntun, framhaldsmenntun og endurmenntun.
          Nýsköpun og þróun, þ.e. tæknigrunnur og nýsköpun.
          Lífsgæði, heilbrigði og jöfnuður.
    Framangreindum verkefnishópi er einnig ætlað að gera tillögur um og sjá til þess að þróaðir verði mælikvarðar til að meta árangur í einstökum landshlutum og aðra þætti sem skipta máli til að sóknaráætlunin nái markmiðum sínum, svo sem lífsgæði og jöfnuð.
    Verkefnishópurinn mun standa fyrir a.m.k. tveimur opnum fundum ár hvert. Að vori þar sem fjallað verður um umbótatillögur grunnsviðanna og eftirfylgni þeirra, í fyrsta sinn vorið 2010, og í vetrarbyrjun þar sem gerð verður grein fyrir árlegri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði.

III. Atvinnustefna.
    Settur hefur verið á fót samráðshópur til þess að halda utan um vinnu við mótun atvinnustefnu. Honum ber m.a. að hafa víðtækt samráð við atvinnulíf, félags- og hagsmunasamtök. Atvinnustefnan skal m.a. taka til:
          efnahags- og samfélagsuppbyggingar sem ætla má að nýtist Íslandi best með tilliti til styrkleika og veikleika landsins,
          þess hlutverks sem þjóðin ætlar sér í efnahagskerfi heimsins til langs tíma,
          fyrirtækja- og þekkingarklasa sem áhersla verður lögð á að byggja upp.
    Sóknarfæri hefðbundinna atvinnuvega verða skoðuð en megináhersla verður á ný tækifæri til sóknar. Alþjóðlegir mælikvarðar verða m.a. notaðir til að meta núverandi stöðu og sem árangursviðmið frá ári til árs í þeim tilgangi að bæta jafnt og þétt framvindu á einstökum sviðum.

