Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 228. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 509  —  228. mál.
Leiðrétting.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin fjallaði um málið að nýju eftir 2. umræðu og fékk á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti og Ragnar Hafliðason og Þorstein Marinósson frá Fjármálaeftirliti. Rætt var um stöðu Lánasjóðs sveitarfélaga en ljóst þykir að verði frumvarpið óbreytt að lögum mun álagt eftirlitsgjald á sjóðinn aukast umtalsvert.
    Fram kom á fundinum að skýring þessarar hækkunar sé annars vegar sú að stofn sem myndar fjárhæð eftirlitsgjalds hefur hækkað hlutfallslega meira hjá sjóðnum en hjá öðrum eftirlitsskyldum aðilum. Með öðrum orðum hefur efnahagsreikningur sjóðsins vaxið meðan um minnkun er að ræða hjá öðrum lánastofnunum. Hins vegar eru samkvæmt frumvarpinu lögð til hærri álagningarhlutföll hvað snertir lánastofnanir vegna hækkaðs hlutfalls þeirra í verkefnum eftirlitsins.
    Samkvæmt a-lið 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins verður álagningarhlutfall viðskiptabanka 0,0176% af eignum og verður því hærra en álagningarhlutfall lánafyrirtækja o.fl. aðila skv. b-lið 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. þar sem hlutfallið er 0,0159%. Til flokks lánafyrirtækja heyra, ásamt Lánasjóði sveitarfélaga, Byggðastofnun, kreditkortafyrirtæki o.fl.
    Bent var á að um Íbúðalánasjóð gildir sérregla sbr. 11. tölul. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Þá má geta þess að samið var um að Íbúðalánasjóður væri undanþeginn því að teljast lánastofnun þegar Íslands gerðist aðili að EES-samningnum og um hann gilda sérlög, sbr. lög nr. 44/1998, um húsnæðismál.
    Meiri hlutinn telur að ef endurskoða á það fyrirkomulag sem gildir um það hvar í flokki einstaka eftirlitsskyldir aðilar lenda þarfnist slíkt gaumgæfilegrar skoðunar. Ekki er heppilegt að undanskilja tiltekinn eftirlitsskyldan aðila þeirri álagningu sem á við um sambærilegar stofnanir án þess að huga að málum í stærra samhengi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 18. des. 2009.



Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Árni Þór Sigurðsson.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir.


Eygló Harðardóttir.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Margrét Tryggvadóttir.