Samþætting áætlana.
    Þriðja grunnstoð verkefnisins er samþætting opinberra áætlana sem miða að því að efla atvinnu, menntun og opinbera þjónustu. Lögbundnar áætlanir sem skal samþætta eru samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, byggðaáætlun, áætlanir í ferðamálum, áætlun um orkubúskap þjóðarinnar, hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins og framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Enn fremur áætlanir í mennta- og menningarmálum, áætlanir um þróun vísinda- og nýsköpunarumhverfisins, markáætlanir Vísinda- og tækniráðs og áætlanir í umhverfis- og skipulagsmálum. Þá skal sóknaráætlun fela í sér áætlun um endurskipulagningu opinberrar þjónustu og eflingu sveitarstjórnarstigsins.
    Samþætt sóknaráætlun skal gerð fyrir landið í heild en jafnframt skulu unnar sóknaráætlanir fyrir einstök landsvæði, þar sem landinu er skipt í átta svæði, sbr. kort í viðauka við tillöguna, sem hvert um sig stefni að sameiginlegum markmiðum til samfélagslegrar uppbyggingar. Landsvæðin eru: Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og Suðvesturland („stórhöfuðborgarsvæði“), þ.m.t. Suðurnes. Ætlunin er að hver áætlun byggi á greiningu á styrkleikum og veikleikum hvers svæðis, skýrri forgangsröðun og framtíðarsýn sem góð samstaða er um.
    Samþætt sóknaráætlun skal lögð fram á haustþingi 2010. Í sóknaráætlun fyrir landið í heild verður lagt heildstætt mat á styrkleika Íslands og tækifæri og hvernig sækja megi fram, ekki síst á sviði mennta- og atvinnumála. Í áætluninni mun m.a. koma fram meginmarkmið, undirmarkmið, forgangssvið og forgangsverkefni sem miði að því að efla hagsæld og velmegun landsins í heild og auka lífsgæði og getu efnahags- og atvinnulífs til að standast alþjóðlegan samanburð. Sóknaráætlun landshluta er ætlað að stuðla að því og tryggja eftir föngum að hver og einn landshluti nýti kosti sína og styrkleika til hins ýtrasta í þágu sömu heildarhagsmuna. Við núverandi aðstæður er skiptingu landsins í svæði jafnframt ætlað að skapa viðspyrnu í endurreisnarstarfinu og stuðla að sterkum samfélögum og lífsgæðum til framtíðar.
    Með svæðaskiptingunni er leitast við að:
     1.      styrkja samkeppnishæfni svæða og landsins í heild,
     2.      byggja á markvissan hátt upp opinbera þjónustu um allt land og gera verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga skilvirkari,
     3.      efla getu svæða og sveitarfélaga til þess að taka að sér verkefni og stuðla þannig að aukinni valddreifingu,
     4.      auka samstarf sveitarfélaga og skilvirkni við nýtingu fjármagns,
     5.      tryggja virkt samspil öflugrar landsbyggðar og öflugs höfuðborgarsvæðis þar sem hvort styður við annað.
    Grunnur að svæðaskiptingunni var unninn af hópi verkefnisstjóra ráðuneytanna sem best þekkja til opinberrar áætlanagerðar, stjórnsýslu og þjónustu sem byggir á skiptingu landsins í svæði. Haft var samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga. Að fengnum ábendingum hinna síðarnefndu byggist svæðaskiptingin að verulegu leyti á núverandi starfssvæðum þeirra.
    Landshlutasamtök sveitarfélaga munu gegna mikilvægu hlutverki við gerð áætlunar á hverju svæði. Gengið er út frá því að sveitarfélögin á hverju svæði vinni saman að ákveðnum verkefnum og að náin samvinna verði á milli svæða. Markmiðið er m.a. að efla burði svæða og sveitarfélaga til þess að taka að sér verkefni og auka valddreifingu. Sameinuð sveitarfélög innan svæða eða öflugt samstarf sveitarfélaga á hverju svæði fyrir sig er því í raun forsenda fyrir slíkum verkefnaflutningi.
    Skipulagðir verða vinnufundir á hverju svæði undir handleiðslu ráðgjafa þar sem settir eru fram stefnumótandi valkostir og þeir ræddir. Gert er ráð fyrir að þau svæði sem skarast samræmi vinnuna á fyrstu stigum hennar. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) falla innan marka „stórhöfuðborgarsvæðisins“ en til viðbótar þurfa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) að vinna saman við gerð þeirrar áætlunar eða alls fjögur landshlutasamtök. Sóknaráætlun á þessu svæði kallar á samvinnu þessara samtaka og sveitarfélaga innan þeirra marka. Það þýðir að SASS og SSV koma að gerð tveggja áætlana þar sem þau koma einnig að gerð áætlana fyrir sín svæði óskert. Árborg mun því t.d. falla undir tvær áætlanir, þ.e. annars vegar sem þjónustukjarni fyrir Suðurland og hins vegar sem jaðarbyggð höfuðborgarsvæðisins. Eðlilegt er að í upphafi vinnunnar verði tekin afstaða til þess hvort ástæða er til að vinna sérstaka sóknaráætlun fyrir Suðurnes eða að hún verði alfarið unnin sem hluti heildstæðrar áætlunar fyrir allt svæðið.
    Svo að vel takist til við gerð sóknaráætlunar fyrir einstök svæði þarf að fara fram greining á styrkleikum og veikleikum hver svæðis. Þannig er gert ráð fyrir að Hagstofa Íslands og Byggðastofnun leggi til upplýsingar sem snýr að mannauðinum, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti leggi til upplýsingar um náttúruauðlindir og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti leggi til upplýsingar um innviði á vegum hins opinbera. Að lokinni greiningarvinnu verði boðað til víðtæks samráðs innan hvers landshluta þar sem öllum áhugasömum gefst kostur á að koma að mótun helstu kosta sem unnið verður með við gerð sóknaráætlunarinnar.
    Gert er ráð fyrir að Byggðastofnun, starfsstöðvar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, atvinnuþróunarfélög, menntastofnanir og setur og velferðarstofnanir í viðkomandi landshlutum hafi samvinnu um að veita landshlutasamtökunum ráðgjöf við gerð sóknaráætlunarinnar.
    Sóknaráætlun hvers landshluta mun fela í sér stefnumörkun og áherslur á eftirfarandi sviðum:
     1.      Atvinnuþróun. Þar verður lögð áhersla á möguleika í nýsköpun og skapandi greinum, sjálfbærni í nýtingu auðlinda, svo sem jarðorku og vatnsorku og uppbyggingu og þróun í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði.
     2.      Mannauður. Þar verður lögð áhersla á að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla þannig að allir einstaklingar eigi jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Horft verður til aldursskiptingar og hvernig skuli brugðist við hugsanlegu misvægi í aldursþróun. Þá verði samræmdar áherslur og skipulag í grunnmenntun, framhaldsmenntun og starfsþjálfun á viðkomandi svæði.
     3.      Félagsauður. Þar verður lögð áhersla á skipulag heilbrigðisþjónustu og skipulag félagsþjónustu með tilliti til aldraðra, öryrkja, fatlaðra og atvinnulausra. Hér er um kostnaðarsama þjónustu að ræða og því mikilvægt að samþætta þjónustuna innan svæðisins og við nærliggjandi svæði og þar með að samnýta það fé sem veitt er til þessa málaflokka. Þá verður einnig áhersla lögð á gott framboð frístundastarfs á sviði menningar og íþrótta og athugað hvernig virkja megi einstaklinga og félagasamtök við skipulagningu þess starfs.
     4.      Innviðir. Þar verður lögð áhersla á samgöngumannvirki, fjarskipti, orku- og veitukerfi og opinbera þjónustu, svo sem umhverfismál, lagaumhverfi, eftirlits- og öryggismál og skattkerfi. Horft verður til þess að innviðir samfélagsins stuðli að framförum og eflingu atvinnulífs og samfélags.
     5.      Leikreglur. Þar verður lögð áhersla á samfélagslega ábyrgð, almennar siðareglur og agaða forgangsröðun framkvæmda þar sem arðsemi og aukin samkeppnishæfni verða höfð að leiðarljósi. Áhersla á vandaða áætlanagerð og eftirfylgni framkvæmda þannig að bæði kostnaðar- og tímaáætlanir standist.
     6.      Mælanleg markmið um árangur. Áhersla er lögð á að sóknaráætlunin verði þannig fram sett að jafnhliða verði sett fram árangursmarkmið til að stefna að og kvarðar til að mæla árangur.
    Þegar drög að sóknaráætlun liggur fyrir verða á ný opnar vinnustofur í hverjum landshluta þar sem áætlunin verður kynnt og íbúum gefinn kostur á að koma með athugasemdir.
    Í sóknaráætlun fyrir hvern landshluta mun liggja fyrir forgangsröðun og áherslur á ýmsum sviðum sem ætla má að víðtæk sátt sé um. Samhliða þessu og í kjölfarið verða lögbundnar og ólögbundnar áætlanir felldar að sömu áherslum. Miklu skiptir fyrir árangur þessarar vinnu að landshlutasamtök horfi á sóknarfæri til framtíðar á breiðum grunni og líti einnig til nærliggjandi svæða.
    Með því móti næst meiri viðspyrna í atvinnumálum og grunnur fyrir öflugri verkefni. Þannig ættu einnig að gefast ný og spennandi tækifæri til að setja fram sýn um nánari samvinnu og samþættingu í allri opinberri þjónustu og verkefnum sem snúa að atvinnu- og byggðamálum. Sumum verkefnum væri hægt sinna á sameiginlegum þjónustumiðstöðvum ríkis og sveitarfélaga, svo sem á sviði velferðarþjónustu ef málaflokkar yrðu ekki fluttir í heild til sveitarfélaga. Almennt ætti þó að huga að því að hafa verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem skýrasta, tryggja að tekjustofnar fylgi með verkefnum og forðast þannig ágreining í kjölfar flutnings. Í því efni þarf jafnframt að hafa í huga stjórnsýsluverkefni sem nú eru hjá sveitarstjórnum en eiga betur heima hjá ríkinu. Óháð því hvaða verkefnaflutningur verður formlega í fyllingu tímans og hvernig honum verður áfangaskipt er mikilvægt að á hverju svæði verði sett fram sýn um möguleg samlegðaráhrif, samvinnu og samrekstur þar sem við á. Þess vegna er mikilvægt að samræma umdæmi og þjónustusvæði allrar opinberrar þjónustu til að stuðla að einfaldari samskiptum og samvinnu, óháð því hvaða verkefni eru og verða á hendi ríkisins og sveitarfélaga. Þá er ljóst að sum hinna sjö svæða eru svo fámenn að skynsamlegt er að stjórnsýsluumdæmi nái yfir fleiri en eitt svæði. Mikilvægt er hluti af gerð sóknaráætlunar verði að horfa til slíks samstarfs einstakra svæða við nærliggjandi svæði.

Nánar um einstök svæði:
Höfuðborgarsvæði.
    Lagt er til að Höfuðborgarsvæðið nái til Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarneskaupstaðar og Sveitarfélagsins Álftaness.

Suðurnes.
    Lagt er til að Suðurnes séu sérstakt svæði sem nái til Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga.

Suðvestursvæði („stórhöfuðborgarsvæði“).
    Lagt er til að útbúin verði sóknaráætlun fyrir Suðvestursvæði (stórhöfuðborgarsvæði). Svæðið nái til alls suðvesturhluta landsins, þ.e. höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness í vestri, Árborgarsvæðis í austri og Akraness/Borgarfjarðar í norðri. Þetta styðst við þau rök að í raun er svæðið að verulegu leyti eitt atvinnusvæði sem verður að skoða heildstætt. Á hinn bóginn tilheyra jaðrar þess í austri og norðri jafnframt öðrum landshlutum.

Vestursvæði.
    Kjósarhreppur, Hvalfjarðarsveit og Akranes, sem hafa um 7.500 íbúa, eru innan stærra Suðvestursvæðisins en þar er einnig þjónustukjarni fyrir Vesturland. Á Vesturlandi, frá stærra Suðvestursvæðinu að Vestfjörðum, búa um 9.000 manns og þar af tæplega 4.000 í Borgarbyggð. Svæðið nýtur góðs af sterkri tengingu við Suðvestursvæðið.

Vestfjarðasvæði.
    Á Vestfjörðum búa um 7.000 manns. Líkt og Norðvestursvæðið er Vestfjarðasvæðið fámennt svæði og þyrfti uppbygging þar og skipulag samgöngubóta og opinberrar þjónustu að vera í góðu samhengi við Vestursvæði.
    Íbúar Bæjarhrepps horfa til Húnaþings vestra frekar en Vestfjarða og eftir að vegur um Arnkötludal verður aðalvegurinn til Vestfjarða er talið að hreppurinn eigi frekar samleið með Norðvestursvæðinu en Vestursvæðinu.

Norðvestursvæði.
    Á Norðvestursvæði búa um 7.500 manns. Sé einungis litið til fólksfjölda er svæðið nokkuð fámennt en styrkleikar þess eru m.a. að þar eru ýmsir möguleikar á öflugu samstarfi innan svæðisins og við nærliggjandi svæði.
    Svæðið liggur að Norðaustursvæði en þar er sterkur þjónustukjarni í Eyjafirði sem ætti að geta skapað sóknarfæri og samvinnu milli þessara tveggja svæða, t.d. í atvinnumálum. Þá ætti tenging svæðisins við Vestursvæðið og tenging þess svæðis við Suðvestursvæðið einnig að vera styrkur fyrir Norðvestursvæðið.
    
Norðaustursvæði.
    Á Norðausturlandi er Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið áberandi sterk miðja. Á Eyjafjarðarsvæðinu búa 24.000 manns og um 5.000 manns austan Eyjafjarðar. Svæðið í heild hefur því tæplega 30.000 íbúa og þar með alla burði til þess að verða öflugt. Svæðið ætti einnig að geta verið styrkur fyrir nálæg fámennari svæði, þ.e. Austursvæði og Norðvestursvæði. Lagt er til að Langanesbyggð og sveitarfélögin þar fyrir vestan tilheyri Norðaustursvæði, sem er í samræmi við vilja íbúanna og fyrirsjáanlegar samgöngubætur munu tengja sveitarfélögin frekar Norðaustursvæðinu en Austursvæðinu.

Austursvæði.
    Á Austurlandi án Hornafjarðar búa tæplega 11.000 manns. Þar af eru um 8.500 í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði sem mynda sterka miðju í annars dreifbýlu svæði. Ekki er talinn grundvöllur fyrir því að sameina þetta svæði Norðaustur- eða Suðursvæði vegna fjarlægðar frá þjónustukjarna þeirra.

Suðursvæði.
    Á Suðurlandi búa um það bil 26.000 manns, þar af rúmlega 12.000 manns í Ölfusi, Árborg og Hveragerði. Árborg, með 8.000 íbúa, er í senn innan stærra Suðvestursvæðisins og sterkur þjónustukjarni fyrir Suðursvæðið en um Árborg fara flestir af Suður- og Austurlandi sem leið eiga til höfuðborgarsvæðisins.
    Um sveitarfélagið Hornafjörð, sem hefur rúmlega 2.000 íbúa og lagt er til að tilheyri Suðursvæði, gilda svipuð rök og um Langanesbyggð nema ljóst er að fjöldi íbúa þar gæti skipt máli fyrir Austursvæðið. Vegna stærðar byggðarinnar og fjarlægðar frá stærri þjónustukjörnum hvort heldur er á Austur- eða Suðurlandi verður ákveðin grunnþjónusta að vera á Hornafirði. Talið er að vilji íbúanna standi til að tilheyra Suðursvæðinu og að það eigi að ráða úrslitum.

Fjármögnun verkefnisins 20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland.
    Verkefnið 20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland er komið vel af stað. Í ljósi þröngrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs hefur verið lagt upp með að takmarka bein útgjöld ríkisins eins og kostur er. Þannig er t.d. lögð áhersla á að þeir hagsmunaaðilar sem koma að áætluninni standi undir kostnaði sem af þátttöku þeirra leiðir. Þeim tilmælum hefur verið beint til ráðuneyta og stofnana þeirra að þær standi straum af kostnaði sínum tengdum verkefninu.
    Ríkisstjórnin mun leggja verkefninu til 20 millj. kr. á árinu 2009 og reiknað er með að veittar verði til þess 25 millj. kr. á fjárlögum fyrir árið 2010. Þessum fjármunum er ætlað að standa undir kostnaði við verkefnastjórn heildarverkefnisins og samræmda ráðgjöf, gagnaöflun og verkstjórn við gerð sóknaráætlana fyrir einstök sóknarsvæði. Enn fremur er fjármununum ætlað að standa undir kostnaði við kynningarfundi, ráðstefnur og útgefið efni.